Þriðja lélega laxveiðisumarið í röð er að verða staðreynd. Með fáum undantekningum er veiðin slök miðað við það sem veiðimenn hafa átt að venjast. Auðvitað hafa komið erfið sumur, eins og 2012 og 2014, en í bæði skiptin komu mjög góð ár í kjölfarið. Því er ekki að heilsa núna, eins og áður segir.
Landssamband veiðifélaga birti í morgun lista yfir veiði í helstu laxveiðiám í nýliðinni viku. Birtist listinn ávallt á fimmtudögum á angling.is.
Litlar breytingar eru á listanum. Best var veiðin í Ytri-Rangá og Vesturbakka Hólsár, eða um 250 laxar. Trónir Ytri á toppnum. Því næst kemur Eystri-Rangá og Miðfjarðará er komin upp fyrir Norðurá í þriðja sæti. Því næst koma, í þessari röð; Þverá/Kjarrá, Urriðafoss í Þjórsá, Haffjarðará, Langá, Selá og í tíunda sæti er Laxá í Kjós.
Langvinnir þurrkar og allt að því sumarlöng hitabylgja um landið Norðan og Austanvert hafa sett mikið strik í reikninginn. Margar ár hafa verið afar vatnslitlar, svo lætur nærri að vera jafn alvarlegt og þurrkasumarið mikla 2019. Af þessu endalausa staðviðri hefur leitt að árnar verða súrefnissnauðar og þá dregur mjög úr töku hjá öllum fiski. Slýmyndun eykst mikið við þessar aðstæður þar sem vatnið hitnar og hefur dögum saman farið í tölur sem veiðimenn á Íslandi eiga ekki að venjast. Mýmörg dæmi eru um að vatnshiti hafi farið í og yfir tuttugu gráður. Við þær aðstæður tekur lax ekki eða mjög illa.
Rigningu hefur verið spáð um langt skeið í langtímaspám, en hún gufar jafnan upp í veðurkortunum þegar dregur nær og veðurspáin verður nákvæmari. Það staðviðri sem ríkt hefur um stærstan hluta lands er af mörgum veiðimanninum og ekki síst leiðsögumönnum í ánum, talið vera ígildi hamfara.
Nú er spáð rigningu um helgina víða um land. Verður spennandi að sjá hvort það gengur eftir og hvað gerist í kjölfarið.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |