Þrjú léleg laxveiðiár í röð á Vesturlandi

Ásta Kristin Guðmundsdóttir og Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingar hafa tekið …
Ásta Kristin Guðmundsdóttir og Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingar hafa tekið saman hugleiðingu um síðustu ár í laxveiðinni á Vesturlandi. Hér eru þau við Eyrarfoss í Laxá i Leirársveit í fyrra þegar nýjum teljara var komið fyrir. Ljósmynd/sme

Fiskifræðingarnir Sigurður Már Einarsson og Ásta Kristín Guðmundsdóttir hafa tekið saman hugleiðingar um laxveiðina á Vesturlandi á nýliðnu sumri og um leið leitast við að útskýra hvað veldur þriðja árinu í röð þar sem veiði var undir meðallagi.

„Laxveiðin á Vesturlandi síðastliðið sumar var þriðja sumarið í röð sem skilaði slakri veiði. Laxveiði á stöng í ám á Vesturlandi er um 15.000 laxar að jafnaði, en frá 2019 hefur veiðin verið langt undir langtíma meðalveiði. Árið 2019 var veiðin tæplega 7.000 laxar, en um 10.000 laxar hvort árið um sig; 2020 og 2021. Töluverður bati varð þó í mörgum ám frá veiði ársins 2020, t.d. í Laxá í Leirársveit, Þverá í Borgarfirði og Norðurá í Borgarfirði. Laxá í Dölum var ein af fáum ám á Vesturlandi þar sem veiðin var yfir meðalveiði.

Hvað skýrir þessa þróun? Laxagöngur og veiði eru ætíð háðar framleiðslu ánna (fjölda gönguseiða) einu og tveimur árum fyrr og síðan breytilegum afföllum seiðanna í sjávardvöl þeirra. Undanfarna áratugi hefur mikil vinna farið í vöktun seiðaframleiðslunnar í helstu ám á Vesturlandi. Veiðimálastofnun og nú ferskvatnssvið Hafrannsóknastofnunar, eftir sameiningu þessara stofnana 2016, hefur um árabil safnað gögnum um stöðu laxastofna um allt land. Þessi gagnasöfnun er að stærstum hluta bundin við veiðiárnar, þar sem veiði er skráð og með tilkomu fiskteljara hin síðari ár er stofnstærðin þekkt. Þá er unnt að reikna veiðihlutfallið og í framhaldinu er hrygningin í ánum metin.

Fylgst hefur verið með þróun seiðamagns í ánum þar sem seiðaþéttleiki er metinn á sömu stöðum ár hvert og eru þessar gagnaraðir í mörgum tilfellum 30 – 40 ára langar. Hin síðari ár hafa jafnframt verið gerðar athuganir á lífríki í ánum, s.s. á frumframleiðslu ánna og smádýralífi. Allar þessar athuganir hafa m.a. verið nýttar til veiðiráðgjafar í ánum og hafa niðurstöður sýnt að víða voru árnar of hart sóttar áður fyrr. Þá hafa viðmiðunarmörk hrygningar verið metin í nokkrum ám á Vesturlandi og víðar, en markmið þeirrar vinnu er að meta þau mörk á hrognafjölda ánna sem tryggir hámarks afkastagetu búsvæða til framleiðslu laxaseiða.

Undanfarin 15 – 20 ár hefur nýliðun í flestum þeim vatnsföllum, þar sem seiðaframleiðsla er vöktuð á Vesturlandi, sýnt að seiðaframleiðslan hefur reynst ásættanleg, þótt finna megi tilvik þar sem hrygning hefur farið undir æskileg mörk.

Undanfarna áratugi hefur mjög margt verið gert í veiðistjórnun á Vesturlandi til að tryggja viðunandi hrygningu og seiðaframleiðslu. Minna má á netaleiguna í Hvítá sem hófst 1991, uppkaup sjávarneta í sjó á tíunda áratugnum, auk þess sem mjög miklar breytingar hafa orðið á veiðistjórnun í mörgum ám, þar sem fluguveiði hefur tekið við af maðk– og spónveiði. Þá hafa kvótar verið lækkaðir og veiða og sleppa aðferðin tryggt stórlaxi vernd í veiðinni, en jafnframt hefur smálaxi verið sleppt í auknum mæli. Það er því ólíklegt að þær breytingar sem sést hafa, í minnkandi laxgengd undanfarin ár, megi heilt yfir tengja minnkandi hrygningu og seiðaframleiðslu í ám á Vesturlandi. Svo virðist sem vaxandi öfgar komi fram í veðurfari og birtust m.a. í hinu langa þurrkatímabili sumarið 2019, sem fór illa með seiðastofna í laxám í þessum landshluta. Þannig var von á góðum laxagöngum í árnar 2020, sem ekki raungerðust, sennilega vegna mikilla affalla gönguseiða í þurrkunum sumarið 2019. Einnig urðu yngri árgangar fyrir skakkaföllum af völdum þurrkanna, sem kunna að hafa áhrif lengra fram í tímann.

Í sjávarumhverfinu tekur laxinn út stærstan hluta af vexti sínum. Þekkt er að afföll seiða í sjávardvölinni geta verið mjög mismunandi og eru t.d. endurheimtur merktra seiða í Elliðaánum á bilinu 5 – 20% (ICES, 2020). Aðstæður í sjávardvölinni eru því greinilega afar mismunandi en þetta er jafnframt það skeið sem hvað minnst er vitað um og lítt hægt að hafa áhrif á. Smálax er ríkjandi í ám á Vesturlandi og við greiningu hreistursýna úr langri gagnaröð (1989 -2021) úr Norðurá í Borgarfirði hefur komið í ljós að vöxtur smálaxa í sjó, frá gönguseiðaaldri að fyrsta sjávarvetri (vetrarsólstöður), er afar breytilegur. Sýnt hefur verið fram á að skýra megi tæplega 40% breytileikans í smálaxagöngum í Norðurá út frá sjávarvexti. (Sjá skýringarmynd.) Sé vöxtur lélegur eru göngur litlar, en þær aukast marktækt með auknum vexti í sjávardvölinni. Undanfarinn áratug (2012 - 2021) var vöxtur í sjó í flestum árum mun verri í Norðurá en áratuginn þar á undan. Þannig sýna hreisturmælingar á smálöxum úr veiðinni í Norðurá árin 2012, 2014, 2016 og 2021 að um slakan vöxt í sjó var að ræða og þessi ár skiluðu einnig öll lélegum göngum. Árið 2020 var vöxturinn betri þrátt fyrir lélega veiði og er líklegt að það tengist afföllum á þurrkatímanum 2019. (Skýringarmynd).

Skýringarmynd. Hér má sjá fylgni á milli vaxtar unglaxa samanborið …
Skýringarmynd. Hér má sjá fylgni á milli vaxtar unglaxa samanborið við smálaxaveiði, allt aftur til ársins 1988. Um er að ræða gögn fyrir Norðurá. Ljósmynd/ÁKG

Sjávarhiti er afar breytilegur á beitarsvæðum laxa sunnan og vestan Íslands. Marktækt samband er á yfirborðshita sjávar í júlí á þessu svæði (Jóhannes Guðbrandsson og Sigurður Már Einarsson 2020, frétt á vef hafogvatn.is vorið 2020) við smálaxaveiðina ári síðar og skýrir þetta samband um 50% breytileikans í smálaxaveiðinni hverju sinni. Hitafar sjávar var undir meðallagi í júlí 2020 og laxveiðin 2021 í samræmi við þessi tengsl. Verulegur breytileiki er hins vegar í þessu sambandi og spám út frá sjávarhita og laxveiði ári síðar fylgir því veruleg óvissa.

Þrátt fyrir að margir þættir á lífsferli laxins séu vaktaðir í ám á Vesturlandi og víðar um land, þá vantar enn tölulegar greiningar og formlegt stofnmat á íslenskum laxastofnum. Gera þarf átak í merkingum sjógönguseiða og vöktun á útgöngu þeirra á nokkrum stöðum hérlendis, m.a. til að auka þekkingu á afföllum seiða bæði innan ánna og í sjávardvölinni.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert