Samið um Norðurá til fimm ára

Guðrún og Rafn undirrita samninginn í gær. Samið er til …
Guðrún og Rafn undirrita samninginn í gær. Samið er til fimm ára og mun félag Rafns annast sölu veiðileyfa og rekstur árinnar. Ljósmynd/Norðurá

Nýr rekstraraðili hefur tekið við Norðurá. Samningur þess efnis var undirritaður í gær í veiðihúsinu við Norðurá. Einar Sigfússon hefur verið sölustjóri þar frá árinu 2013. Hann ákvað að segja þetta gott og leitaði stjórn veiðifélags Norðurár samninga við nýja umsjónaraðila. 

Í fréttatilkynningu sem veiðifélag Norðurár sendi frá sér í tilefni þessa segir:

„Í gær undirrituðu Guðrún Sigurjónsdóttir fyrir hönd Veiðifélags Norðurár og Rafn Valur Alfreðsson f.h. FHD ehf. samning um sölu og umsjón Norðurár til næstu fimm ára. Samningurinn var samþykktur samhljóða á félagsfundi í Munaðarnesi í gærkvöldi.

Rafn Valur, eða FHD ehf., hefur rekið Miðfjarðará í rúman áratug við góðan orðstír. Formaður veiðifélags Norðurár, Guðrún Sigurjónsdóttir sagði af þessu tilefni: 

„Það var samþykkt á aðalfundi félagsins í vor að leita að söluaðila til að selja ána með líku fyrirkomulagi og gert hefur verið síðan 2013. Margir sýndu því áhuga að koma að rekstri árinnar og ræddi stjórnin við marga aðila. Niðurstaðan var að semja við Rafn í Miðfjarðará um að taka að sér sölumálin. Við gerum ráð fyrir lítillega breyttu fyrirkomulagi og fækkum stöngum aðeins og stækkum veiðisvæði,“ upplýsti Guðrún í samtali við Sporðaköst.

Þetta er eitt verst varðveitta leyndarmál í veiðiheiminum í dag, en hefur loks fengið fullnustu.

Í fréttatilkynningu um málið er eftirfarandi haft eftir Rafni í Miðfirði: „Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu verkefni á sama tíma og ég er afar stoltur yfir því trausti sem landeigendur í Norðurá sýna mér. Ég hef alla tíð lagt mikinn metnað í minn rekstur og það að Norðurá sé nú innan minna vébanda mun efla mig og félag mitt til að gera enn betur.  Hér er mikil saga og Norðurá á sér mjög stóran hóp aðdáenda þannig að ég er að taka við góðu búi. Við höfum fengið til liðs við okkur Brynjar Hreggviðsson sem er reyndur sölumaður og mun aðkoma hans styrkja okkur enn frekar.“

Norðurá gaf mun betri veiði í sumar en síðustu tvö ár. Fyrirhugaðar eru miklar seiðasleppingar og hrognagröftur þannig að ljóst má vera að stórhuga markmið hafa verið sett í Norðurárdal.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira