Ytri-Rangá er komin yfir þrjú þúsund laxa, þó svo að síðasta vika hafi verið fremur róleg og veiddust um 140 laxar í henni. Eystri gaf innan við níutíu laxa í síðustu viku og á enn eftir ríflega hundrað laxa til að ná að komast yfir þrjú þúsund.
Miðfjarðará átt enn eina hundrað laxa vikuna og er komin í 1.709 laxa sem er nánast sama veiði og í fyrra.
Lokatalan í Norðurá er 1.431 lax og er það mun betri veiði en í fyrra og þurrkasumarið 2019. Vonandi veit þetta á áframhaldandi aukningu í Norðurá.
Þverá/Kjarrá er á svipuðu róli og Norðurá hvað varðar bata frá í fyrra og 2019. En samkvæmt vef Landssambands veiðifélaga, angling.is er áin komin í 1.364 laxa.
Laxá í Kjós skilaði 124 löxum í síðustu veiku og er það með bestu veiði sem var þá vikuna á Íslandi. Einungis Ytri-Rangá gaf fleiri fiska. Ljóst er að Kjósin mun fara yfir þúsund laxa en hún stendur núna í 926 löxum.
Haffjarðará lokar á 914 löxum sem er töluvert undir veiðinni í fyrra þegar hún gaf 1.127 laxa.
Urriðafoss sígur niður listann en þaðan hafa ekki borist nýjar tölur í tæpan mánuð.
Langá, Selá og Laxá í Leirársveit eru allar á svipuðu róli með yfir sjö hundruð laxa.
Elliðaárnar hafa birt lokatölu og veiddust 617 laxar þar í sumar á móti 565 í fyrra.
Laxá á Ásum gaf samtals sex hundruð laxa í ár, á móti 676 í fyrra.
Lokatölur í Blöndu eru áhyggjuefni en þar veiddust aðeins 418 laxar í sumar og þarf að fara aftur til ársins 1994 til að finna lakari útkomu.
Og talandi um áhyggjuefni. Drottningin, eins og hún er oft kölluð, Laxá í Aðaldal gaf 401 lax í sumar og er það einungis örfáum löxum meira en hörmungarsumarið í fyrra. Þetta gerist þrátt fyrir nýtt veiðifyrirkomulag þar sem stöngum var fækkað verulega og bundu margir vonir við að Laxá myndi ná viðspyrnu eftir afar slakt gengi undanfarin ár. Það gerðist ekki í sumar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |