Gíslastaðir í Hvítá í Árnessýslu eru eftirsótt veiðisvæði og seldist upp strax í vor. Þar er stunduð „gamaldags veiði“ þar sem laxinum er ekki sleppt nema menn vilji. Þrjár stangir eru á svæðinu og fékk veiðihúsið yfirhalningu í sumar.
„Það má segja að þeir sem hafa verið að veiða hafi verið að setja í fiska alla daga, mismunandi marga þó. Fleiri veiðistaðir hafa verið að koma inn sem segir okkur að fiskurinn er farinn að stoppa frekar, eins og gerist þegar líður aðeins á tímann. Það er sérstaklega ánægjulegt hversu margir ungir veiðimenn hafa verið að setja í fallega fiska,“ sagði Einar Páll Garðarsson í samtali við Sporðaköst. Hann og Jói, vinur hans, eru með svæðið á leigu og verð er hófstillt.
„Já, við köllum þetta gamaldags veiði,“ segir Einar Páll og brosir. Hann hefur miklar efasemdir um veiða og sleppa fyrirkomulagið sem nú er í velflestum ám.
Eins og hann nefndi hér að ofan eru margir ungir veiðimenn sem hafa náð að krækja í maríulax, eða stærsta lax sem þeir hafa landað fram til þessa.
Veiðimenn sem eru við veiðar í dag voru búnir að landa bæði 80 og 96 sentímetra löxum og misstu nokkra.
Kjartan Antonsson var við veiðar á Gíslastöðum um helgina og lýsir svæðinu sem „Hvílíka paradísin sem þetta er.“ Kjartan og félagar lönduðu sex löxum. Fimm tóku fluguna Zeldu en sá dýrmætasti var maríulaxinn sem Ástdís Ósk Ottósdóttir landaði á spón. Kjartan segir frá því að Ástdís hafi verið orðin blaut í fæturna og spurði pabbi hennar hana hvort hún vildi ekki fara upp í hús og hlýja sér. Hún svaraði; „Ég fæ engan fisk þar.“ Hún hafði svo sannarlega rétt fyrir sér og fékk maríulaxinn skömmu síðar, öllum til mikillar ánægju.
Einar Páll segir að eftirspurnin sé svo mikil að langur listi sé kominn fyrir næsta ár. „Þeir ganga hins vegar fyrir sem voru í ár.“
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |