Þegar fiskur lífs þíns neglir fluguna

Birgir Snæbjörn með allt í keng. Þetta var viðureign við …
Birgir Snæbjörn með allt í keng. Þetta var viðureign við fisk lífs hans og stóð í heilar níutíu mínútur. Ljósmynd/Einar Falur
Glíma við stórfiska er draumur hvers veiðimanns. Oft enda þessar glímur ekki vel. Eðlilega. Enda eru stærstu fiskarnir oftast þeir sem sleppa. En hér er falleg og skemmtileg saga af veiðimanni sem upplifði drauminn. Einar Falur Ingólfsson, veiðiljósmyndari og blaðamaður, skrásetti og var þátttakandi í þessari sögu. Gefum honum orðið.
„Ég hef í 45 mínútur glímt við fisk lífs míns! Geturðu nokkuð komið og aðstoðað mig?“ sagði félagi minn, Birgir Snæbjörn Birgisson, andstuttur í símann. Um klukkustund fyrr höfðum við komið saman á silungasvæðið í Húseyjarkvísl í Skagafirði og höfðum ætlað að ljúka góðri veiðiferð á laxa- og silungasvæði árinnar með því að kasta í tvo tíma. Birgir gekk niður að gömlu brúnni yfir ána að leita að fiskum og ætlaði svo að nýju brúnni á hringveginum og kasta þar í strenginn. Sést hafði þar til laxa á göngu.
Einar Falur fann félaga sinn lengst fyrir neðan brú, enda …
Einar Falur fann félaga sinn lengst fyrir neðan brú, enda hafði þessi stóri og þungi fiskur teymt hann stöðugt niður ána. Ljósmynd/Einar Falur

Ég hafði hins vegar gengið vongóður upp með ánni, þar sem ég hafði nokkrum árum áður sett í þrjá laxa í beit á ómerktum stað. Að þessu sinni tók enginn á þeim bletti en í streng nokkrum metrum neðar greip nýrunninn smálax hins vegar fluguna og ég hafði nýlokið við að landa honum og sleppa aftur þegar Birgir hringdi.

Því silungur var það

Við símtalið hætti ég vitaskuld strax sjálfur að veiða og hljóp upp að bíl. Ók niður að nýju brúnni og greip laxaháf úr skottinu. Við brúna sást ekki til Birgis en ég hljóp niður með á og eftir um 300 metra kom veiðimaðurinn í ljós í kafgrasi á bakkanum, með veiðistöngina í keng. Þungur fiskurinn hafði smám saman leitað niður ána og Birgir varð að fara varlega því taumurinn var gefinn upp fyrir 13 pund – þessi skepna var sýnilega langtum þyngri en það.
Engin smá sleggja. Þykktin er líka ótrúleg. Hvað er svona …
Engin smá sleggja. Þykktin er líka ótrúleg. Hvað er svona fiskur þungur? Ljósmynd/Einar Falur

Bakkinn var hár þar sem við vorum og aðstaða til löndunar erfið – ekkert mátti út af bregða með svo grönnum taumi. Ég vissi að einum 50 metrum neðar væri svolítil malareyri og hvatti ég Birgi til að teyma fiskinn þangað og reyna svo að stranda honum. Það gekk eftir og við tók um korters tog til. Við sáum að þetta var ekki metralangur lax heldur styttri fiskur, en togþunginn í vatninu var hreint makalaus. Með yfirvegun og þolinmæði tókst Birgi að lokum að beina haus fisksins upp að bakkanum þar sem ég sporðtók tröllvaxinn og kviðsíðan silunginn. Því silungur var það. Sjóbirtingur, 86 sentímetra langur en ummálið 49 sentímetrar. Spikfeitur aftur á sporð. Svo sannarlega fiskur lífs Birgis sem glímdi við hann í 90 mínútur, frá því að hann tók Collie Dog-túpu hans í strengnum við brúna á hringveginum. Auk þess að vera góð laxveiðiá þá er Húseyjarkvísl ein besta sjóbirtingsáin.
Hann var feitur alveg aftur á sporð.
Hann var feitur alveg aftur á sporð. Ljósmynd/Einar Falur

Þeir sem sjá myndir af þessum draumafiski Birgis spyrja um þyngdina. Vogin sem veiðimaðurinn var með var fyrir hefðbundnari silung og dugði ekki til að vigta þetta ferlíki í háfnum.
Tveir höfðingjar. Báðir þreyttir en Birgir landaði þarna fiski lífs …
Tveir höfðingjar. Báðir þreyttir en Birgir landaði þarna fiski lífs síns. Til hamingju. Ljósmynd/Einar Falur
Ég hef lyft nokkrum 100 sentímetra löxum og þessi minnti mig á eina svo langa hrygnu sem var 22 pund. Þá hef ég landað 92 sentímetra sjóbirtingi sem var einnig í þessari þyngd – fiskur Birgis var að lágmarki 20, líklega nær 22. En því verður aldrei svarað því fiskurinn synti kröftuglega aftur út í ána eftir myndatöku og kjass frá uppgefnum en sælum veiðimanni.
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert