Flottar bleikjur og magnaðir urriðar

Atli með urriða úr Elliðaánum. Þessi tók klassískan Black Ghost …
Atli með urriða úr Elliðaánum. Þessi tók klassískan Black Ghost á flotlínu. Ljósmynd/Bergmann

Mótorhjólatöffarinn og veiðinördinn Atli Bergmann er búinn að takast á við bæði bleikju og urriða þetta sumarið. Hann gerði flotta veiði í vorveiðinni í Elliðaánum og svo var það Brúará fyrir skemmstu sem gaf honum og Karli Eiríkssyni nokkrar fallegar bleikjur.

Atli segist oft hafa verið iðnari við kolann en viðurkennir um leið að margt spennandi er framundan í veiðinni og það sem meira er hann er nokkuð viss um gott laxveiðisumar.

„Ég byrjaði í Elliðaánum og finnst það virkilega gaman að kasta fyrir urriðann. Oftast er nú mest af honum í Höfuðhyl en það eru víða ágætir veiðistaðir nokkru neðar. Ég náði mér í þrjá flotta urriða en missti tvo. Fyrsti fiskurinn mældist 50 sentímetrar og hann fékk líf. Það er bara alltaf þannig með fyrsta fisk sumarsins.“

Skemmtilegast finnst honum að veiða urriðann andstreymis og með púpum. „Höfuðhylurinn er einmitt sá staður sem geymir oft þessa drjóla sem maður er að leita að. En það getur alveg verið erfitt að fá þá til að taka. Ég var búinn að reyna ýmsar púpur, bæði stærðir og gerðir. En það sem virkaði á endanum var klassískur óþyngdur Black Ghost og sömuleiðis svartur Nobbler,“ hlær Atli og verður án efa hugsað til allra púpnanna sem hann lét svífa áður en þessar klassísku urriðaflugur gerðu gæfumuninn.

Svartur Nobbler plataði þennan. Hann mældist 67 sentímetrar og var …
Svartur Nobbler plataði þennan. Hann mældist 67 sentímetrar og var sleppt aftur í Höfuðhyl. Ljósmynd/Bergmann

„Þetta var á flotlínu og það er orðin sérviska hjá mér að ég veiði bara á flotlínu. Það er alveg sama hvar það er. Meira að segja í Veiðivötnum er ég bara með flotlínuna. Ég veiði svo mikið og er eingöngu að gera þetta ánægjunnar vegna og þá er flotlínan svo skemmtileg. Ég veit að ég myndi stundum veiða meira ef ég væri að sökkva þessu en það er ekki eins gaman. Það gerist kannski við einhverjar sérstakar aðstæður að ég lengi tauminn og set undir þyngri flugu en alltaf bara flotlína. Mér hefur tekist að ná góðu valdi á því að kasta löngum taumi þannig að hann leggist ágætlega. Ég er oft með taum sem er jafnvel tvær stangalengdir en þá verður hann að vera kónískur, hvort sem maður kónar hann sjálfur niður eða er með taum sem er framleiddur þannig.“

Fyrir þá sem ekki vita þá er kónískur taumur þannig að hann mjókkar fram. Er þykkastur efst og mjókkar fram. Að kóna sjálfur þýðir að þá er kannski fyrsti hluti taumsins til dæmis átta pund og síðari hluti hans fjögur pund. Með þessu eru betri líkur á að framlengja kastið þannig að taumurinn leggist mýkra fyrir fiskinn.

Hvernig var þessi urriði í Elliðaánum haldinn?

„Heyrðu, það er gaman að segja frá því að ég hirti einn af þessum stóru og gerði að honum um kvöldið. Sá lengsti mældist 67 sentímetrar og það var svona gamall höfðingi. Hausstór og frekar rýr á skrokkinn þannig að hann fékk að synda. Sá sem ég gerði að var alveg sæmilega haldinn. En hann var nýbúinn að éta laxaseiði sem var nýbúið að smolta sig.“

Atli birti mynd af þessu á facebook og töluverð umræða spratt um það hvað urriðar ætu mikið af laxaseiðum og sitt sýndist hverjum. En hvað telur Atli?

„Ég held að þetta sé bara í jafnvægi. Þetta er í fyrsta skipti sem finn laxaseiði í urriða og ég er búinn að hirða þá nokkra í gegnum árin. Ég hef séð smásíli í þeim sem ég hef flokkað sem hornsíli en eitthvað af því gæti hafa verið önnur seiði. Mest er fluga og lirfur sem ég hef fundið í þeim. En sjálfsagt éta þeir laxaseiði eins og annað ef þeir geta. En ég held að þeir séu ekki stórtækir.“

Karl Eiríksson með alvöru kusu úr Brúará. Þessari var sleppt …
Karl Eiríksson með alvöru kusu úr Brúará. Þessari var sleppt en hún mældist 60 sentímetrar. Ljósmynd/Bergmann

Fyrsti bleikjutúrinn var í vikunni hjá Atla og fór hann með öðrum veiðinörd, Karli Eiríkssyni í Brúará á svæði Hagaós. Það fara ekki margir í förin hans Kalla þegar kemur silungsveiði eða Brúará.

„Kalli bauð mér að koma. Veðrið var svona lala og við klæddum okkar eftir því. Það var nokkur vindur og gekk á með skúrum og bleikjan ekkert mjög tökuglöð en með mann eins Kalla við stjórnvölinn þá gengur alltaf vel. Við lönduðum sex. Þrjár bleikjur og þrír fallegir urriðar. Við vorum þarna bara fyrir hádegi og vorum mjög sáttir. Kalli náði einni mjög stórri bleikju. Það var hrygna og hann sleppti henni. Hann sagði frekar hirða þessar minni sem hentuðu vel á pönnu, en ekki margar í einu.“

En hvað var bleikjan að taka þegar hún var ekki mjög tökuglöð.

„Þetta voru bara pínu litlar svartar og brúnar púpur. Svona Pheasant Tail útgáfur. Við vorum svo með lítinn Krók sem dropper og hún var að koma í hvoru tveggja. Við veiðum þetta mjög tæknilega andstreymis. Brúaráin er köld og það þarf að leggja þetta rétt fyrir bleikjuna. Þetta getur verið ofurlítið vandasamt og þolinmæðisverk.“

Atli leggur áherslu á það að hann er ekki eitthvert göfugmenni þegar kemur að veiði. Hann er ekki veiða og sleppa útgáfan af veiðimanni. „Ég veiði mér til matar en ekki meira en það,“ glottir Atli.

Við getum ekki sleppt Atla án þess spyrja um hans tilfinningu fyrir laxveiðisumrinu. 

Hann hlær. „Ég held ég segi þetta á hverju ári. Ég held það verði uppsveifla. Við fengum alvöru vetur og ár lagði og það held ég að sé gott fyrir þetta kerfi. Ég sá í fyrravor að sandsílið var komið fyrir sunnan og loðnugengd var meiri. Ég held að þessar ytri aðstæður séu betri en oft áður, síðustu ár.“

Ég ætla að vera með þér í þessu Atli. Við fáum uppsveiflu í sumar. 

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira