„Ronaldo kom heim og ég með hundraðkall“

Sævar Örn og Hörður Birgir með hundraðkallinn úr Réttarhyl. Viðureignin …
Sævar Örn og Hörður Birgir með hundraðkallinn úr Réttarhyl. Viðureignin tók um klukkutíma og eins og Sævar Örn sagði, ég er yfirleitt fljótur að spila mína fiska, en þessi var svakalegur. Ljósmynd/Brynjar Daði Harðarson

Sævar Örn Hafsteinsson og bróðir hans Hörður Birgir hófu veiðar í Húseyjarkvísl í gær ásamt fleirum. Sævar Örn var í skýjunum eftir að hafa frétt að Ronaldo var að koma heim, eins og hann orðar það. „Var ekki að fara til Manchester City og ég var að ræða við Höskuld B. Erlingsson löggu um þetta áður en við fórum að veiða. Ég sagði við Höska að ég væri að fara að fá einn stóran í kvíslinni. Höski sem er líka mikill United maður var bara sammála mér," sagði Sævar Örn Hafsteinsson í samtali við Sporðaköst í morgunsárið.

Þeir félagar hófu leik í Húseyjarkvísl með því að fá sér osta og smá rauðvín við Réttarhyl. Svo kom að því að hefja veiði og Sævar setti strax í flottan sjóbirting og mældist hann 51 sentímetri. „Ég hélt áfram með míkró Sunray og í næsta rennsli tók þessi fiskur. Hann kom nánast allur upp úr þegar hann tók svo við vissum strax að þetta var mjög stór lax. Hann stökk einu sinni og þá sáum við endanlega að þetta var svona yfirstærð,“ sagði Sævar. Hann hefur verið í leiðsögn í Húseyjarkvísl í sumar og hann hafði séð sjóbirting sem er um hundrað sentímetrar en þessi lax hafði ekki sést áður. 

Einn af stærstu löxum sem hafa veiðst í sumar á …
Einn af stærstu löxum sem hafa veiðst í sumar á Íslandi. Hængar gerast ekki öllu vígalegri. Sævar sá fisk af svipaðri stærð synda með tröllinu og fannst það líka vera hængur. Ljósmynd(Brynjar Daði Harðarson

„Þegar ég setti í fiskinn var fyrri hálfleikur hjá Liverpool og Chelsea og við vorum að fylgjast með leiknum. Ég lenti í þannig reiptogi við þennan fisk að ég hélt að ég myndi ekki vinna það. Réttarhylurinn er frekar straumlítill veiðistaður og maður á að hafa yfirhöndina, en það var bara alls ekki þannig í þessari viðureign. Það var ekki fyrr en að leiknum var lokið að ég náði honum inn á grynningar og Hörður bróðir gat háfað hann. Þá fannst mér hann í raun og veru eiga nóg eftir. Þetta var svakalega þykkur og sterkur fiskur,“ upplýsti alsæll veiðimaður.

Hann var fyrst mældur sléttir hundrað sentímetrar. Þeir bræður vildu mæla hann nákvæmlega og í seinni mælingu var hann 100,5 og skráður þannig. Angling IQ sem er rafræna veiðibókin fyrir meðal annars Húseyjarkvísl námundar og skráir hann því 101 sentímetra.

Þetta er stærsti lax sem Sævar hefur landað. Hann á nokkra 97 sentímetra og þar í kring en ekki náð meternum fyrr.

„Við vorum nýbúnir með „happy hour“ en ég sló bara strax í aðra og svo fékk bara bróðir að veiða. Ég var saddur og sæll og fór bara að hugsa um matinn og tók þessu öllu afar rólega eftir þennan draum,“

Nú er Manchester United að spila í dag og Sævar óttast að karmað sé bara búið. „Ætli Úlfarnir vinni þetta ekki, tvö núll. Svo mætir Ronaldo í næsta leik og setur þrennu. Ef við töpum í dag, þá tek ég það bara á mig. Menn geta bara hringt beint í mig,“ hló Sævar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert