Töluvert af fugli en ákaflega styggur

Tíkin Lotta hnusar upp í vindinn. Hún hefur skilað eiganda …
Tíkin Lotta hnusar upp í vindinn. Hún hefur skilað eiganda sínum, Kjartani Lorange, góðum stundum í haust eins og fyrri haust. Ljósmynd/KIL

Rjúpnaskyttur sem hafa haldið til veiða það sem af er yfirstandandi veiðitímabili segja flestar sömu söguna. Hafa séð drjúgt af fugli en rysjótt tíð hamlað veiðum þar sem fuglinn hefur verið óhemju styggur.

Margir eru samt þegar komnir með í jólamatinn en aðra vantar aðeins upp á. Höskuldur B. Erlingsson aðalvarðstjóri í lögreglunni á Blönduósi er skytta. Hann er nánast kominn með í jólamatinn en ekki alveg. „Menn hafa verið að sjá bara þó nokkuð af fugli en hann er alveg svakalega styggur. Ég fór i byrjun viku og sá bara þó nokkuð magn en hann var floginn á ríflega hundrað metrum og var algjörlega óviðráðanlegur. Ég heyri marga tala um þetta. Ég held að ástæðan sé þessar endalausu veðrabreytingar,“ sagði Höskuldur í samtali við Sporðaköst. 

Rjúpnaspor. Þessi sjón fær hjarta veiðimanna til að slá örar.
Rjúpnaspor. Þessi sjón fær hjarta veiðimanna til að slá örar. Ljósmynd/Dúi Landmark

Sigvaldi Jóhannesson, eða Silli kokkur eins og hann er yfirleitt kallaður segist hafa heyrt frá mörgum skyttum og flestir hafi verið að gera góða veiði. Hann er með um sex þúsund fylgjendur á Snapchat og fær mikið af myndum sent og upplýsingum um veiðina frá veiðimönnum á svæðum víða um land. Hans mat er að margir hafi verið að gera góða veiði.

Kjartan Ingi Lorange er reynslumikil rjúpnaskytta og hefur stundað sömu svæðin í áratugi, í ýmsum landshlutum. Hann var spurður hvað hann hefði séð og heyrt. „Það er einfalt mál að segja frá því. Hef séð svipað af fugli ef ekki meira en í fyrra á svæðum sem ég þekki vel. Sömu sögu má segja af þeim veiðimönnum sem ég hef heyrt í,“ sagði Kjartan.

Þetta er hún Brekkubyggðar Lína Langsokkur, sem Höskuldur aðalvarðstjóri veiðir …
Þetta er hún Brekkubyggðar Lína Langsokkur, sem Höskuldur aðalvarðstjóri veiðir með. Hún er mjög góður sækir og afskaplega hröð segir Höskuldur um hana. Ljósmynd/HBE

 

Dúi Landmark, rithöfundur sem var að senda frá sér bókina Gengið til rjúpna er nánast kominn með í jólamatinn. „Þetta hefur verið ansi rysjótt, en við Steingrímur veiðifélagi höfum náð að kroppa og mér sýnist við eiga eftir að fara einu sinni til tvisvar. Þá erum við komnir með jólasteikina,“ sagði Dúi og tók undir með mönnum að þeir félagar hefðu séð drjúgt af fugli þó að hún hefði verið stygg.

Margir veiðimenn tala um að þeir sjái svipað af fugli og fyrra á svæðum sem þeir hafa stundað árum eða áratugum saman. Þessir sömu menn hafa séð sveiflur á sínum svæðum í gegnum tíðina. Margir þeirra sem Sporðaköst ræddu við eru ekki að mæla fækkun í fjölda fugla, en auðvitað eru menn að sjá þetta staðbundið en ekki á landsvísu. Heyra má setningar á borð við, „Það er meira af fugli en í fyrra." „Ég er ekki að sjá þessa fækkun sem fræðingarnir sjá.“

Dúi Landmarka veðurbarinn og vígalegur. Hann segist nánast kominn með …
Dúi Landmarka veðurbarinn og vígalegur. Hann segist nánast kominn með í jólamatinn. Þeir félagar eiga eftir að fara einu sinni til tvisvar. Ljósmynd/Steingrímur

Þá hafa margir verið að setja fram spurningar hvernig staðið sé að talningum á rjúpu. Á sama tíma má merkja enn frekari varúð veiðimanna og að þeir eru að fylgja þeim tilmælum sem fram hafa verið sett af yfirvöldum og SKOTVÍS og fleiri aðilum um að menn gæti hófs við veiðarnar.

„Við vorum þrír saman og komnir með fimmtán fugla eftir tveggja tíma veiði. Það var allt krökkt af rjúpu en við ákváðum að hætta. Þetta höfum við ekki gert fyrr og hér áður fyrr hefðu við hæglega getað skotið mjög mikið,“ sagði skytta í samtali við Sporðaköst.

Önnur veiðihelgin af fjórum er framundan og spáir hvassviðri og úrkomu víð um land á laugardag og sunnudag, jafnvel fram á mánudag. Ljóst er að nokkrir dagar detta út veiðilega af þessum sökum.

Hér áður fyrr þegar veiðitíminn var samfelldur frá 15. október og fram til 22. desember gerðu flestir veiðimenn bestu veiðina í október og svo aftur í desember. Nóvember var oftast nær lélegasti tíminn þar sem veður eru yfirleitt afar umhleypingasöm í þeim mánuði.

Sporðaköst hvetja veiðimenn til að senda upplýsingar og myndir um veiði á netfangið eggertskula@mbl.is

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira