„Enn er lífríkið að koma okkur á óvart“

Höskuldur B. Erlingsson með tíkinni Brekkubyggðar Línu Langsokki, eða Línu …
Höskuldur B. Erlingsson með tíkinni Brekkubyggðar Línu Langsokki, eða Línu eins og hún er kölluð. Talningar á rjúpu komu Höskuldi þægilega á óvart. Ljósmynd/HBE

Talningar á rjúpu fara nú fram víða um land. Höskuldur B. Erlingsson, útivistarmaður og rjúpnaskytta er einn þeir sem taka þátt í reglubundnum talningum á rjúpu. Hann og þeir sem töldu með honum í kringum Blönduós hafa ekki áður séð svo mikið af fugli á talningasvæðinu.

Aukningin er um 110 prósent milli ára. „Þetta kemur mjög skemmtilega á óvart. Ég er mikið í útivist og geng mikið og ég hef séð mun meira af rjúpu núna en í mörg ár. Ég heyri þetta líka víða að menn eru að tala um að það sé miklu meira af fugli en sést hefur í langan tíma. Þannig að við sem sjáum um að telja hér, vorum mjög spenntir að fara í talningarnar núna,“ sagði Höskuldur í samtali við Sporðaköst.

Hér má sjá niðurstöður talninga á svæði Höskuldar og félaga …
Hér má sjá niðurstöður talninga á svæði Höskuldar og félaga við Blönduós. Súlan fyrir 2022 er býsna vegleg miðað við fyrri ár. Ljósmynd/HBE

Hann og félagar hans hafa talið rjúpu á afmörkuðu svæði við Blönduós frá árinu 2003. Sú breyting varð á fyrir fimm árum að þeir færðu talningasvæðið. Þar sem þeir höfðu verið að telja var sett upp urðunarsvæði og færði rjúpan sig af því svæði eftir að hrafni og máfum fjölgaði þar verulega.

„Rjúpan færði sig yfir á mela nokkuð frá og það er svæðið sem við vorum að telja núna fimmta árið í röð. Ég labba þetta svæði mjög oft en ég átti ekki von á þessum tölum. Þetta er ótrúlega mikil uppsveifla og er yfir hundrað prósent aukning frá fyrri árum.“

Nú spyr leikmaður annan leikmann. Detta þér í hug skýringar á þessu?

„Ég verð nú að viðurkenna að ég hef enga haldbæra. Það sem manni kannski dettur helst í hug er að veðráttan hafi verið hagstæð fyrir rjúpuna í vetur. Þrátt fyrir að við höfum fengið nokkra daga með miklu hvassviðri og veðurviðvörunum þá held ég að heilt yfir hafi veðrið hentað henni ágætlega. Það voru skaflar lengi vel sem hún gat grafið sig í og falið sig og varist veðri. Ekki bara gamlir glerharðir skaflar sem hún gat ekki nýtt sér. Síðari hluti vetrar hefur svo aftur verið fremur mildur. Þetta er það sem mér dettur í hug sem möguleg skýring.“

Höskuldur er góður ljósmyndari og hefur oft átt myndir í …
Höskuldur er góður ljósmyndari og hefur oft átt myndir í Morgunblaðinu og á mbl.is. Þessa mynd tók hann í vor af rjúpnapari sem er að undirbúa stofnun fjölskyldu. Ljósmynd/Höskuldur B. Erlingsson

Höskuldur segist nú bara krossa fingur að það bresti ekki á með sumarhretum sem oft leika rjúpnastofninn og viðkvæma unga grátt. „Þá gætum við átt möguleika á að komast í góðan fugl í haust.“

Voru menn ekki orðnir svolítið svartsýnir með rjúpuna. Þetta hafa verið mögur ár?

„Jú. Ég er einn af þeim sem hef ekki verið neitt sérstaklega bjartsýnn. Mér leist ekki orðið á þetta ástand. En enn og aftur kemur rjúpan okkur á óvart. Ég er búinn að stunda rjúpnaveiðar í 37 og hefur séð þessar sveiflur áður, sérstaklega þegar stofninn var að sveiflast á lengri tíma, þessar tíu ára sveiflur. Heyrðu, nákvæmlega núna þegar ég er að tala við þig er ég að horfa á þrjá rjúpnakarra slást í skóginum neðan við N1 hér á Blönduósi. Þetta eru ægilegir loftfimleikar. En já. Enn og aftur er lífríkið að koma okkur á óvart og við höfum lítið til að byggja á. Náttúran fer sínu fram.“

Hér má sjá talningasvæðið sem þeir félagar töldu á um …
Hér má sjá talningasvæðið sem þeir félagar töldu á um helgina. Aukningin er um hundrað prósent milli ára. Ljósmynd/HBE

Höskuldur segist hafa gert slaka veiði síðastliðið haust og hafi það hreinlega verið með lakari árum sem hann man eftir. Sama segja margir aðrir veiðimenn sem Sporðaköst hafa rætt við. „Svo bara gerist þetta núna sem er alveg með ólíkindum,“ sagði kátur Höskuldur.

Við greindum frá því fyrir nokkrum dögum að Ólafur Karl Nielsen fuglafræðingur og sá núlifandi Íslendingur sem mest hefur rannsakað rjúpuna sagði á ráðstefnu SKOTVÍS að allt benti til þess að mikil uppsveifla væri hafin í rjúpnastofninum. Tölur úr talningum syðst á Melrakkasléttu og á stórum hluta Suðurlands sýna aukningu yfir hundrað prósent milli ára. Þessar tölur frá Blönduósi sýna svart á hvítu að þessi staða er að mælast víða á landinu. Tölur streyma nú inn til Náttúrufræðistofnunar og má búast við að heildarmyndin liggi fljótlega fyrir.

En þetta eru enn sem komið er fuglar í skógi en ekki í hendi. Eins og Höskuldur kom inn á skiptir máli að tíðarfar verði rjúpu hagfellt á meðan að ungi er enn viðkvæmur. Svo er risastórt spurningamerki að birtast út við sjóndeildarhringinn og það er hin skæða fuglaflensa sem staðfest er að hefur borist til landsins með farfuglum. Þau áhrif eiga eftir að koma í ljós.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira