Veiði á heiðagæs og grágæs hafin

Legið fyrir gæs.
Legið fyrir gæs. Ljósmynd/Ingólfur Guðmundsson

Skotveiðimenn eru nú að komast á fullt. Hreindýraveiði stendur yfir um austanvert landið og gæsaveiðitímabilið hófst í gær. Um mánaðamótin hefjast svo veiðar á svartfugli og ýmsum andategundum og skarfi.

Sporðaköst voru á ferð um Austurland í vikunni og vakti sérstaka athygli hve víða mátti sjá unga sem ýmist voru ófleygir eða rétt að læra kúnstina að beita vængjunum. Þetta átti við um margar tegundir og ekki síst gæsir. Raunar var þetta ástand mjög svæðisbundið og heiðagæs á hálendinu var með fullþroskaða unga. Það var einkum á láglendi sem ungar voru styttra á veg komnir.

Setið fyrir heiðagæs við tjarnir þar sem hún kemur inn …
Setið fyrir heiðagæs við tjarnir þar sem hún kemur inn til lendingar. Morgunblaðið/Ingó

Umhverfisstofnun biður veiðimenn um að gæta hófs við grágæsaveiðar, þar sem nokkuð hefur fækkað í stofninum samkvæmt talningum. Árið 2019 var grágæsastofninn talinn vera um 73 þúsund fuglar. Hann náði hámarki árið 2011 og var þá talinn vera 112 þúsund fuglar.

Uppgangur heiðagæsarinnar er hins vegar mikill og stofninn talinn vera um hálf milljón fugla.

Skotveiðifélag Íslands, SKOTVÍS, minnti veiðimenn á siðareglur sínar þegar veiðitíminn fer í hönd. Þar er skotveiðifólk beðið um að sýna kurteisi, ganga vel um veiðislóð og skilja ekkert eftir annað en sporin sín. Félagið hvetur til þess að veiðimenn noti umhverfisvæn skotfæri og að veiðibráð sé sýnd virðing og nýtt til fullnustu. Að lokum eru veiðimenn hvattir til að gæta fyllsta öryggis á veiðislóð.

Sporðaköst hafa þegar heyrt af nokkrum gæsaskyttum sem eru að nota þessa fyrstu daga og væri gaman að fá fréttir af veiðitúrum og myndir. Senda má upplýsingar á netfangið eggertskula@mbl.is

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira