Ísland í fyrsta sæti á laxveiðilistanum

Peter Rippin með einn af þeim stóru úr Yokanga í …
Peter Rippin með einn af þeim stóru úr Yokanga í Rússlandi. Þessi veiddist í veiðistaðnum Lyliok árið 2014. Peter er hokinn af reynslu þegar kemur að rekstri veiðisvæða. Ljósmynd/Ripp Sporting

Peter Rippin, eigandi Ripp Sporting, sem er með Eystri – Rangá, Þverá og Affallið á leigu, segir Ísland efst á lista í heiminum þegar kemur að laxveiði. Hann telur Ísland hafa forskot bæði á Noreg og Rússland í þessum efnum.

Peter er hokinn af reynslu þegar kemur að fluguveiði hvort sem er í sjó eða ferskvatni. Hann hefur eytt miklum tíma í Rússlandi og Noregi bæði sem veiðimaður en einnig sem leiðsögumaður og umsjónarmaður með nokkrum af bestu laxveiðiánum í þessum löndum. Í meira en tvo áratugi hefur hann veitt á Íslandi og skipulagt ferðir hingað fyrir laxveiðimenn.

Þegar við náðum tali af Peter var hann nýkominn á heimili sitt í Bretlandi eftir ferð með fjölskylduna til Seychelleseyja, en Ripp Sporting rekur þar aðstöðu fyrir veiðimenn. „Ég var ekki að veiða nema einn dag. Var aðallega að taka út aðstæður og fylgjast með stöðunni. Það ánægjulegasta í ferðinni var að þriggja ára dóttir mín landaði sínum fyrsta Bonefish,“ segir Peter og hlær. Hann segir dóttur sína verða mikinn föðurbetrung með sama áframhaldi. „Hún landaði sínum fyrsta laxi í Eystri – Rangá rétt fyrir tveggja ára afmælið sitt. Hún setti í hann og ég háfaði.“ Það er ljóst að sú stutta er efni í mikinn veiðimann og Peter segir að hún hreinlega elski að veiða.

Peter byrjaði ungur að veiða víðs vegar á Englandi og í Skotlandi. Hann varð heltekinn af veiðidellu og fljótlega heyrði hann af Íslandi og átti sér fljótlega draum um að veiða hér á landi.

Peter og eiginkona hans Hannah á góðri stund við Laxá …
Peter og eiginkona hans Hannah á góðri stund við Laxá í Kjós. En sú á er Peter einkar hugleikin. Ljósmynd/Ripp Sporting

Eftir nám réði Peter sig sem leiðsögumann veiðimanna í Argentínu, í einhverri bestu sjóbirtingsveiði sem í boði er. Eftir að hafa kynnst Argentínu lá leiðin til Rússlands þar sem hann var í leiðsögn í ánni Ponoi. „Þar hitti ég mikið af fólki sem hafði veitt á Íslandi og minn áhugi á þessari eyju og veiðiparadís sem margir töluðu um, jókst og jókst.

Á þessum tíma varð til félagið Schakleton, sem leigði veiðisvæði og byggði upp úrvals aðstöðu við margar af bestu laxveiðiám í heimi. Ég fór að vinna fyrir Schakleton og eitt af fyrstu svæðunum sem félagið tók á leigu var Laxá í Kjós á Íslandi. Ég bar ábyrgð á veiðisvæðunum okkar og ferðaðist því víða um heim og fylgdist með. Við vorum með rekstur í Alaska, á Seychelleseyjum, Rússlandi og á Íslandi var það Laxá í Kjós.“

Ásgeir Heiðar og Oddný kona hans ráku Kjósina á þessum tíma. Þar rættist draumur Peters um að veiða á Íslandi og kynnast nýjum hlutum í veiðinni. Kjósin skipar enn stóran sess í huga Peters og hann naut leiðsagnar og kennslu frá nokkrum af íslensku goðsögnunum í laxveiði, eins og hann kallar strákana. Þar er hann að vitna til manna á borð við Ásgeir Heiðar, Gísla Ásgeirsson, Harald Eiríksson, Sigurð Gunnarsson og fleiri og fleiri. „Þessir strákar sem ég lít mjög upp til, kenndu mér allt um smáfluguveiði, hitch og að veiða í kristaltæru vatni. Þar fékk ég trúna á það að lax sem liggur djúpt í hyl kemur marga metra upp í yfirborðið og tekur smáflugu eða hitch númer átján. Þetta var algerlega nýr skóli fyrir mér þó svo að ég hafi á þeim tíma verið búinn að veiða mikið.“ Hann rifjar upp þegar Ásgeir Heiðar var að kenna honum og meðal annars lét hann sitja á bakkanum í klukkutíma og fylgjast með hyl og því sem var að gerast í honum. „Ég lærði ótrúlega mikið af Ásgeiri. Hann er svo flinkur veiðimaður og býr yfir hæfileikum sem ekki öllum eru gefnir. Þetta leiddi til þess að ég fékk algera dellu fyrir þessari smáfluguveiði enda er hún ótrúlega mögnuð og þetta var svo nýtt fyrir mér á þeim tíma.“

Peter með 118 sentímetra Giant Trevally á Seychelleseyjum. Félagið rekur …
Peter með 118 sentímetra Giant Trevally á Seychelleseyjum. Félagið rekur þar aðstöðu fyrir veiðimenn. Ljósmynd/Ripp Sporting

Ef þú berð saman íslenska veiðimenn sem þú hefur kynnst, við veiðimenn frá öðrum löndum. Hvernig lítur sá samanburður út?

„Ísland er svo öðruvísi. Hér er í svo mörgum hyljum hægt að sjá laxinn og hvernig hann bregst við. Í ám í Skotlandi eða Rússlandi er þetta möguleiki á einstaka stað en yfirleitt ertu ekki að sjá laxinn. Þar ertu í raun og veru að veiða hyl í blindni. Þú veist að hann er þarna en þú ert að kasta flugunni yfir mjög stóran stað. Á Íslandi er svo víða hægt að fylgjast með hvernig laxinn bregst við. Þarna verður til svo mikil reynsla. Menn sjá hvernig laxinn bregst við hraða flugunnar, stærð hennar og hvernig flugan er lögð fyrir laxinn. Þetta leiðir af sér að íslenskir veiðimenn öðlast meiri skilning á hegðun laxins og nýta sér það til að fullkomna tækni sína við veiðarnar. Þetta hafa íslenskir veiðimenn fram yfir svo marga aðra.“

Peter nefnir dæmi. Hann var umsjónarmaður rússnesku árinnar Yokanga um nokkurt skeið og þangað komu margir íslenskur veiðimenn. Hann nefnir sérstaklega til sögunnar að gríðarstór lax hafði sést á einum veiðistað. Tóti tönn var staddur í þessu holli og svo kom að því að tannlæknirinn frá Íslandi átti að veiða staðinn. „Hann tók íslensku aðferðina á þetta. Fiskurinn er hér, og liggur um það bil á þessu dýpi. Hann kastaði flugunni beint fyrir framan fiskinn og setti mjög fljótlega í hann. Þetta var fiskur yfir fjörutíu pund. Flestir veiðimenn sem ég þekki hefðu kastað margvíslegum flugum yfir þennan fisk. Sjálfsagt byrjað með Ally´s Shrimp og endað á Collie Dog. Staðið á nákvæmlega sama staðnum og hraðinn á flugunni hefði líkast til alltaf verið sá sami. Sennilega hefðu þeir ekki sett í fiskinn. Þarna liggur kannski munurinn á íslenskum veiðimanni og öðrum,“ segir Peter.

Mæðgur landa laxi í Eystri - Rangá. Hannah með dóttir …
Mæðgur landa laxi í Eystri - Rangá. Hannah með dóttir þeirra Peters, sem veiddi sinn fyrsta lax rétt áður en hún varð tveggja ára. Ljósmynd/Ripp Sporting

Peter, eða félag hans Ripp Sporting er nú leigutaki að Eystri – Rangá, Affallinu og Þverá. Hvernig gerðist það og hvað fékk hann til að leggja í áhættu uppi á Íslandi?

„Ég lít ekki á þetta sem áhættu. Auðvitað getur þetta farið í báðar áttir fjárhagslega, en þegar kemur að því hvernig ég vil lifa mínu lífi, þá er þetta ekki áhætta. Ísland hefur upp á meira að bjóða en flest lönd þar sem hægt er að komast í laxveiði. En þetta gerðist eiginlega þannig að ég var að veiða með Árna Baldurssyni sem á þeim tíma var með leigusamninginn. Hann var farinn að tala utan af því að draga sig í hlé og taka sér meira frí. Komandi úr hans munni þýðir það bara að fara að veiða enn meira. En þetta samtal okkar endaði á því að við keyptum veiðihúsin og aðstöðuna og yfirtókum leigusamninginn.“

Peter segist mjög spenntur fyrir þessu verkefni. Hann átti auðvitað ekki von á að hefja rekstur í heimsfaraldri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á ferðalög og lífið almennt. „Þetta er frábært tækifæri. Ég man að eftir fyrsta sumarið mitt í Laxá í Kjós þá hugsaði með mér að ég myndi aldrei vilja upplifa sumar nema eyða hluta þess á Íslandi.“

Ripp Sporting er ekki stórt fyrirtæki í þeim skilningi. Félagið er í raun fjögurra manna teymi þar sem Peter og vinur hans til fjölda ára, Jack Selby halda um stjórnartaumana.

Hvernig líst þér á sumarið og framtíðina fyrir Eystri og Þverá og Affallið?

„Auðvitað lúta okkar ár ekki alveg sömu lögmálum og árnar sem eru með hundrað prósent villtan lax. Við erum með sleppingar á seiðum og tryggjum þannig vöxt og viðgang í veiðinni. Hins vegar ganga seiðin okkar til sjávar og takast þar á við sömu umhverfisáskoranir og seiði úr öðrum ám. Forskotið okkar liggur í því að stefna að framleiðslu á úrvals seiðum sem eiga góða möguleika. Þegar ég tala um okkur þá er að horfa á veiðifélagið og Börk og hans teymi sem stefna að því að framleiða bestu mögulegu seiði og í eins miklu magni og mögulegt er. Þá eiga fleiri laxar möguleika á að koma aftur að ári eða eftir tvö ár.“

Keith pabbi Peters nýbúinn að landa birtingi í Eystri. Kynslóðirnar …
Keith pabbi Peters nýbúinn að landa birtingi í Eystri. Kynslóðirnar veiða saman enda telur Peter það eitt stærsta verkefnið að fjölga veiðimönnum. Ljósmynd/Ripp Sporting

Hvernig leit þetta út með síðustu sleppingu? Seiðin sem eiga að mæta sem smálax í sumar?

„Sleppingin í fyrra virkar mjög spennandi. Þetta er smálaxinn sem á að koma í sumar og tveggja ára fiskurinn 2023. Seiðin sem fóru út í fyrra eru bestu seiði sem við höfum náð að framleiða. Gæðin voru mjög mikil og meðalþyngdin hefur ekki verið betri. Fjöldinn sem fór út er líka sá mesti sem við höfum séð. Þannig að ég er virkilega bjartsýnn á sumarið. En svo eru það allir óvissuþættirnir sem við búum við eins og allar aðrar ár. Sjórinn er alltaf mikil áskorun fyrir hvern seiðaárgang og við vitum aldrei með þá stöðu fyrr en eftir á. Verði hins vegar meðal heimtur erum við að horfa á spennandi sumar.“

Markmiðið hjá Peter og hans hægri hönd Jóhanni Davíð Snorrasyni er að treysta enn frekar möguleika veiðimanna sem koma í Eystri. Peter nefnir að stundum geti svæði verið misgóð og það komi tímar þar sem einstaka svæði skila lítilli veiði. „Við ætlum að fjölga sleppitjörnum neðar í ánni með það að markmiði að geta boðið veiðimönnum sem eiga svæði sem tímabundið er lítið af fiski á, upp á valkost. Með þessu er markmiðið að auka enn frekar veiðina og auka möguleika fyrir veiðimenn.“

Þegar Peter horfir lengra fram á veginn þá er hann að vonast til þess að lausn finnist svo hægt verði að auka landeldi á fiski og í framhaldi að ríkisstjórnir víða um heim banni fiskeldi í sjávarkvíum eins og tíðkast svo víða. Hann horfir á kvíaeldi í sjó sem eina alvarlegustu hættuna sem steðjar að villtum laxi.

Peter með eitt af tröllunum úr Alta í Noregi. Þrátt …
Peter með eitt af tröllunum úr Alta í Noregi. Þrátt fyrir að hafa veitt mikið bæði í Rússlandi og Noregi þá setur Peter Ísland í fyrsta sætið. Ljósmynd/Ripp Sporting

„En til lengri tíma þá horfi ég líka til þess að mín ábyrgð liggur að stórum hluta í því að fjölga veiðimönnum og þá ekki síst að fjölga ungum veiðimönnum. Það er gríðarlega mikilvægt að tryggja að komandi kynslóðir hafi áhuga á laxinum og sportinu okkar. Eitt það versta sem við gætum lent í er að þetta sport fjari út. Þá er enginn til að berjast fyrir framtíð villta laxins. Fiski heldur áfram að fækka og öllum verður jafnvel bara sama. Það væri skelfileg staða. Minn metnaður liggur því í því að fjölga veiðimönnum og kynna sportið með nýjum hætti. Það er stóra áskorunin í dag og til framtíðar.“

Hvernig gengur að laða að nýtt fólk? Samkeppni um afþreyingu og upplifun hefur væntanlega bara aukist.

„Já. Þetta er erfitt. Ímyndaðu þér að foreldri segir við barnið sitt, sem aldrei hefur farið að veiða. Nú skulum við fara að veiða. Til Íslands, eða Rússlands eða í sjávarveiði við Bahamas eða á Seychelles. Krakkinn gæti haft áhyggjur af kulda, skordýrum og alls konar. Á hinni vogarskálinni er frí á ströndinni þar sem hægt er að vera í sundfötum alla daga og alls konar afþreying í tengslum við þá staðsetningu. Þannig að það er undir okkur foreldrunum komið að gera þetta spennandi og ég hætti aldrei að dáðst að því þegar ungur veiðimaður fær fyrsta fiskinn hversu mögnuð upplifun það er fyrir hvern og einn. Ég hef svo oft séð hvað krakkar frá svona átta ára og upp úr eru fljót að upplifa spennuna og ánægjuna í sportinu. Þau eru ótrúlega fljót að tileinka sér svo margt í kringum þetta.“

Peter segir þetta brekku, en að við verðum að halda trúnni á verkefnið og halda áfram og gera það sem í okkar valdi stendur til að fjölga veiðimönnum og höfða til nýrra kynslóða.

Rio Grande í Argentínu. Þar starfaði Peter sem leiðsögumaður. Hér …
Rio Grande í Argentínu. Þar starfaði Peter sem leiðsögumaður. Hér er hann sjálfur að veiða í hávaða roki. Ljósmynd/Ripp Sporting

Hvað segir Peter um stöðuna í laxveiðiheiminum í dag. Ef hann ætti að lista upp þrjú bestu löndin þegar kemur að laxveiði. Hvernig liti sá listi út?

„Ég myndi segja Ísland númer eitt. Svo koma Rússland og Noregur, held ég.“

Ef umhverfið og aðstæður í Rússlandi væri öruggari, væri listinn þá öðruvísi?

„Nei. Ísland er alltaf í fyrsta sæti. Ef þú vilt eiga möguleika á að veiða marga laxa, veiða stóran lax. Bæði marga og stóran og eiga möguleika á að veiða lax á spennandi hátt. Þá ferðu til Íslands. Hér getur veiðimaður verið nokkuð viss um að fá fiska. Veiða þá með hitchi eða á hröðu strippi í fallegu og öruggu umhverfi og laus að mestu við skordýr. Það keppa engir staðir við þetta og þess vegna er Ísland í efsta sæt listans að mínu mati. Svo ertu með allt hitt. Góða heilbrigðisþjónustu og fjarskipti og heilt yfir trausta innviði í samfélaginu. Þetta skiptir allt máli. Við sáum þetta svo vel í Covid. Erlendir veiðimenn sem komu síðasta sumar voru mjög ánægðir með hvernig við höndluðum þetta og fannst mikilvægt að Ísland var opið. Fyrir marga sem komu var þetta eina ferðalagið eða afþreyingin allt árið.“

Er Ripp Sporting að leita að fleiri ám á Íslandi til að taka á leigu?

„Já. Það er eitthvað sem við erum að skoða. En við ætlum ekki að bæta við okkur svæðum bara til að vera með fleiri ár. Ef af því yrði þyrfti það að eiga fullkomna samleið með Eystri – Rangá og því viðskiptamódeli sem við vinnum eftir í dag. Við tókum til að mynda þátt í viðræðum um Norðurána. Hún hefði fallið að okkar hugmyndum og við viljum gjarnan geta boðið upp á svæði fyrir minni hópa sem geta þá verið út af fyrir sig. En við erum ekki að leita að svæðum bara til að fjölga seldum stöngum. Við upplifum í Eystri – Rangá og á öllu svæðinu að umhverfið er gott og við eigum opin, vingjarnleg og heiðarleg samskipti við veiðifélagið og landeigendur. Það skiptir svo miklu máli.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira