„Ég keyrði yfir Laxá í Dölum þegar við vorum að fara að byrja veiðitúrinn. Þegar ég sá ána hugsaði ég með mér að best væri að sleppa þessu. Ég bara dæmdi þetta ónýtt. Hún er svo vatnslítil,“ sagði Arnór Ísfjörð Guðmundsson í samtali við Sporðaköst.
Hann og félagar hans lentu í ótrúlegu ævintýri í Dölunum. Áin er komin ofan í grjót og telur Arnór að hún hafi ekki verið svona vatnslítil í mörg ár.
Sporðaköst báðu Arnór um skýrslu um hollið. Hann brást vel við því. Hún fylgir hér.
„Af mönnum, löxum og blíðuveðri í mjög lágu vatni geta átt sér stað ævintýralegir hlutir. Hlutir sem mann dreymir um en það er ekki oft sem slík ævintýri gerast. Við byrjuðum með smá vonarglott í hjarta eftir hádegi á miðvikudag. Það lék um okkur smá gola og glampandi sól og 19 stiga hiti.
Í fyrsta kasti tók lax og vaktin breytist í sannkallað ævintýri. Geggjuð taka, 33 laxar komu á land fyrstu vaktina og margir misstir og mikið af tökum og enginn skildi neitt í neinu; hvað væri eiginlega í gangi. Við vorum sammála um það eftir pælingar að laxinn í Dölunum væri uppátækjasamur og klikkaður.
Við höfum mest verið með 16-18 pöddur í þessu partíi. Eftir einn og hálfan dag erum við komnir með 63 laxa. Eitthvað af stórlaxi í bland. Stærst er 96 sentímetra hrygna. Það er mjög mikið af laxi í neðri hluta árinnar og sumstaðar trúir maður vart eigin augum.
Það er mikið af laxi niðri í ós sem bíður eftir hressingu, en þó að vatn sé mjög lágt þá er lax að ganga og komu lúsugir laxar í Kistum og Brúarstreng í morgun. Lax var að ganga á milli staða líka ofar í ánni.“ Svona hljóðaði skýrsla Arnórs. Hann bætti svo við drögum að nýrri útgáfu af vinsælu dægurlagi:
„Er ég kem heim í Búðardal bíður mín laxaval og ég veit það verður svaka partí.“
Þegar þeir félagar mættu i Dalina var hún komin í 190 laxa. Þeir eru búnir að veiða sem nemur þriðjungi af þeirri tölu og voru Dalirnir í gærkvöldi komnir í tæplega 260 laxa. Það er fáheyrt að lax gangi í Dalina án þess að breyting hafi átt sér stað í vatni.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |