„Þessir fiskar eru bara einn vöðvi“

Sævar Örn með einn af þessum mögnuðu geldfiskum úr Húseyjarkvísl. …
Sævar Örn með einn af þessum mögnuðu geldfiskum úr Húseyjarkvísl. Þessi mynd var tekin í opnun í byrjun mánaðarins. Ljósmynd/SÖH

Veiðitímabilið hefur byrjað mjög vel í Húseyjarkvísl í Skagafirði. Sérstaklega hefur verið eftir því tekið hvað fiskar þaðan virðast vel haldnir. Af þeim veiðimyndum sem veiðimenn hafa verið að birta þessa fyrstu daga má sjá að birtingurinn þar er í afar góðum holdum.

Einn af þeim sem þekkir kvíslina vel er Sævar Örn Hafsteinsson sem bæði veiðir mikið þar og hefur einnig verið í leiðsögn með veiðimenn í ánni. Við spurðu Sævar um hvað gæti valdið þessu.

Og annar svona bolti. Samtals fékk Sævar fjóra svona sem …
Og annar svona bolti. Samtals fékk Sævar fjóra svona sem allir litu út eins og nýgengnir haustfiskar. Ljósmynd/SÖH

„Já. Þetta eru mjög flottir fiskar. Kannski er bara svona mikið æti á svæðinu. Þetta er í sjálfu sér ekkert nýtt af nálinni. Við sáum það í opnunarhollinu að hrygningarfiskurinn sem við fengum leit líka mjög vel út. Þeir eru ekki þessir hefðbundnu slápar eins og stundum eru að veiðast á vorin,“ sagði Sævar Örn í samtali við Sporðaköst.

Er geldfiskurinn þarna stærri en við þekkjum á Suðurlandi?

„Mér finnst það. Ég hef verið að fá fimmtíu til sextíu sentímetra geldfisk fyrir sunnan, en í kvíslinni erum við oft að fá geldfisk sem yfir sjötíu sentímetrar. Það er bara algengt. Ég náði fjórum svona í opnun og þetta eru fiskar sem eru bara einn vöðvi og ótrúlega þykkir." 

Sævar sendi okkur myndir til að sýna hversu vel haldnir þessir fiskar eru. Hann segir að opnunin hafi leikið við veiðimenn.  Þeir gátu veitt allan daginn þann 1. apríl og náðu svo hálfum degi eftir það. En skilyrði fyrsta dag voru með allra besta móti sem hann man eftir. Þegar leið á opnunardaginn voru þeir komnir í flotlínur og fiskurinn var að taka líka í yfirborðinu.

Hann segist hafa orðið var við sambærilega fiska í Eyjafjarðará í vorveiði en telur að hugsanleg skýring gæti verið að geldfiskurinn sé að mæta síðar og sé því búinn að ná meiri vaxtartíma. En klárlega er þetta öðruvísi fiskur en er að veiðast á Suðurlandi, þegar kemur að geldfiskinum.

„Þetta eru líka alvöru viðureignir. Fiskurinn tekur og svo er bara upp á sporðinn og heljarstökk og flikk flakk. Þessir fiskar eru líka bara einn vöðvi og sterkir eftir því,“ segir Sævar sem lýsir þessum viðureignum sem sambærilegar við birtinga sem eru að mæta að hausti.

2. apríl 2021. Þorsteinn Guðmundsson með flottan birting sem hann …
2. apríl 2021. Þorsteinn Guðmundsson með flottan birting sem hann merkti með slöngumerki. 76 sentímetrar. Ljósmynd/SÖH
Sævar Örn með sama fisk og á myndinni að ofan. …
Sævar Örn með sama fisk og á myndinni að ofan. Veiddur 1. apríl 2022. Slöngumerkið staðfestir það. Skutu á 78 sentímetra, mældur með faðmi. Voru ekki með sentímetra málband. Ljósmynd/SÖH


Sævar segir að almennt virðist fiskurinn í Húseyjarkvísl vel haldinn. „Við sjáum þetta líka í gegnum merkingarnar okkar. Við erum duglegir að merkja fiska með slöngumerkjum og skráum þau inn í Anglin IQ appið. Svo ef fiskur veiðist með merki þá skráum við merkið og „töggum“ fiskinn. Við fengum til dæmis einn í opnun núna sem var veiddur, merktur og sleppt 2. apríl í fyrra. Við veiddum hann aftur 1. apríl í ár. Ég held að sá fiskur hafi ákveðið að fara ekki niður í fyrra. Þá var hann silfraður og flottur og þegar ég veiddi hann núna þá var þetta greinilega fiskur sem var búinn að hrygna.“

Með í fréttinni fylgja myndir af fiskinum, þegar hann var veiddur vorið 2021 og svo þegar hann veiddist núna í opnun af Sævari. Merkið er IS112454 og fer ekki á milli mála að þetta er sami fiskur og hefur ekki orðið meint af sleppingu árið áður.

„Þegar að Steini veiddi hann í fyrra mældist hann 76 sentímetrar en við vorum bara með faðminn til að mæla og skutum á 77 eða 78 sentímetra.“

Veiðimaðurinn í fyrra skiptið og sá sem merkti var Steini „Rock“ eins og hann er kallaður, eða Þorsteinn Guðmundsson. Leigutakar við Húseyjarkvísl leggja mikinn metnað í að ganga vel um ána og lífríkið og hvergi hefur það sannast betur að veiða og sleppa fyrirkomulagið er að skila fiskum aftur inn í veiðina. Gott dæmi um það er sjóbirtingur sem veiddur var í Réttarhyl 17. september 2019. Mældist þá 63 sentímetrar og það var Steini sem veiddi hann. Þessi birtingur tók svo flugu hjá Sævari nú opnun, þann 2. apríl og mældist þá 70 sentímetrar. Merkið sem er í honum er IS105139.

Hér er annað dæmi. Steini (með styttra skegg) 17. september …
Hér er annað dæmi. Steini (með styttra skegg) 17. september 2019. 63 sentímetra sjóbirtingur merktur með slöngumerki. Ljósmynd/SÖH
2. apríl 2022. Sævar Örn með sama fisk. Tveimur og …
2. apríl 2022. Sævar Örn með sama fisk. Tveimur og hálfur ári síðar. Slöngumerkið staðfestir það. Mældur 70 sentímetrar. Ljósmynd/SÖH


Þegar kemur að þessum staðreyndum. Að fiskar eru að veiðast aftur merktir þá hlýtur það að teljast staðfesting á því að þessir fiskar sem veiddir eru og sleppt hvort sem er að vori eða hausti eiga ágætis möguleika á framhaldslífi og nýjum tækifærum til að gleðja veiðimenn. 

Veiðibókin í Húseyjarkvísl sýndi i gærkvöldi að búið er að landa 105 sjóbirtingum það sem af er veiðitíma. Það er flott veiði, ekki síst í ljósi þess að dagar hafa dottið út þar sem aðstæður hafa einfaldlega verið með þeim hætti að áin hefur verið óveiðanleg, sökum vatnavaxta eða veðurs.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira