Fish Partner taka Vatnamótin á leigu

Vorveiði í Vatnamótunum. Jóhann Birgisson með fallegan birting sem hann …
Vorveiði í Vatnamótunum. Jóhann Birgisson með fallegan birting sem hann veiddi þar í vor. Ljósmynd/HG

Félagið Fish Partner hefur tekið Vatnamótin í Skaftafellssýslu á leigu. Svæðið er víðfeðmt en þekkt sem eitt öflugasta sjóbirtingssvæði landsins. Í Vatnamótunum koma saman Skaftá, Breiðbalakvísl, Hörgsá og Fossálar.

Kristján Páll Rafnsson einn af eigendum Fish Partner segir að um langtímasamning sé að ræða og verði seldar fimm stangir á svæðið. Veruleg breyting verður gerð með aðkomu Fish Partner. Eingöngu verður veitt á flugu og skal öllum fiski sleppt. Að sögn Kristjáns er þetta gert til að stuðla enn frekar að dafnandi sjóbirtingsveiði.

Þekkt er í fjölmörgum sjóbirtingsám hin síðari ár að með veiða og sleppa fyrirkomulagi hefur fiskum fjölgað og sífellt fleiri stórfiskar eru að veiðast á þessum svæðum.

Vatnamótin eru magnaður veiðistaður en þar þarf víða að vaða …
Vatnamótin eru magnaður veiðistaður en þar þarf víða að vaða mikið og leita að fiskinum. Þegar menn finna hann er oft bingó. Ljósmynd/HG

„Við erum gríðarlega spennt að sjá árangurinn af þessu breytta fyrirkomulagi og höfum mikla trú á að það muni efla þetta frábæra svæði til mikilla muna,“ segir Kristján Páll í tilefni af samningnum um Vatnamótin.

Hann segir að veiðivarsla á svæðinu verði aukin til að framfylgja breyttu fyrirkomulagi.

Samkvæmt upplýsingum frá Fish Partner hefur árleg veiði í Vatnanótunum verið um 1.500 sjóbirtingar. Fish Partner er fyrir með annað sjóbirtingssvæði í grenndinni en það er Tungufljót eins og flestir veiðimenn vita.

Þeir veiðimenn sem hafa átt föst holl á svæðinu ganga fyrir vilji þeir halda þeim hollum, kemur fram í tilkynningu frá Fish Partner. Veiðitímabilið í Vatnamótunum er frá 1. apríl til 20. október.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.
100 cm Stóra - Laxá Jóhann Gunnar Jóhannsson 13. september 13.9.
100 cm Miðfjarðará Daði Þorsteinsson 12. september 12.9.
102 cm Stóra - Laxá Reto Suremann 10. september 10.9.
103 cm Stóra - Laxá Magnús Stephensen 10. september 10.9.

Skoða meira