Kjósin gerbreytt eftir mikinn snjóavetur

Hér sést greinilega ljósleit leirklöpp í botni í Laxá í …
Hér sést greinilega ljósleit leirklöpp í botni í Laxá í Kjós. Þessar klappir lentu undir möl í byrjun aldarinnar en eru nú að koma í ljós á nýjan leik, eftir miklar leysingar. Ljósmynd/HE

Laxá í Kjós hefur tekið miklum breytingum í þeim vorleysingum sem þegar hafa orðið. Fyrirsjáanlegt er að meiri leysingar eru framundan þegar hlýnar á ný. Nýliðinn vetur er sá snjóþyngsti með menn muna eftir á þessari öld, í Kjósinni. Þetta mikla snjómagn hefur leitt til þess að mikið leysingavatn hefur sópað möl af löngum köflum úr farvegi árinnar.

Haraldur Eiríksson leigutaki Laxár segir þetta afar spennandi og hann segist nú sjá ákveðna endurheimt á stórum svæðum árinnar þar sem hún er komin í fyrra horf.

„Þetta er drjúgur hluti Bugðu og svæðið frá Vindásgljúfrum og langt niður á svokallað frísvæði. Þetta er býsna langt svæði, eða allar Eyrarnar sem kenndar eru við Möðruvelli og Reynivelli,“ sagði Haraldur í samtali við Sporðaköst, aðspurður um hvernig Kjósin væri að koma undan vetri.

Haraldur Eiríksson með fallegan smálax úr Golfstraumi í Bugðu. Bugðan …
Haraldur Eiríksson með fallegan smálax úr Golfstraumi í Bugðu. Bugðan sem er hliðará Laxár hefur tekið miklu breytingum á löngum kafla. Ljósmynd/ES

Hvað hefur gerst þarna?

„Á árunum 1998 til 2000 var tekið gríðarlegt magn af möl úr ánni og á svæðinu í kringum hana vegna vegaframkvæmda við veginn upp Kjósarskarðið. Á þessum tíma voru vinnubrögð Vegagerðarinnar með öðrum hætti og tóku menn mikið af möl úr ánni. Vegabæturnar sem farið var í í fyrra voru aftur með öðrum hætti og þá var efnið tekið úr námum og það mulið. Það var ekki farið í ána. Það sem er svo að gerast núna er að áin er loks að hreinsa út það tjón sem varð á þessum árum. Núna tuttugu árum seinna. Klettaranar, líparítgrjót og móskellur sem fóru undir möl um aldamótin eru loksins að birtast aftur. Þetta er vegna þess að við fengum gríðarlega snjóþungan vetur. Sennilega sá snjóþyngsti í allt að aldarfjórðung að mati bænda í Kjósinni. Þetta mikla vatn sem kemur svo í framhaldinu gefur ánni bolmagn til að hreinsa burt þessa möl sem fór af stað á þessum árum. Fyrir vikið erum við að sjá skína í þann árbotn sem var í Kjósinni þegar ég var að byrja hér fyrir 25 árum síðan,“

Hversu spennandi er þetta veiðilega séð?

„Mjög spennandi finnst mér því að á löngum köflum hefur áin ekki borið sitt barr í langan tíma og þá sérstaklega þegar kemur að Möðruvallareyrunum sem voru bestu staðirnir miðsumars. Þetta voru frábærir ágúststaðir. Áin breytti um farveg á þessum árum og og hætti að renna um fornfræga staði eins og Litlu–kvörn, Bakkakvörn og Klapparkvarnir svo eitthvað sé nefnt. Hún færði sig yfir að Suðurbakkanum og gaf okkur ekki neitt í staðinn. Þarna hafði áin ekki fótfestu og mölin var á sífelldri hreyfingu. Við sáum í vatnavöxtum í fyrra sumar að hún breytti sér. Núna loksins er hún að klára að skola þessu tjóni í burtu, eftir allan þennan tíma,“ upplýsir Halli.

Hér undir hlíðinni var reiðvegur, en áin hefur skolað honum …
Hér undir hlíðinni var reiðvegur, en áin hefur skolað honum á haf út. Víða þarf að fara í endurbætur á slóðum sem hafa hreinlega horfið eða skolast úr. Ljósmynd/HE

Í vatnavöxtum sem þegar hafa orðið má sjá nýja veiðistaði að mati Halla. Sérstaklega er hann þar að vísa til Möðruvallareyranna og þó að áin hafi ekki aftur fært sig í gamla farveginn þá er sá nýi orðinn eins og sá gamli var. "Þessar hvítu móhellur voru svo einkennandi fyrir svæðið og henta laxinum vel. Ég man það á sínum tíma að laxamagnið gat verið svo mikið að maður sá ekki i hvítu skellurnar vegna þess hve mikið af fiski var á staðnum. Þetta er sambærilegt við Skarðsstrengi í Stóru–Laxá, Landaklöpp og Sakkarhólma í Soginu og eitthvað sé nefnt. Svona ljósleitar skellur sáust í botninum á Stokkhylsbrotinu í Norðurá, en er nú undir möl. Maður sér þetta í Hvararhyl í Norðurá, Lambastreng í Þverá og víðar og víðar. Þetta er botn sem laxinn kýs og hentar honum vel. Ég er mjög spenntur að sjá hvað gerist á þessum svæðum hjá okkur í Kjósinni í sumar.“

Þó svo að við séum að nálgast miðjan maí er enn mikill snjór á vatnasviði Kjósarinnar. „Ég á enn gríðarmikla snjóbráð eftir. Ég á von á miklum vatnavöxtum næstu vikurnar þegar fer að hlýna. Nú er kalt og þá gerist lítið en þegar við fáum daga sem eru fjórtán gráður plús þá fer allt á flot. Ég er ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir magninu af snjó sem er enn í Esjunni að norðanverðu. Við mældum snjóþykktina á því svæði 12. febrúar með snjóflóðaleitarstöngum og hún var allt að fjórir metrar.“

Það verður áhugavert að sjá hvort laxinn kunni að meta það hreinsunarstarf sem móðir náttúra hefur lokið við í Kjósinni og Bugðu. Veiðisumarið mun skera úr um það. Nú styttist í að laxveiðitímabilið hefjist og oftar en ekki hafa fyrstu laxarnir sést í Kjósinni. Halli telur að það séu einhverjir góðir tíu dagar í að fyrstu sporðarnir sjáist.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.
100 cm Miðfjarðará Róbert G. Grímsson 24. september 24.9.
104 cm Stóra Laxá Rúnar Gauti Guðjónsson 23. september 23.9.
102 cm Víðidalsá/Fitjá Nils Folmer Jörgensen 19. september 19.9.
100 cm Eystri-Rangá Hannes Gústafsson 14. september 14.9.

Skoða meira