Norski laxinn settur á válista

Þetta er mynd úr norsku ánni Lakselva. Hún þykir afar …
Þetta er mynd úr norsku ánni Lakselva. Hún þykir afar skemmtileg laxveiðiá. Nú er svo komið að náttúrulegi norski laxinn er kominn á rauðan lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Þetta er í fyrsta skipti sem laxinn lendir á listanum. Ljósmynd/Nils Folmer

Villtur lax í Noregi er í fyrsta skipti kominn á rauðan lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Það er stofnun í Þrándheimi sem gefur listann út. Sex ár eru frá síðustu uppfærslu listans. Síðast þegar hann var gefinn út fékk norski náttúrulegi laxinn einkunnina kröftugur stofn. 

Nú er svo komið að laxinn er metinn í hættu og er það einkum gríðarleg fækkun í fjölda þeirra laxa sem ganga í norskar ár sem veldur breyttri stöðu villta laxins. Hvorki fleiri né færri en 95 sérfræðingar frá 27 stofnunum í Noregi leggja mat á stöðu einstakra dýrastofna við endurskoðun rauða listans. 

Fleiri þættir en fækkun í fjölda er sérfræðingum áhyggjuefni. Þar má nefna laxalúsina sem kemur fyrst og fremst frá sjókvíaeldi á laxi í fjörðum Noregs. Þá er gríðarleg fjölgun á hnúðlaxi í norskum ám, eitt af spurningamerkjunum sem tengist þessari breyttu stöðu náttúrulega laxins í Noregi.

Áhugamenn og samtök um velferð laxins í Noregi hafa lýst miklum áhyggjum vegna þessa. Gerard Schive er stjórnarmaður í samtökunum Björgum villta laxinum, í Noregi. Hann segir í samtali við NRK fréttastöðina norsku að þrennt verði að hafa í huga. Sjókvíaeldi sé stærsta ógnin. Þá tilgreinir hann einnig mikla þurrka sem hrjáð hafa margar ár í Noregi undanfarin ár. Loks nefnir hann veiðar á laxi í sjó og segir að þeim þurfi að hætta.

Sebastian Hauge Andersen, áhugamaður um laxveiði segir í samtali við NRK að jákvæði hlutinn við þetta sé að með því að laxinn sé nú kominn á rauða listann og þar með talinn eiga undir högg að sækja, sé að þá verði betur fylgst með laxinum. Hann vonast einnig til að þessi staða leiði til þess að ráðist verði í aðgerðir til að tryggja framtíð laxastofna í Noregi.

Önnur dýr sem lentu á listanum í fyrsta skipti eru hreindýr og æðarfugl svo einhver séu nefnd.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira