Veiðitímabilið í Eldvatni í Meðallandi hófst í gær með undirritun á nýjum samningi milli leigutaka og landeigenda. Félagið Unubót hefur verið með svæðið á leigu frá árinu 2013 og núgildandi samningur við veiðifélag landeigenda Eldvatns náði fram til ársins 2026. Í gær var undirritaður nýr samningur milli aðila sem gildir til ársins 2030.
Vel hefur tekist til með uppbyggingu á svæðinu. Mikil vinna og fjármunir hafa verið sett í að laga aðgengi að ánni og eru nú orðnir slóðar um nánast allt svæðið og að helstu veiðistöðum. Veiði hefur aukist verulega í ánni á tímabilinu og fiskur farið stækkandi eftir að veiða/sleppa fyrirkomulag var tekið upp að fullu árið 2013. Þá hafa einnig verið í gangi sleppingar á sjóbirtingsseiðum um nokkurt skeið.
Samninginn undirrituðu Guðbrandur Magnússon bóndi að Syðri–Fljótum og formaður veiðifélags Eldvatns og Sigurður Hannesson sem er formaður Unubótar ehf. Menn lýstu mikilli ánægju með samninginn og sögðu hann endurspegla gott samstarf og traust sem ríkt hefur milli aðila í uppbyggingu svæðisins.
„Þetta er samningur sem gildir út árið 2030 og er vísir á áframhaldandi uppbyggingu svæðisins. Ég tel að við séum á réttri leið og með þessum samningi er það mitt mat að við séum að fara inn í góða tíma og frekari uppbyggingu hér við Eldvatn. Samstarfið hefur verið gott og við vitum að það skiptir máli fyrir leigutaka að hafa samning til nokkurs tíma til að vinna með. Fyrir okkur skiptir líka máli að hafa ákveðin stöðugleika,“ sagði Guðbrandur í samtali við Sporðaköst við undirritunina í veiðihúsinu í Eldvatni í gær.
Sigurður Hannesson stjórnarformaður Unubótar sagði mjög mikilvægt að hafa samning til þetta langs tíma. „Þetta er framhald á því starfi sem hófst hér árið 2013 og þá vorum við með langtímaáætlun í huga og erum enn að vinna að henni. Nú er það starf sem hér hefur verið unnið virkilega farið að skila sér. Starf sem bæði við og landeigendur höfum lagt í síðustu árin. Við sem þekkjum þetta svæði til fimmtíu ára við sjáum afar mikla breytingu hér á öllu, Sjóbirtingsstofninn er í sókn og það er mjög ánægjulegt að sjá. Þegar við tókum við á sínum tíma var aðgengi að ánni svakalega erfitt að aðstæður í slóðamálum voru afleitar. Nú er það komið í ágætis horf þó að enn sé hægt að gera betur,“ sagði Sigurður í samtali við Sporðaköst.
Opnunardagurinn í Eldvatni gaf tíu birtinga og einhverjir misstust. Stærstu fiskarnir voru á bilinu 80 til 85 sentímetrar. Fjöldi veiðistaða hefur bæst við síðustu árin og hafa veiðimenn verið duglegir að leita að nýjum stöðum en Eldvatnið er mikið flæmi og sjálfsagt enn staðir sem ekki er vitað um.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Eystri-Rangá | Grzegorz Loszewski | 27. september 27.9. |
105 cm | Hvítá við Iðu | Katrín Tanja Davíðsdóttir | 24. september 24.9. |
101 cm | Víðidalsá | Jón Eðvald Halldórsson | 22. september 22.9. |
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Agnar Sigurjónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Hvítá við Iðu | Gunnar Pétursson | 20. september 20.9. |
101 cm | Víðidalsá | Nils Folmer Jorgensen | 17. september 17.9. |