Veiðiævintýri á Íslandi á ITV í Bretlandi

Tveir breskir leikarar tóku upp þriggja þátta sjónvarpsseríu um veiði á Íslandi í fyrra. Sjónvarpsstöðin ITV, sem er ein af stóru stöðvunum í Bretlandi, keypti sýningarréttinn og fer fyrsti þátturinn í loftið á morgun. Þættirnir heita Robson and Jim's Icelandic Fly Fishing Adventure. Sem gæti útlagst sem Fluguveiði ævintýri Robsons og Jims á Íslandi.

Robson Green og James Murray, sem eru báðir þekktir leikarar í Bretlandi, eru gestgjafar þáttanna, sem voru teknir upp í fyrra. Þrátt fyrir Covid tókst þeim að komast til Íslands með síðustu vel í lok maí. Þeir félagar fóru víða. Veiddu Sogið, Blöndu, Þingvallavatn, Eldvatn, Víðidalsá, Miðfjarðará, Þverá og Urriðafoss í Þjórsá.

Sporðaköst önnuðust stjórn upptöku á Íslandi og kvikmyndatökumennirnir Steingrímur J. Þórðarson og Friðrik Þór Halldórsson, ásamt fleirum, mynduðu ferðalag þeirra félaga. Tim Palmer, eitt af stóru nöfnunum í breska bransanum, var líka í kvikmyndatökuliðinu. Björn Steinbekk drónaflugmaður tók einnig upp efni fyrir þættina.

Það er óhætt að fullyrða að Ísland sem veiðiland, hvort sem er á sviði silungsveiði eða laxveiði, hefur aldrei fengið viðlíka kynningu. Um er að ræða þrjá þætti sem hver um sig er um 45 mínútur að lengd. 

Fyrir utan veiðina, sem báðir leikararnir hafa mikla ástríðu fyrir, horfa þeir til heilandi áhrifa fluguveiði. Báðir hafa þeir tekist á við alvarleg áföll í lífinu og eiga það sameiginlegt að hafa nýtt fluguveiðina til að ná bata.

Sporðaköst höfðu samband við þá félaga og spurðu hvað sæti eftir þegar Íslandsferðin er skoðuð í baksýnisspeglinum.

„Ég bara get ekki þakkað Íslandi og íbúum þess nægilega fyrir að lána okkur þetta stórkostlega land til að kynnast konungi fiskanna, laxinum. Ef það er eitthvað til sem heitir endurholdgun þá myndi ég kjósa mér að fæðast aftur sem íslenskur lax,“ sagði James Murray í samtali við Sporðaköst í tilefni af því að fyrsti þáttur verður frumsýndur á morgun.

Murray talar hiklaust um Ísland sem mekku laxveiðinnar.

Robson Green, sem hefur ásamt Murray komið fram í Sporðakastaþáttum á Íslandi, er einhver þekktasti veiðiþáttagerðarmaður heims. Hann segir í tilefni frumsýningarinnar að ef einhver spyrði hann hvert hann ætti að fara í síðasta veiðitúrinn væri svarið einfalt: Ísland.

Meðfylgjandi er „trailer“ eða kynningarmyndband frá ITV.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert