Hrygningarstofninn sá stærsti á öldinni

Klassísk sumarsjón í Fossinum neðarlega í Elliðaánum. Með veiða og …
Klassísk sumarsjón í Fossinum neðarlega í Elliðaánum. Með veiða og sleppa fyrirkomulagi og stórri laxagöngu í fyrra varð til stærsti hrygningarstofn sem sést hefur á öldinni í Elliðaánum. Ernir Eyjólfsson

Mikil aukning varð á laxgengd í Elliðaárnar á síðasta ári, samanborið við göngur á árunum 2011 til 2020. Þessi aukning nam hvorki meira né minna en fjörutíu prósent og taldi samtals tæplega tvö þúsund laxa. Þetta kemur fram í rannsóknarniðurstöðum Laxafiska ehf sem annast rannsóknir á fiskgengd í árnar fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur. Laxfiskar ehf er fyrir Jóhannesar Sturlaugssonar og hafa rannsóknirnar nú staðið samfellt frá árinu 2011.

Veiða og sleppa fyrirkomulag sem tekið var upp sumarið 2020 gerir það að verkum að fleiri laxar eiga kost á að hrygna. Af þeim 1959 löxum sem gengu í Elliðaár veiddust 623 á stöng. Einungis sautján þeirra voru drepnir og stóðu því eftir 1942 laxar til að hrygna. Við þennan fjölda bætast svo snemmkynþroska hængseiði sem taka þátt í hrygnunni. 

Jóhannes getur þess í niðurstöðum sínum að hluti göngunnar var afturbata hoplax sem hrygnt hafði 2020 og einstaka fiskar jafnvel oftar. Býst hann við því að þessum reynslumiklu löxum eigi eftir að fjölga laxagöngum framtíðarinnar og vísar þar til veiða og sleppa. Auðvitað bendir Jóhannes á skilyrði í hafi vegi þar líka afar þungt hvernig bæði seiðum og niðurgöngulaxi reiði af. Um þessa stöðu segir Jóhannes svo í ágripi rannsóknarskýrslunnar.

Vegna breyttra veiðihátta („veiða og sleppa“) þá skilaði sú ganga stærri hrygningarstofni en sést hefur í vatnakerfi Elliðaánna alla þessa öld.

Vöktun á lífríki og fiskgengd í Elliðaárnar hefur staðið í rúma þrjá áratugi og safnast á þeim tíma mikilvæg gögn.

Oft mátti sjá mikið af laxi ofan Árbæjarstíflunnar í Elliðaánum. …
Oft mátti sjá mikið af laxi ofan Árbæjarstíflunnar í Elliðaánum. Þessi mynd var tekin sumarið 2017. Hrygningastofninn sem var að verki í haust og vetur hefur ekki verið stærri á þessari öld. Einar Falur Ingólfsson

Þegar horft er til komandi veiðisumars er rétt að geta þess að gönguseiði sem gengu út síðastliðið vor reyndust aðeins undir langtímameðaltali. Þá ber engu að síður að horfa til þess að hlutdeild niðurgöngulaxa sem jafna sig og ganga á nýjan leik er að aukast. Skilyrði sjávar síðastliðið sumar og vetur ákvarða svo endanlega hvernig þessari göngu hefur reitt af.

Samkvæmt vöktun Jóhannesar og félaga þá var helmingur allra laxa genginn í Elliðaárnar 12. júlí í fyrra. Níu dögum síðar, eða 21. júlí voru 75% göngunnar mætt í árnar. Sýnir þetta hversu kraftmikil gangan er dagana fyrir og eftir miðjan júlí.

Hér að neðan er að finna ágrip skýrslu Laxfiska í heild sinni, fyrir þá sem vilja fræðast meira um stöðuna og þar meðal rætt um göngu sjóbirtings í Elliðaárnar. Skýrsluna í heild sinni má nálgast á facebook síðu Laxafiska.

Ágrip skýrslunnar

„Árið 2021 gengu 1959 laxar í Elliðaárnar eða 40% fleiri laxar en skiluðu sér að jafnaði í Elliðaárnar árin 2011-2020. Vegna breyttra veiðihátta („veiða og sleppa“) þá skilaði sú ganga stærri hrygningarstofni en sést hefur í vatnakerfi Elliðaánna alla þessa öld. Úr hópi laxanna sem gekk í Elliðaárnar 2021 þá veiddust 623 laxar sem var sleppt að aflokinni viðureign stangveiðimanna við þá, að frátöldum 17 löxum (0,9% göngunnar) sem voru örmerktir eða særðir til ólífis. Um haustið 2021 stóð því eftir hrygningarstofn upp á 1942 laxa í vatnakerfi Elliðaánna, auk þeirra snemmkynþroska hængseiða sem taka þátt í hrygningunni. Hluti hrygningarlaxanna 2021 var runnin frá afturbata hoplaxi sem hrygnt hafði árinu áður og í fáeinum tilvikum enn oftar. Hlutdeild slíkra afturbata hoplaxa sem eiga tvær eða fleiri sjóferðir að baki verður að jafnaði meiri í árlegum hrygningarstofni lax Elliðaánna nú í kjölfar þess að laxveiðin þar var árið 2020 einskorðuð við fluguveiði og „veiða og sleppa“ veiðiháttinn. Stór hrygningarstofn laxins 2021 í vatnakerfi Elliðaánna eykur líkur þess að hrygningin hafi dreifst vel um vatnakerfið. Sá mikli fjöldi hrygningarlaxa skapar jafnframt forsendur fyrir góðri hlutdeild afturbata hoplaxa í hrygningargöngu laxins í Elliðaárnar 2022, en endanleg hlutdeild þeirra lífsreyndu laxa í göngunni mun markast af vetrarafföllum þeirra og því hversu hagfelld sjávarvistin verður þeim vorið og fyrri hluta sumars 2022. Endurheimtuhlutfall örmerktra smálaxa 2021 var 11,8%. Með vísun í 8,9% endurheimtur smálaxa úr hafi að jafnaði í Elliðaánum frá undangengnum 33 vöktunarárum og 9,5% meðalendurheimtna þeirra síðasta áratug, þá vitna endurheimturnar 2021 um að lífsskilyrði Elliðaárlaxa hafi verið góð í hafi yfir sjógönguna 2020-2021. Sumarið 2020 gengu ríflega 13 þúsund gönguseiði til sjávar úr vatnakerfi Elliðaánna, en þau seiði stóðu að baki smálaxagengdinni 2021. Góð laxgengd í Elliðaárnar 2021 var öðru fremur runnin frá hagfelldum aðstæðum yfir sjávargönguna 2020-2021 með hliðsjón af lífslíkum laxins, þar sem ætisframboð, afrán og sníkjudýrabyrði ráða til samans mestu um hvernig laxinum reiðir af. Laxgengdin 2021 grundvallaðist einnig á fjölda gönguseiðanna 2020, en þá var gönguseiðastofninn í Elliðaánum miðlungi stór með vísun í langtímameðaltal vöktunaráranna. Góð hlutdeild afturbata hoplaxa 2021 í göngu laxins í Elliðaárnar jók enn frekar við styrk göngunnar það ár – og líkt og næstliðin ár þá sýndi hlutfall stórlaxa í göngunni að laxar á því lífstigi létu ekki sitt eftir liggja í göngunni. Skráningar fiskteljara í Elliðaánum sýndi að 12. júlí hafði 50% laxagöngu ársins 2021 skilað sér og þann 21. júlí hafði 75% laxins sem gekk upp um teljarann 2021 skilað sér. Urriðar sem gengu upp um teljarann í Elliðaárdalnum sumarið 2021 voru 465 að tölu og að venju voru flestir þeirra sjóbirtingar. Árið 2021var annað árið þar sem fiskteljarinn var starfræktur fram eftir október með tilheyrandi tækifæri á að skrá heildarmynd af árlegri göngu urriða í Elliðaárnar að afloknum ætisgöngum þeirra sjóbirtinga í sjó. Skráningar fiskteljara sýndu að 26. ágúst hafði 50% urriðagöngunnar 2021 skilað sér í Elliðaárnar. Þann 9. september hafði 75% af urriðagöngu ársins skilað sér, en göngurnar urriðans teygðust fram yfir miðjan október. Meirihluti urriðanna voru smáir eða miðlungi stórir, en 127 stærri urriðar (50-93 cm að lengd) gengu upp um fiskteljarann í Elliðaárdalnum. Smæstu sjóbirtingarnir skiluðu sér að jafnaði síðastir úr sjó. Árlegu gildruveiðarnar á gönguseiðum á leið til sjávar sem stundaðar eru svo örmerkja megi laxaseiðin og rannsaka, skiluðu venju fremur lítilli veiði 2021. Tengslin á milli fjölda veiddra gönguseiða og stærðar gönguseiðastofns hvers árs eru á heildina litið fyrir hendi, en mikill áramunur getur þó verið á því hlutfalli sem veiðist og því ekki hægt að alhæfa neitt um stærð gönguseiðastofnsins 2021, en ætla má að hann hafi verið undir meðallagi. Niðurstaðan um stærð gönguseiðastofnsins liggur hins vegar fyrir að vanda ríflega ári eftir útgöngu gönguseiðanna þegar smálaxar úr þeim hópi hafa skilað sér til baka í Elliðaárnar. Úrtak gönguseiðanna sem náðist að veiða í seiðagildruna á leið þeirra til sjávar í maí 2021, taldi 940 seiði sem öll voru mæld og 908 þeirra voru örmerkt. Gönguseiðin voru að miklum meirihluta 2ja ára gömul, en 3ja ára gömul gönguseiði voru um fimmtungur hópsins. Mat með rafveiðum haustið 2021 á fjölda laxaseiða á flatareiningu (þéttleika laxaseiða) sýndi að seiðabúskapur í Elliðaánum var það ár heilt á litið í meðallagi með hliðsjón af langtímameðaltali þeirra vöktunarára sem eru til viðmiðunar í þeim efnum. Sumargömlu laxaseiðin (0+ ) voru um tvöfalt fleiri en í meðalári og fjöldi eins árs laxaseiða (1+ ) sem verða burðurinn í hópi gönguseiðanna 2022 voru rétt undir langtímameðaltali vöktunarinnar. Fjöldi tveggja ára laxaseiða (2+ ) var hinsvegar langt undir meðalástandi vöktunaráranna fyrir búsvæðin í Elliðaánum. Fjöldi laxaseiða á búsvæðunum ofan Elliðavatns, í Hólmsá og Suðurá haustið 2021 sýndi að þéttleiki þeirra þar var frekar lítill þegar litið er til meðaltala fyrir mismunandi aldurshópa seiðanna frá öllum árunum sem vöktunin hefur staðið. Rafveiðar haustið 2021 voru sem fyrr einnig nýttar til að skoða ástand urriðaseiða í vatnakerfi Elliðaánna, bæði í Elliðaánum og ánum ofan Elliðavatns.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert