Fínasta veiði hefur verið í Geiralandsá í apríl. Holl sem er þar að veiðum núna var komið með þrjátíu fiska eftir einn og hálfan dag. Þessir stóru er farnir að láta á sér kræla og í gær fékkst einn 92ja sentímetra birtingur og annar sem mældist 86 sentímetrar.
Það sem af er apríl eru komnir um 160 fiskar í bók. Þar af eru tíu fiskar sem mældust 80 sentímetrar eða lengri. Hefðbundnar flugur hafa verið að gefa mest af veiðinni, Black Ghost og púpur svo einhverjar séu nefndar.
Leyfð er veiði með spún í Geirlandsá og hafa bæði silfraður Toby og Lyppa gefið nokkuð magn af fiskum. Veitt er á fjórar stangir í vorveiði í Geirlandsá.
Hollið sem nú er við veiðar hefur þurft að glíma við töluvert rok en hækkandi hitastig hefur verið bónus. Helga Gísladóttir og veiðifélagi hennar, María Hrönn Magnúsdóttir eru við veiðar og hefur gengið ágætlega miðað við aðstæður. „Það er búið að vera stíft rok á okkur en við höfum verið að fá ágæta veiði. Það er töluvert mikið af fiski sem er sjötíu plús sentímetrar og svo fengum við tvo magnaða fiska í gær. Mest af þessu hefur veiðst í Ármótum,“ sagði Helga í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi.
Þær Helga og María eru glerharðar í vorveiðinni og voru í Leirá áður en þær keyrðu austur. Þar fraus í lykkjum og íslenskur vetur var allsráðandi. „Þetta er svo gaman,“ sagði Helga aðspurð hvort þetta væri ekki hálfgerð bilun.
Mikið er af fiski í Ármótum og drjúgur hluti veiðinnar er úr þeim mikla og gjöfula veiðistað. Geirlandsá hefur oft verið búin að gefa meiri veiði á þessum tíma aprílmánaðar en í vorveiðinni eru það veðuraðstæður sem skipta hvað mestu máli. Til dæmis voru 314 birtingar komnir í bók 17. apríl 2020. Þessar tölur eru fljótar að hækka þegar veiðimenn hitta á réttu skilyrðin.
Vorveiðin í Skaftafellssýslum hefur gengið ágætlega það sem af er apríl. Við sögðum frá sterkri opnun í Hörgsá, Eldvatnið er búið að gefa yfir hundrað birtinga og svipaða sögu er að segja af Tungulæk. Tungufljótið hefur einnig verið að gefa góða daga.
Vorveiði á þessum slóðum er stunduð út maí, en þá tekur við hlé þar til sjóbirtingur fer að ganga á nýjan leik í árnar á svæðinu. Hefst veiði þá aftur í ágúst.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Eystri-Rangá | Grzegorz Loszewski | 27. september 27.9. |
105 cm | Hvítá við Iðu | Katrín Tanja Davíðsdóttir | 24. september 24.9. |
101 cm | Víðidalsá | Jón Eðvald Halldórsson | 22. september 22.9. |
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Agnar Sigurjónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Hvítá við Iðu | Gunnar Pétursson | 20. september 20.9. |
101 cm | Víðidalsá | Nils Folmer Jorgensen | 17. september 17.9. |