Víða stuð á slóðum sjóbirtings

Harpa Hlín með glæsilegan birting úr Leirá í dag. Þau …
Harpa Hlín með glæsilegan birting úr Leirá í dag. Þau voru búin að landa 22 fiskum þegar langt var liðið á daginn. Þau voru samt ekki hætt. Ljósmynd/Stefán Sigurðsson

Veiðitímabilið fór af stað með látum í dag. Víðast hvar voru skilyrði til veiða með besta móti. Hægur vindur og frekar hár lofthiti. Menn voru bókstaflega út um allt að gera ýmist þokkalega veiði eða hreinlega frábæra veiði.

Í Eldvatni byrjaði þetta rólega en þegar hlýnaði eftir því sem leið á daginn færðist fjör í leikinn. Nú undir kvöld var búið að landa tíu birtingum og eins og gefur að skilja missa nokkra mjög stóra. Mest voru púpur að gefa en líka straumflugur.

Tungufljót í Skaftafellssýslu og nágranni Eldvatnsins bauð upp á veislu. Frábær skilyrði voru til veiða og jafnt veiðimenn og fiskar voru hungraðir eftir veturinn. „Ég hef veitt hérna í fimmtán ár og man bara einu sinni eftir svona góðum skilyrðum. Logn og ellefu stiga hiti þegar best lét,“ sagði Sigurður Marcus Guðmundsson í samtali við Sporðaköst um kvöldmatarleitið.

Hollið var komið með þrjátíu fiska og var hann að veiðast víða. „Við fórum í Hlíðarvað og tókum tvo þar. Svo var sennilega fimmtíu fiska torfa við Brúna og við náðum tveimur þar. Ein svakaleg skepna var í þeirri torfu og við giskuðum á að það væri fiskur um meter að lengd."

Sigurður Marcus með tvo til sleppingar í Tungufljóti í dag. …
Sigurður Marcus með tvo til sleppingar í Tungufljóti í dag. Hollið ákvað að veiða bara á flotlínur og það var heldur betur að virka. Ljósmynd/VF


Hollið tók ákvörðun um að einungis yrði veitt á flotlínur fyrsta daginn og það var heldur betur að virka. Hvítur Nobbler og fleiri hefðbundnar straumflugur gáfu þessa fiska. „Meira að segja einn koma á Sunray,“ sagði Sigurður.

Geirlandsá gaf góða veiði í dag og sama má segja um Tungulæk í námunda við Kirkjubæjarklaustur. Þá fréttum við af mönnum í Hörgsá sem voru að gera góða veiði.

Leirá olli ekki vonbrigðum en nú síðdegis náðu Sporðaköst tali af Hörpu Hlín Þórðardóttur leigutaka og veiðimanni. Hún staðfesti að 22 væru komnir á land. Skilyrði þar voru líka hreint afbragð.

Húseyjarkvísl sveik ekki frekar en fyrri daginn og þar var búið að bók þrettán birtinga um miðjan dag. Varlega má áætla að þeir hafi verið komnir yfir tuttugu talsins þegar degi fór að halla enda skilyrði þar eins og annars staðar, hreint með ólíkindum góð.

Gaman að sjá eina bleikjumynd. Þetta er sjálfa sem Gunnar …
Gaman að sjá eina bleikjumynd. Þetta er sjálfa sem Gunnar Norðdahl tók við Brúará í dag. Hann og félagi hans lönduðu fimm bleikjum á púpur. Ljósmynd/GBN

Sporðaköst heyrðu í Gunnari Norðdahl en hann skellti sér í Brúará í landi Spóastaða og landaði ásamt félaga sínum fimm fallegum bleikjum. Eins og flestir veiðimenn sem við heyrðum í á opnunardegi dásamaði hann skilyrði til veiða.

Birtingur af Gunnugilsbreiðu í Ytri-Rangá. Gísli Már landaði þessum 71 …
Birtingur af Gunnugilsbreiðu í Ytri-Rangá. Gísli Már landaði þessum 71 sentrímetra birtingi. Ljósmynd/SS

Fyrsti birtingurinn úr Ytri–Rangá veiddist í morgun og fékkst hann á Gunnugilsbreiðu. Sá var 71 sentímetri og var það Gísli Már Ágústsson sem veiddi hann. Við höfum ekki heyrt af frekari aflabrögðum þar.

Nánari umfjöllun um opnun á hinum ýmsu svæðum birtist hér á morgun.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Hvítá við Iðu Ársæll Þór Bjarnason 19. september 19.9.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert