Það er óhætt að segja að hann Maros Zatko hafi upplifað hvað karma getur verið magnaður hlutur. Maros er veiðimaðurinn sem landaði 101 sentímetra fiski í Eystri-Rangá í fyrradag.
Fyrir nokkrum vikum fór hann ásamt fleirum í sjálfboðaverkefni við að bjarga innlyksa sjóbirtingum sem beið ekkert annað en dauði í Grenlæk í Landbroti. Fiskurinn var fastur í pollum og rann ekki vatn á milli þeirra enda Grenlækur þurr á margra kílómetra kafla. Fyrstu tvo dagana bjargaði hann ellefu stórum birtingum og keyrði þá niður í Flóð þar sem hann sleppti þeim.
Sporðaköst höfðu samband við Maros vegna þessa verkefnis og spurðu meðal annars, af hverju ertu að gera þetta?
„Ég er veiðimaður og veiði mér oft til matar. Hér er tækifæri til að gefa til baka og mér finnst það mikilvægt,“ svaraði hann.
„Þú átt eftir að verða heppinn í veiðinni í sumar,“ lét ritstjóri síðunnar þá út úr sér. „Veiðigyðjan verðlaunar sína.“
Maros svaraði á móti að það yrði gaman.
„Mér var svo rosalega hugsað til þessa samtals, þegar ég sá laxinn í háfnum. Var að hugsa um þetta sem þú sagðir. En já það fylgdi þessu einhver blessun,“ brosti Maros.
Hann var nýlega búinn að missa stóran fisk, áður en að hann setti í hundraðkallinn. „Ég var rosalega svekktur að missa hann en ákvað að labba aftur á sama stað og kastaði aftur. Þá tók þessi og þetta var svakaleg viðureign. Hann hreinsaði sig margsinnis alveg og fór með mig upp og niður og þetta tók sjálfsagt hálftíma, eða meira. En þegar ég sá hann í háfnum sagði ég, hann er of stór.“
Fiskurinn mældist eins og fyrr segir 101 sentímetri og tók flugu sem ekki hefur fengið nafn, en það er eins og með svo margar flugur hjá Maros. Hann hnýtir og hannar en er minna að hugsa um að skýra þær. Hér fylgir með mynd af flugunni sem hundraðkallinn féll fyrir. Veiðigyðjan launar oft ríkulega.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |