Horfði upp á seli éta tugi laxa

Þetta hefur verið upp og ofan í Skotlandi. Dee sú …
Þetta hefur verið upp og ofan í Skotlandi. Dee sú gamla drottning er enn að jafna sig eftir hamfarirnar sem urðu 2015. Hér er búið að landa fallegum laxi í Spey. Ljósmynd/ÁB

Árni Baldursson hefur eytt vikum í laxveiði í Skotlandi það sem af er vori. Veiðin hefur lengst af verið afar dræm. Hann segir í samtali við Sporðaköst að menn séu víða uggandi og þá helst þeir sem reiða sig á þjónustu og afkomu af ánni Dee sem löngum hefur ein besta laxveiðiá Skotlands.

„Dee hefur löngum verið drottningin í Skotlandi þegar kemur að laxveiði. Svo eru það Spey, Tweed og Tay og þessar fjórar hafa þótt vera aðalárnar. Hins vegar er Dee enn að glíma við hrikaleg eftirköst af storminum Frank sem olli gríðarlegri eyðileggingu,“ segir Árni. Hann vill meina að hún hafi ekki borið sitt barr eftir þetta mikla óveður.

Víst eru menn að tala um að Dee hafi hreinlega orðið önnur eftir þessi ótrúlegu flóð. En það er þó að finna jákvæðar fréttir. „Allur árfarvegurinn fór af stað í þessum miklu hamförum og margar kynslóðir af laxi fór forgörðum. Hreinlega skoluðust á haf út. Þeir eru búnir að vera að þjást vegna þessa frá árinu 2016. Núna er maður að vonast til að hún fari að rétta úr kútnum. Áin núna er full af seiðum. En það er nánast enginn vorlax í henni í ár. Ég er að vonast til þess að það verði sterkur smálax í henni í sumar, í júní og júlí, og þá gæti komið meira af vorlaxi á næsta ári.“

Þó að lítið sé af fiski er mikilvægt að hafa …
Þó að lítið sé af fiski er mikilvægt að hafa nóg af stöngum. Hér er vel í lagt. Ljósmynd/ÁB

Árni segir að eftir svona gríðarlegar hamfarir taki það vistkerfið allt að áratug til að koma til baka, en hann er að vona að sá tími sé nú að renna upp.

„Það er reyndar fleira sem amar að. Það eru þúsundir sela sem halda til í ósnum. Þeir liggja í laxatorfunum og éta þær miskunnarlaust. Ósinn er nú nánast í höfninni við Aberdeen og fólk verður bara vitni að þessu. Einn félagi minn fylgdist með ósnum í klukkutíma þegar var komið flóð og hann sá seli éta einhverja tugi laxa. Og þetta var bara það sem sást í yfirborðinu. Honum taldist til að selurinn hefði étið 45 laxa þennan klukkutíma sem hann fylgdist með. Það má ekkert gera því selurinn er friðaður.“

Árni segir að náttúruverndarsamtök í Bretlandi séu svo kröftug að það megi ekki hreyfa við þessum vargi. Hann segir sel leita sífellt hærra í ána. Þeir hverfa yfir hásumarið en mæta aftur á haustin og ráðast þá á hrygningarfiskinn.

„Bretinn er að vakna upp við það að einni dýrategund sé gefið leyfi til að útrýma annarri og þetta er skrítið því að í öðrum hlutum vistkerfisins er verið að reyna að tryggja jafnvægi, til dæmis þegar kemur að rádýrum og rauðhjörtum í skógunum í Skotlandi. Því er öllu haldið í jafnvægi, en laxinn virðist ekki sitja við sama borð. Það er hins vegar allt að verða vitlaust yfir þessu og það hlýtur eitthvað að gerast í þessu fljótlega.“

Írland í mars. Blackwater gaf Árna og félögum 34 laxa …
Írland í mars. Blackwater gaf Árna og félögum 34 laxa og er það besta vika þar í tuttugu ár. Ljósmynd/ÁB

En hvernig hefur þetta vor verið hjá þér í Skotlandi?

„Ég fór eina viku í Dee í mars. Ég fékk ekki fisk alla vikuna og sá ekki neitt. Svona er þetta búið að vera í neðri hlutanum og mið ánni. Það veiðist kannski ekki lax í mánuð á sumum svæðunum.

Næst fór ég til Írlands, í ána Blackwater á Careswill-svæðinu sem er eitt það besta. Þar áttum við frábæra viku og fengum 34 laxa. Ótrúlega fallegir silfraðir vorlaxar. Þetta var besta vikan þarna í tvo áratugi, þannig að þetta er ekki allt slæmt. Svolítið upp og niður.

Næst var það Spey á Arndilly-svæðið með nokkrum Íslendingum. Þar vorum við líka heppnir og áin skilaði okkur fjórtán löxum og er það besta vikan það sem af er þar. Svo var það niðursveifla. Ég fór aftur í Dee og var þar í eina og hálfa viku en það var alveg steindautt.“

Það þarf að hvíla sig á milli og ná slökun. …
Það þarf að hvíla sig á milli og ná slökun. Þetta geta verið langir dagar. Ljósmynd/ÁB

Um helgina heldur Árni enn á ný í víking til Skotlands. Að þessu sinni er það Spey í viku og einhverjir laxar hafa veiðst á svæðinu þangað sem hann er að fara, þannig að hann segist spenntur fyrir því en svo liggur leiðin í Tay og þar ætlar hann að veiða í viku. Eftir stutt stopp á Íslandi taka svo við þrjár vikur í Gaula í Noregi. „Þannig að það er mikil veiði fram undan hjá gamla,“ hlær Árni og stynur svo léttilega. „Úff, úff.“

En hvernig líst Árna á laxveiðisumarið sem er handan við hornið á Íslandi?

„Ég held að þetta verði bara svona meðalgott. Ekkert metsumar en hef á tilfinningunni að þetta verði nokkru betra en í fyrra. Við erum búin að vera í niðursveiflu í nokkur ár og það hefur nú alltaf verið þannig að svo koma betri ár eftir það. Ég held að það sé komið að þessari langþráðu uppsveiflu,“ sagði þessi ötuli veiðimaður og án efa sá sem veiðir flesta daga á ári af íslenskum veiðimönnum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Laxá í Dölum Stefán Sigurðsson 24. júní 24.6.
102 cm Laxá í Aðaldal Dagur Ólafsson 24. júní 24.6.
104 cm Þverá Snorri Arnar Viðarsson 15. júní 15.6.
105 cm Laxá í Leirársveit Pétur Óðinsson 13. júní 13.6.
Veiðiárið 2021:
100 cm Fossá Guðbjörn Gunnarsson 1. október 1.10.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Laxá í Dölum Sigurður Smárason 25. september 25.9.

Skoða meira