Hoppandi hamingja yfir maríulaxi

Maríulaxinum fagnað. Hoppandi hamingja sagði veiðikonan Ásta Sóllilja og það …
Maríulaxinum fagnað. Hoppandi hamingja sagði veiðikonan Ásta Sóllilja og það sést hér. Klikkaðu á myndina til að sjá hana til fulls. Ljósmynd/ABP

Allt veiðiáhugafólk man eftir maríulaxinum sínum. Sumir gleðjast þó meira en aðrir þegar þessum merka áfanga er náð. Hópur kvenna var við veiðar í Víðidalsá í síðustu viku og þar var tveimur maríulöxum landað. 

Annar þeirra veiddist í Símastreng, sem er ofarlega í Víðidalsá. Veiðikonan, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir varð þeirrar ánægju aðnjótandi að setja í og landa sínum fyrsta laxi í veiðitúr með veiðihópnum Kampavín og kavíar. Hún var með leiðsögumann en hafði aldrei landað laxi, þrátt fyrir að hafa að baki nokkrar ferðir í laxveiði. Hún hafði farið í Laxá í Aðaldal og eins hún segir sjálf, „Það var kannski full mikil áskorun fyrir byrjanda. Svo er ég búin að fara í ár fyrir vestan sem ég man ekki hvað heita og Fljótá og svo fór ég í Þverá í fyrra og þá í fyrsta skipti með leiðsögumanni. Ég var að vona þá að maríulaxinn kæmi, en það gekk ekki,“ sagði Ásta Sóllilja í samtali við Sporðaköst.

Brosað hringinn með maríulaxinn. Ásta og Nils bæði afar ánægð. …
Brosað hringinn með maríulaxinn. Ásta og Nils bæði afar ánægð. Í baksýn má sjá veiðistaðinn Símastreng og einnig Víðidalstungukirkju lengst til vinstri á myndinni. Ljósmynd/ABP

Hún var mjög spennt fyrir ferðinni í Víðidalsá og af þeim sextán konum sem þar voru höfðu tvær ekki landað sínum fyrsta laxi. „Það voru allir mjög metnaðarfullir fyrir okkar hönd. Gerður Bárðardóttir náði sínum maríulaxi og það á afmælisdaginn. Það var alveg stórkostlegt og ég hugsaði með mér að það væri rosa gaman að ná þessu líka. Ég er ekki mikil keppnismanneskja, en hugsaði með mér; þar sem ég er að verða fimmtug á árinu að það væri virkilegur hápunktur að ná laxi," sagði Ásta.

Leiðsögumaðurinn hennar var Nils Folmer Jörgensen og hann var mjög einbeittur fyrir hönd Ástu að láta þetta ganga upp. „Við vorum búin að veiða Símastreng og þá setti ég í fisk og missti hann. Ég fékk þennan veiðistað á heilann og var stöðugt að tala um hann, eftir þetta," upplýsir Ásta.

Hún var sannfærð um að hún yrði að komast þangað aftur. Vinkona hennar setti svo í lax og landaði í Símastreng og loks var komið að Ástu og vinkonum að fara aftur í þennan veiðistað. „Þegar við komum á veiðistaðinn sagði Nils, sú sem byrjar fær lax. Athyglin var á mér og ég var látin byrja. Ég fór með fluguna Green Brahan, sem er sama fluga og vinkona mín hafði veitt lax á í þessum stað, deginum áður. Ég tók þrjú köst og hann tók,“  segir Ásta.

Augnablikið. Hann er í háfnum og maríulaxinn kominn á land.
Augnablikið. Hann er í háfnum og maríulaxinn kominn á land. ljósmynd/ABP

Nils Folmer segir í samtali við Sporðaköst að þetta hafi verið frábært augnablik. „Hún var svo tilbúin til að hlusta á ráðleggingar og gerði þetta mjög vel. Þetta er það skemmtilegasta við starf leiðsögumannsins.“

„Ég trúði því varla þegar hann tók og það var mjög dýrmætt að hafa Nils sér við hlið þegar ég var að eiga við fiskinn. Nils hjálpaði mér mikið því ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ef ég hefði verið ein hefði ég verið stressuð en hann gerði það að verkum að ég var alveg róleg. Ég var hoppandi af hamingju með þetta.“

Laxinum var landað og mældist hann 67 sentímetrar og því mátti Ásta taka hann með sér og bauð fjölskyldunni í grillaðan lax, kvöldið sem veiðiferðinni lauk. Það var stolt fjölskyldumóðir sem bar fram besta lax sem nokkur hafði smakkað, eins og hún lýsir því. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert