Enn er rólegt yfir laxveiðinni

Tekist á við lax í Ytri-Rangá. Hún skilaði vikuveiði upp …
Tekist á við lax í Ytri-Rangá. Hún skilaði vikuveiði upp á 213 laxa. Það eru flestir laxar á einu vatnasvæði í síðustu viku. Hafa ber hins vegar í huga að veiðisvæðið ber tuttugu stangir. westranga.is

Nýjar veiðitölur fyrir laxveiðiár sýna að enn er veiðin með rólegra móti. Sumarið er hins vegar töluvert öðruvísi en undanfarin ár. Laxinn virðist vera að ganga síðar. Best sést þetta í Borgarfirðinum og þá helst í Norðurá, þar sem enn eru góðar göngur á ferðinni. 

Norðurá skilaði vikuveiði upp á 184 laxa og er samtals komin í 717. Með sama áframhaldi er hún að fara vel upp fyrir sumarveiðina í fyrra sem var 980 laxar.

Urriðafoss trónir enn á toppnum með 741 lax og síðasta vika gaf 73 laxa.

Í þriðja sæti er Þverá/Kjarrá með 567 laxa og síðasta vika skilaði 167 löxum. Langstærsti hluti veiðinnar er úr Þverá, en veiðin í Kjarrá er afar róleg þessa dagana og ekki mikið af fiski gengið upp úr samkvæmt veiðimanni sem var þar að veiðum í vikunni.

Eystri-Rangá er fjórða í röðinni með 492 laxa. Veiddust 173 laxar þar í síðustu viku. Á sama tíma í fyrra var Eystri með 2.300 laxa. Enn er lúsugur stórlax að ganga og þykir það seint á þeim bænum og eykur vonir manna um að smálaxinn sé seinna á ferðinni.

Ytri-Rangá og Hólsá gaf 213 laxa í síðustu viku og er komin í 384 laxa.

Haffjarðará stendur fyrir sínu í sjötta sæti og var vikuveiðin 112 laxar. Samtals komin í 377 laxa.

Miðfjarðará er í sjöunda sæti með 363 laxa og skilaði síðasta vika 157 löxum. Þar er vatnsleysi og sól dögum saman að gera mönnum lífið leitt.

Áttunda er Langá á Mýrum með 306 laxa og vikuveiði upp á 152 laxa. Tvöfaldaðist veiðin milli vikna.

Níunda er Laxá í Kjós með 302 laxa og vikuveiði upp á 85 fiska.

UPPFÆRT

Elliðaárnar eru í tíunda sæti með 232 laxa.

Grímsá og Tunguá í því ellefta með 217 laxa.

Selá í Vopnafirði er svo með 202 laxa í tólfta sæti, en vikuveiðin var 123.

Aðrar ár eru með minna, en þessar tölur er fengnar af vef Landssambands veiðifélaga og er hægt að skoða fleiri ár á angling.is.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira