Metholl og metlax í Norðurá

Jóhannes með 99 sentimetra hænginn sem tók leyniflugu í Myrkhyl …
Jóhannes með 99 sentimetra hænginn sem tók leyniflugu í Myrkhyl í gær. Sá stærsti úr Norðurá til þessa í sumar. Ljósmynd/ÞÞ

Þriggja daga holl sem lauk veiðum í Norðurá í Borgarfirði á hádegi, er fysta holl sumarsins til að komast yfir hundrað laxa. Niðurstaðan var 108 laxar og er Norðurá þar með komin í 870 fiska og enn eru lúsugir fiskar að veiðast. Þá var heldur betur veiðipartý í Miðfirðinum í gær. Samtals var 56 löxum landað þann dag og slatti af laxi að ganga.

Stærsti lax til þessa í Norðurá í sumar veiddist í hollinu. Jóhannes Jóhannesson var staddur í Myrkhyl um klukkan fjögur í gærdag. Leynifluga frá Þórði Þrastarsyni veiðifélaga hans var undir. Flugan var hönnuð af Þresti og sérstaklega hugsuð fyrir Norðurá, og þá ekki síst sem haustfluga. 

Ertu til í að opinbera hana?

„Nei, ekki séns. Við klipptum hana af áður við komum í hús og margir vildu sjá hana. Við þorðum ekki annað en að læsa bílnum í nótt,“ hlær Jóhannes.

„Hann tók neðst í Myrkhyl. Það er grjót hinum megin og hann tók við stórt grjót í landinu þar. Negldi hana og ég fann strax að þetta var ekki klassískur smálax. Hann straujaði lengst niður eftir og svo aftur upp og setti línuna fyrir grjótið í landinu á móti. Línan mín var í beinni stefnu á grjótið og laxinn stökk 30 til 40 metra fyrir ofan mig. Við gátum ekkert gert nema vonað og eftir svona tíu mínútur þá lét hann sig gossa niður aftur og sem betur fer fór hann réttu megin við grjótið og losaði sig þannig sjálfur. Við náðum að lempa hann ofan í sundlaugina fyrir neðan Myrkhyl þar sem er miklu hægara vatn. Þar lönduðum við honum eftir fjörutíu mínútna viðureign,“ sagði Jóhannes í samtali við Sporðaköst.

Fyrst sýndi málbandið hjá þeim 101 sentimetra. Þeir mældu aftur og niðurstaðan var 99 sentimetrar. Sú mæling var þrístaðfest og hann var 99 sentimetrar. 

„Þetta var mjög gaman. Þetta er stærsti lax sem ég hef fengið til þessa og ekki fengið hundraðkall enn. Félagi minn er á sama stað og hefur landað tveimur 99 sentimetra.“

Þeir félagar hafa veitt í Norðurá í nokkuð mörg ár. Þeir voru með 26 laxa á stöngina og af þeim voru sex lúsugir og nokkrir af þeim ofan við Glanna.

1.200 laxar eru gengnir í gegnum teljarann ofan við Laxfoss og Jóhannes sagði að það væri greinilega mikið af fiski í Norðuránni og svart og hvítt miðað við í fyrra. „Við lentum í fiski á öllum stöðum og það var víða mikið af honum.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira