Feðgar veiddu sama lax nýjan og leginn

Natan með 102 sentímetra hænginn úr Laxá. Doppur í kringum …
Natan með 102 sentímetra hænginn úr Laxá. Doppur í kringum augun og á tálkni eru afgerandi. Ljósmynd/TKE

Sumarið 2016 var merkilegt hjá þeim feðgum Theodóri K. Erlingssyni og þá ellefu ára gömlum syni hans, Natan. Þeir fóru til veiða í Laxá í Hrútafjarðá um miðjan júlí. Natan renndi maðki í Brúarkvörn sem er einn af neðstu veiðistöðum árinnar.  Í fyrsta rennsli tók sannkallaður stórlax. 

Fjallað var um þennan ellefu ára gamla strák og tuttugu pundarann á síðum mbl.is eftir veiðitúrinn. Rætt var við pabbann, Tedda sem lýsti viðureigninni og var hún um margt æsileg. Teddi sagðist hafa verið búinn að afskrifa þennan fisk, þar sem hann komst fyrir grjót og lét öllum illum látum. Hann náðist hins vegar og þar sem hann hafði ekki kokgleypt maðkinn var lítið mál að sleppa honum á nýjan leik í ána. 

Sjálfur var veiðimaðurinn ekki nema 145 sentímetrar á þessum tíma og laxinn mældist 102 sentímetrar. Þetta þótti vel gert hjá Natan enda var pabbinn ekki mikið að hafa sig í frammi. „Ég passaði mig á að leyfa honum að njóta augnabliksins,“ sagði Teddi í samtali við mbl á þeim tíma.

Sami lax í lok ágúst. Nú er gaman að bera …
Sami lax í lok ágúst. Nú er gaman að bera saman myndirnar. Það er niðurstaða Sporðakasta og Tedda að þetta sé sami laxinn. Mældist 103 sentímetrar seint í ágúst. Ljósmynd/TKE

Þarna er reyndar ekki öll sagan sögð. Sporðaköst greindu frá því í gær að Teddi hefði afrekað það að veiða bæði 100 sentímetra lax og sjóbirting af sömu stærð. Það hlýtur að teljast einstakt afrek. Í þeirri frétt var tilgreindur 103 sentímetra lax sem hann veiddi í Laxá í Hrútafirði. Sá lax veiddist 25. ágúst sumarið 2016. Það sem hins vegar er merkilegast í þessu öllu, er að fiskurinn sem Teddi veiddi er sá sami og Natan landaði um miðjan júlí, þetta sama sumar.

Silfurbjartur og lúsugur um miðjan júlí.
Silfurbjartur og lúsugur um miðjan júlí. Ljósmynd/TKE

Eins og kunnugt er þá má þekkja laxa á doppusetningu á þeim og sérstaklega er hún einkennandi á höfði. Hver lax er með sitt sérstaka mynstur og oft eru þeir auðþekktir þegar myndir er bornar saman. Doppusetning laxins er í raun eins og fingraför hjá manneskju.

Það leynir sér ekki þegar þessir „tveir“ fiskar eru bornir saman að um er að ræða einn og sama laxinn. Þegar Teddi veiddi hann seint í ágúst var fiskurinn orðinn leginn og mældist 103 sentímetrar. Það er einmitt það sem gerist með hænginn, að neðri skolturinn gengur fram og tignarlegur krókurinn stækkar.

Orðinn leginn og farinn að taka hressilegan lit. Tilbúinn í …
Orðinn leginn og farinn að taka hressilegan lit. Tilbúinn í bardaga um álitlegar hrygnur. Þessi lax lifði af sleppingu sex vikum áður þrátt fyrir að hafa tekið maðk. Ljósmynd/TKE

Eins sjá má á myndunum sem fylgja með þá eru doppur í kringum augum á laxinum afar auðgreindar og ekki annað að sjá en að þetta sé sami fiskur. Í júlí var hann silfurbjartur og lúsugur en var orðinn kollegin seint í ágúst eins og lög gera ráð fyrir.

Teddi upplýsti í fréttinni sumarið 2016 að gamli stofn árinnar geymdi svona tröll og þó nokkrir tuttugu pundarar hefðu veiðst þar í gegnum árin. Sá stærsti 25 pund, minnti hann. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert