Kvikmyndin Allra síðasta veiðiferðin verður frumsýnd í kvikmyndahúsum fyrri hluta marsmánaðar. Þetta er sjálfstætt framhald af vinsælu gamanmyndinni Síðasta veiðiferðin. Leikarahópurinn er fjölmennari en í fyrri myndinni og þar má fyrstan til telja stórleikarann Sigurð Sigurjónsson sem fer með hlutverk tengdapabba Vals Aðalsteinssonar fjárfestis, sem Þorsteinn Bachmann leikur. Aðstandendur myndarinnar segja að þar hitti skrattinn ömmu sína og vísa til veiðifrekju Vals.
Þeir Markel-bræður, Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson, sem leikstýra og framleiða myndina, líta hvor á annan þegar spurt er: Er þetta betri mynd en Síðasta veiðiferðin?
„Hún er stærri. Fleiri leikarar og meiri læti. Já og meira rugl og áfengi,“ svarar Örn Marinó. Þorkell bætir við: „Já, það bætast inn leiðsögumenn í henni og lögreglukonurnar spila stærra hlutverk og hún er stærri í sniðum.“
Þeir félagar segja að auðveldara hafi verið að gera þessa mynd. Góður orðstír fyrri myndarinnar hafi þar hjálpað. „Okkur var tekið ótrúlega vel og það opnuðust allar dyr fyrir okkur,“ segir Þorkell.
Umgjörðin er ekki af verri endanum en tökur fóru fram í Aðaldal í sumar sem leið. Þeir félagar eru sem sagt að fara í drottninguna. Yfirskriftin á plakatinu fyrir myndina er: „Það má ekkert klikka í þessum túr.“
Þegar Þorkell er spurður út í þessa yfirskrift svarar hann einfaldlega: „Leiðin til helvítis er vörðuð góðum ásetningi.“
Allra síðasta veiðiferðin verður frumsýnd í kvikmyndahúsum fyrri hluta marsmánaðar og mun dagsetning ráðast af samkomutakmörkunum og stöðu heimsfaraldursins.
Tökur á þriðju myndinni fara fram í sumar og ber hún vinnuheitið Langsíðasta veiðiferðin. Að stærstum hluta er um að ræða sama leikarahóp eða eins og Örn Marinó orðar það: einhverjir detta út og nýir koma í staðinn. Bara eins og gerist hjá veiðihópum. Umgjörðin í þeirri mynd verður sama og í Síðustu veiðiferðinni. Hópurinn fer aftur í Mýrarkvísl og verður myndin tekin upp þar.
Síðasta veiðiferðin hefur farið í sölu og dreifingu víða um heim. Þannig er myndin nú aðgengileg á VOD í Kína svo eitthvað sé nefnt og hún hefur verið seld til flestra landa í Suður-Ameríku. Hún fór í kvikmyndahús í Noregi og hefur verið talað inn á hana bæði á portúgölsku og spænsku. Endurgerð myndarinnar er fyrirhuguð í nokkrum löndum en þau áform hafa dregist út af heimsfaraldrinum. En þeir félagar eru mjög ánægðir með viðtökurnar bæði hér heima og um heimsbyggðina alla.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Richard Jewell | 9. ágúst 9.8. |