Skaut 606 rjúpur á fjórum dögum

Hannes Hilmarsson bóndi á Kolbeinsá í Hrútafirði klyfjaður af rjúpum. …
Hannes Hilmarsson bóndi á Kolbeinsá í Hrútafirði klyfjaður af rjúpum. Aðstæður sem hann upplifði haustið 1996 voru einstæðar. Ekki er vitað um meiri veiði á fjórum dögum á eina byssu. Ljósmynd/Kristín Guðbjörg Jónsdóttir

Bókin Gengið til rjúpna eftir Dúa Landmark geymir ómældan fróðleik um rjúpnaveiði í bland við skemmtilegar sögur. Við birtum hér tvær sögur úr bókinni sem báðar tengjast metveiði. Fyrst koma inngangsorð höfundar að sögunum og svo sögurnar sjálfar sem kenna má við liðna tíma.

Metveiði

Sá sem þetta skrifar fer ekki í grafgötur með það að honum finnst magnveiði á rjúpu eiga að heyra fortíðinni til þó ekki sé nema fyrir þá einföldu ástæðu að með magnveiði minnkum við möguleika komandi kynslóða á að fá að njóta rjúpnaveiða á sama hátt og við höfum fengið að gera. Sjálfbærar veiðar eiga að vera takmark okkar tíma. Skilgreining á því hugtaki og leiðirnar til þess eru svo annar hlutur, til að fjalla um það þyrfti aðra bók og þar verða aldrei allir sammála.

Það er ekki þar með sagt að veiðigleðin geti ekki fengið að njóta sín þótt hófsemi sé sýnd við veiðar, að gleðjast yfir góðum afla er sannarlega hluti af veiðiupplifuninni. En með tilkomu sölubannsins var tími atvinnumennsku í rjúpnaveiði liðinn, í dag veiða flestir veiðimenn fyrir sig og sínar fjölskyldur. Eitthvað er um að rjúpur séu seldar á svörtum markaði en það er hverfandi og skiptir litlu máli í heildarmyndinni.

Indriði Aðalsteinsson skaut 348 rjúpur á aðeins þremur dögum.
Indriði Aðalsteinsson skaut 348 rjúpur á aðeins þremur dögum. Ljósmynd/Róbert Schmidt

Og auðvitað er áhugavert og spennandi að heyra af mikilli veiði! Hér á eftir fara tvær frásagnir af metrjúpnaveiði, önnur átti sér stað 1986,hin tíu árum seinna. Í samtölum við veiðimennina, þá Hannes Hilmarsson á Kolbeinsá í Hrútafirði og Indriða Aðalsteinsson á Skjaldfönn á Snæfjallaströnd, kom fram að í þessum tilvikum voru aðstæður einstakar og þeir hafa hvorugur lent í sambærilegum aðstæðum, hvorki fyrr né síðar. Ég bið lesendur að dæma ekki þá veiðimenn sem hér deila sögum sínum, höfum í huga að á þessum tímum ríktu önnur viðmið og rjúpnaveiði var ennþá tekjulind duglegra veiðimanna eins og þeirra Hannesar og Indriða. Vera má að til séu sögur um meiri veiði, en þetta er sú mesta sem ég hef heyrt af á meðal núlifandi veiðimanna.

Indriði Aðalsteinsson

Stóri dagurinn

...Berserksgangurinn rann af mér, ég var gegndrepa af svita og snjóbráð svo hvergi var þurr þráður...

Eftirfarandi frásögn Indriða er hluti lengri greinar í jólablaði Vestfirðings 1987.

Indriði segir hér frá metveiði sem hann gerði í nóvember árið áður þegar hann veiddi 201 rjúpu á einum degi, 76 rjúpur daginn áður og 71 rjúpu daginn eftir eða 348 rjúpur á þremur dögum.

Það bar lítið á rjúpu framan af veiðitíma í fyrra, enda snjóalög þannig að hún var dreifð út um allt. Ég hafði lítið mátt vera að því að sinna veiðiskapnum og var ekki birgur af skotfærum, taldi líka hæg heimatökin að fá slíkt frá Ísafirði, ef veðurútlit skánaði.

Í nóvember fer veður versnandi með mikilli krapahríð til fjalla og næstu tvo sólarhringa er aftaka norðaustanhríð. Símasamband rofnar um hádegi 8. nóvember vegna raflínubilana á Snæfjallaströnd. Mánudaginn 10. nóvember var batnandi veður, gengur þó á með éljum og skefur. Upp úr hádegi fór ég akandi á Land Rover niður að Melgraseyri til að kanna færð og athuga hvort sími sé víðar bilaður og reyndist svo vera. Tókst mér því ekki að ná til Ísafjarðar til að fá skot með Djúpbátnum að morgni. Á heimleiðinni fékk ég 76 rjúpur enda vindur orðinn hægur. Á þriðjudagsmorgun 11. nóvember var ég snemma uppi og gaf fénu. Í birtingu á fjárhúshlaðinu hlustaði ég um stund á margraddaðan ropkór allt í kring. Logn var, og skafheiðríkt og tíu gráðu frost. Það fór ekki milli mála að rjúpan var komin.

Jarðbönn á hálendinu milli Djúps og Stranda og síðan veðurofsinn höfðu sópað henni niður í dalina hér norðan Djúpsins. Ég ferðbjóst í snatri og gleymdi því tvennu sem hefði létt mér lífið þennan dag og aukið fenginn, þ.e. gönguskíði og riffill.


Þegar komið var á veiðisvæðið í fullbirtu var allt krökkt af rjúpu sem var að safna í sarpinn. Hún var treg til að fljúga, en hljóp þess meira. Áður en ég þurfti að fara á bát um hádegi var ég búinn að fá 70–80 rjúpur. Nærri klukkutími fór í bátinn og Snævar Guðmundsson á Melgraseyri lánaði mér gjörvallar skotfærabirgðir sínar, um 40 haglaskot. Ég flýtti mér til baka enda augljóst að fengur þessa dags gæti orðið með ólíkindum mikill. Ég hafði nokkrum sinnum áður komist yfir 100 rjúpur á dag, nú voru það smámunir, en skotfærin gengu ört til þurrðar. Um klukkan tvö hætti ég að skjóta öðruvísi en að hafa 3–4 í skoti, um klukkan hálffjögur var síðasta skotinu skotið.

Dúi J. Landmark lýsir þeirri skoðun sinni að sögur af …
Dúi J. Landmark lýsir þeirri skoðun sinni að sögur af magnveiði eigi að heyra fortíðinni til. Hins vegar eru þetta áhugaverðar og merkilegar heimildir um fyrri tíma. Ljósmynd/Dúi Landmark

Berserksgangurinn rann af mér, ég var gegndrepa af svita og snjóbráð svo hvergi var þurr þráður. Frostið herti undir rökkrið (var 15 gráður er heim kom) og hátt á annað hundrað rjúpur upp um allan skóg biðu flutnings að vegi. Eins og gefur að skilja fór engin rjúpa í bakpoka eða var bundin í kippu meðan ég hafði skot þennan dag. Til þess var enginn tími. Þær voru bornar í köst inni í runnum á 12–14 stöðum og þeir lagðir á minnið og ég giskaði á að fengurinn væri rúmlega 160 rjúpur.

Sem betur fór var veiðisvæðið ekki langt frá vegi, en komið var svartamyrkur áður en allt var komið í bílinn og síðustu köstin fundust við vasaljós. Þegar heim kom og ég hafði nærst og farið í bað og lifnað ögn við aftur, gaf ég fénu kvöldgjöfina og svo fórum við feðgar að telja út úr Land Rover. Var allt skrifað samviskusamlega niður og fór ekkert milli mála, hundrað níutíu og þrjár og sú tala breyttist ekkert við endurtalningu. Úr því sem komið var þótti mér verst að hafa ekki komist yfir 200 rjúpna þröskuldinn, óvíst að slíkt tækifæri gæfist aftur.

 
Um kvöldið komst síminn í lag og ég hringdi í Snævar á Melgraseyri og sagði honum af veiðinni og að nú gæti hann aflað sér aukatekna með því að hringja í fréttaskot DV og segja frá. Snævar lét ekki segja sér það tvisvar en „fréttahaukar“ DV gerðu ekkert í málinu, hafa vafalaust haldið þetta gabb. Ég hringdi líka um kvöldið í Árna Sig. á Vestfirska og kom frásögn í næsta blaði. Af því tilefni yfirheyrði Jens í Bæjum mig og gat þessa í fréttapistli í Morgunblaðinu og þá fyrst vöknuðu fjölmiðlar syðra upp með andfælum. Moggi hóf mikla leit meðal lesenda sinna að heimildum um veiði sem gæti hnekkt þessu „meti“. Niðurstöðurnar urðu víst þær að fara varð 70 ár aftur í tímann til að finna dagveiðitölur sem jöfnuðust á við eða yfirtrompuðu „stóra daginn“.

Víðar en hér var góð veiði, 11. nóvember t.d. fékk Jón Halldórsson á Hróbergi 126 rjúpur. Miðvikudaginn 12. nóvember var ég á sömu slóðum og hafði nú riffil. Veðrið var að versna, rjúpan stygg og síðast öll á bak og burt. Ég náði þó 71 rjúpu og fann auk þess 8 rjúpna köst frá deginum áður sem mér hafði sést yfir í myrkrinu. Ég hafði þá eftir allt saman komist yfir 200 rjúpna þröskuldinn, en þar sem lægri talan var flogin út og taldist víst alveg nógu lygileg, var ég ekki að hafa hátt um þessa viðbót. Að síðustu skal hér tilfært vísukorn sem ég hripaði niður á jólakort til Jens í Bæjum í fyrra og er nokkurs konar áramótaheit. Tekið skal fram að þegar þetta er skrifað hefur ekki tekist að efna það.

Þó að kosti púl og puð,
pústra, strengi, eyrnasuð,
ef ég kemst að ári í stuð,

ætla ég mér þrjú hundruð.

Hannes Hilmarsson

Einstakar aðstæður sem ekki koma aftur


...þegar ég kem í fellið á fyrsta degi er það nær algrátt af rjúpu...

Hannes Hilmarsson bóndi á Kolbeinsá í vestanverðum Hrútafirði hefur veitt rjúpur í heimalandinu frá unga aldri og hefur oft gengið vel enda hin mesta veiðikló.
Haustið 1996 er honum minnisstætt en þá gerði hann einhverja mestu veiði sem sögur fara af hjá einum veiðimanni, 606 rjúpur á fjórum dögum.

„Ég ákvað að fara til rjúpna á landinu okkar um miðjan nóvember. Ef norðanáttir hafa verið ríkjandi er jafnan lítið sem ekkert að hafa á þessu svæði, en eftir langvarandi sunnanáttir taldi ég að aðstæður gætu verið góðar þessa daga. Skemmst er frá því að segja að þegar ég kem í fellið á fyrsta degi er það nær algrátt af rjúpu og hún var ekki mjög stygg. Þetta voru algjörlega einstakar aðstæður og ég var á veiðum frá birtingu og fram í myrkur. Rétt gaf mér tíma til að stýfa eins og einn sláturkepp úr hnefa, þvílíkt var kappið. Svona gekk þetta í þrjá daga en upp úr hádegi á fjórða degi breyttist veðrið, skall á með þokusudda og fór að rigna. Það var hreint magnað að verða var við þegar fellið tæmdist af rjúpu á nokkurn veginn korteri, ég sá þær fljúga í stórum hópum fram hjá mér í þokunni. Ég hef aldrei upplifað jafn mikla mergð af fugli, hvorki fyrr né síðar, og á líklega ekki eftir að gera það aftur. Að veiðum loknum beið talsverð vinna við að tína hrúgurnar saman og koma þeim til byggða.“

Rjúpur í vetrarbúningi. Alhvítar og oft á tíðum er erfitt …
Rjúpur í vetrarbúningi. Alhvítar og oft á tíðum er erfitt að greina þær í umhverfinu. Ljósmynd/Pétur Alan Guðmundsson

Áhugasamur veiðimaður sem heyrði eitt sinn frásögn af veiði Hannesar spurði í forundran: „Og hvar veiddirðu þetta allt?“ Eftir andartaks umhugsun svaraði Hannes af mikilli rósemi: „Ég bara man það ekki svo vel.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert