Sumir veiða stærri fiska en aðrir

Sigurður Héðinn, reynir að svara spurningunni; Af hverju veiða sumir …
Sigurður Héðinn, reynir að svara spurningunni; Af hverju veiða sumir stærri fiska en aðrir? Ljósmynd/Nils Folmer Jörgensen

Þetta er þekkt staðreynd og flestir veiðimenn þekkja einhverja annálaða stórlaxabana eða hvíslara eins og þeir eru kallaðir í veiða/sleppa umhverfinu. Í bók sinni Veiði, von og væntingar gerir Sigurður Héðinn tilraun til að svara þessari stóru spurningu. Af hverju veiða sumir stærri fiska en aðrir? Grípum niður í bókina í kafla sem heitir; Að standa yfir fiski.

„Stundum getur það gerst að menn reisa fisk – og kannski sérstaklega ef það er stór fiskur – og þá þarf að grípa til þess ráðs að standa yfir honum. Kannski lítið að gerast annars staðar í ánni og því óhætt að eyða tíma í að dýrka upp þann stóra.

Það er misjafnt hvaða aðferðum menn beita til þess að fá hann til að taka, þennan eina fisk sem þeir vita nákvæmlega hvar er. Ég tel best að taka eina langa pásu og gera ekki neitt. Vera með sömu lengd á línunni og bíða í nokkrar mínútur. Þegar maður reykti passaði vel að taka eina langa sígópásu, kannski um fimm mínútur.

Bækurnar sem Sigurður Héðinn hefur sent frá sér hafa verið …
Bækurnar sem Sigurður Héðinn hefur sent frá sér hafa verið listilega myndskreyttar af Sól Hilmarsdóttur. Hér má sjá baksvip höfundar og einbeitingin er alger. Teikning/Sól Hilmarsdóttir

Svo er byrjað að skipta um flugu og kasta sömu lengdinni á fiskinn aftur og gera þetta svo tvisvar, þrisvar og skipta svo um flugu aftur. Þetta er það sem við köllum að hvolfa boxinu yfir hann. Þegar búið er að kasta öllum flugum úr boxinu á fiskinn og kannski lengja tauminn, þá að endingu er flugunni kastað aftur sem fiskurinn var reistur á. Sumir nota þessa aðferð og það eru oft á tíðum þeir veiðimenn sem veiða stærstu fiskana. Það er þrautseigja og þrjóska sem skilar þeim fiskum og skilur þá frá öðrum veiðimönnum. Þeir vita nákvæmlega hvar stóri fiskurinn er og vinna í honum með allt öðru hugarfari en þegar verið er að veiða hyl á hefðbundinn hátt.

Þetta, að kasta aftur og aftur á sama fiskinn, skilar ansi oft árangri en alls ekki alltaf – og sumir hafa alls ekki þolinmæði í þetta. Þetta getur þó skipt sköpum og getur verið þrælgaman að standa yfir þeim. Stundum koma þeir aftur og aftur upp í fluguna og það getur verið mjög fróðlegt og aukið þekkinguna á því hvers vegna þessar flugur verða fyrir valinu en ekki aðrar.

Hrygna sem Sól teiknaði. Stærðin er ekki ljós. Væntanlega myndi …
Hrygna sem Sól teiknaði. Stærðin er ekki ljós. Væntanlega myndi Siggi "hvolfa boxinu" yfir hana ef hún flokkast sem 2ja ára. Teikning/Sól Hilmarsdóttir

Við getum velt vöngum yfir því af hverju sumir veiði stærri fiska en aðrir og þetta er eitt af því sem þessir veiðimenn gera, þeir eru búnir að veiða nóg af smálaxi og þetta er það sem þeir eru að sækjast eftir. Þeir stunda kannski viðkomandi vatnasvæði oft yfir tímabilið og vita uppá hár hvar stóru fiskarnir eru. Þeir eru semsagt búnir að staðsetja þá og bíða svo betri tíma þegar þeir vita að stóru fiskarnir fara á stjá. Það er heldur ekki tilviljun að stóru fiskarnir veiðast gjarnan síðsumars eða á haustin en það gerist vegna þess að þeir eru að verja bólið sitt og gera allt sem þeir geta til þess.

Að setja í stóran fisk er allt önnur deild en smálaxaveiðar og sumar viðureignir geta verið illvígar og oft reynir á veiðimanninn. Stóra málið er hvernig tekst til að landa honum. Það er deginum ljósara að sumir fiskar læra og stóru fiskarnir eru þar engin undantekning. Ég hef ég heyrt margar sögur af því hvernig þeim tekst að leika á veiðimanninn – og sleppa frá honum með klókindum. Eins og þegar fiskur tekur allt í einu upp á því að koma á fleygiferð að veiðimanninum, snúa sér við eldsnöggt og fara á fullu út aftur og rífa fluguna úr sér og jafnvel að slíta tauminn. Ég segi stundum að það sé ekki að ástæðulausu að þessir gæjar eru stórir, þetta eru töffarar.

Þessir boltar hafa farið í gegnum margs konar hættur á ævinni og alltaf sloppið. þetta eru yfirburðadýr í náttúrunni sem við eigum að bera fulla virðingu fyrir og dást að.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira