Mjög ólík hegðun hjá sjóbirtingi

Páll Svavar Helgason með svakalegan sjóbirting. Þessi var vigtaður átján …
Páll Svavar Helgason með svakalegan sjóbirting. Þessi var vigtaður átján pund í háf. Fiskurinn veiddist í Hólsá, Austurbakka. Ljósmynd/Kolskeggur

Sjóbirtingurinn virðist vera seinna á ferðinni en oft áður. Í Eldvatni í Meðallandi hafa aðeins veiðst nokkrir birtingar en á þessum tíma ætti veiði að vera að glæðast. Jón Hrafn Karlsson landeigandi við Eldvatn staðfestir þetta og bætir við: „Við þurfum eitt gott slagveður til að ýta þessu af stað.“

Jón Hrafn hefur ekki heyrt af veiði í ánum í kring, en svæðið í kringum Kirkjubæjarklaustur er mekka sjórbirtingsveiði að hausti og vori. Raunar er það svo að Tungulækur, sem oft gefur mestu veiðina, er ekki opnaður fyrir haustveiði fyrr en 20. ágúst.

Erlendur veiðimaður með boltabirting úr Ytri-Rangá. Það eru margir sáttir …
Erlendur veiðimaður með boltabirting úr Ytri-Rangá. Það eru margir sáttir við svona fisk. Greinilegt er að fiskurinn er spikfeitur og afar vel haldinn. Ljósmynd/JH

Fyrstu undanfararnir eru mættir í báðar Rangárnar. Þar hafa verið að veiðast virkilega flottir birtingar upp á síðkastið. Í Ytri-Rangá lentu erlendir veiðimenn í hörkusjóbirtingum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Þar hafa bæði Ægisíðufoss og Línustrengur verið að gefa þessa stóru.

Austurbakki Hólsár hefur að sama skapi gefið flotta birtinga, upp í átján pund, vigtaður í háf.

Athygli vekur að nokkrar ár hafa undanfarin ár gefið mikið magn af sjóbirtingi og eru þeir að mæta mun fyrr en í árnar í Vestur-Skaftafellssýslu. Þannig er Vatnsdalsá búin að gefa mikið magn af birtingi í sumar og segir Björn K. Rúnarsson, einn af leigutökum, að þeir hafi byrjað að mæta úr sjó í júní.

Annar stór birtingur úr Ytri. Það leynir sér ekki hvað …
Annar stór birtingur úr Ytri. Það leynir sér ekki hvað þetta eru miklir boltar. Ljósmynd/JH

Staðan í Laxá í Kjós er svipuð og þar er hægt að komast í mikla sjóbirtingsveislu snemma sumars. Þessir fiskar, bæði í Vatnsdal og í Kjós, virðast ganga frekar seint niður og halda sig í hafi og safna forða í tvo til þrjá mánuði og eru þá aftur að ganga í ferskvatnið. Þekkt er að Álabakkar og Káranesfljót í Kjósinni geyma oft mikið af birtingi stóran hluta árs.

Eyjafjarðará hefur að sama skapi gefið aukið magn af birtingi síðustu ár, svo fleiri dæmi séu tekin. Þetta er skemmtileg viðbót í veiðina og það er ekki dónalegt að setja í og landa sjötíu sentímetra sjóbirtingi eins og tveir veiðimenn upplifðu í Vatnsdal í dag.

Allt er þetta í takt við það sem Guðni Guðbergsson sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun sagði í samtali við Sporðaköst fyrr í sumar, að sjóbirtingur væri mjög að sækja í sig veðrið á meðan hrun hefði orðið í bleikju.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira