„Ánægður ef við nálgumst meðalveiðina“

Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur telur jákvæð teikn á lofti og …
Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur telur jákvæð teikn á lofti og hann segist verða ánægður ef laxveiðin í sumar nálgast meðalveiði á Vesturlandi. Ljósmynd/SME

„Ég yrði ánægður ef við nálguðumst meðalveiðina á Vesturlandi sem er um fimmtán þúsund laxar. Við höfum undanfarin þrjú ár verið nokkuð langt frá henni og höfum verið að fá þetta í kringum tíu þúsund laxa,“ sagði Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur í samtali við Sporðaköst þegar hann var spurður um horfur fyrir laxveiðitímabilið sem hefst um mánaðamótin. Svæði Sigurðar, ef má orða það sem svo, er Vestur- og Suðurland og miðast svörin við þá landshluta.

„Við erum búin að upplifa góðæri sem hófst skömmu eftir aldamótin. Það var frábær veiði nánast alls staðar. Svo gerist eitthvað 2012 og í raun og veru erum við enn í því vonda tímabili sem hófst þá. Það hafa komið örfá ár, 2013 og 2015 þar sem hlutirnir voru í lagi. Þetta er frekar djúp lægð og orðin nokkuð langvinn.

Ingvar Svendsen með fyrsta laxinn úr Norðurá í fyrra. Norðurá …
Ingvar Svendsen með fyrsta laxinn úr Norðurá í fyrra. Norðurá er fyrsta áin á Vesturlandi sem opnar. Ljósmynd/Nuno

Þegar við skoðum þau gögn sem við ráðum yfir, sem eru seiðatalningar, hreistursýni, hitastigsmælingar og annað þá sér maður að þessi lægð á sér rætur í sjávarumhverfinu. Það er mitt mat allavega að stærstum hluta. Slæmu árin, 2012, 2014, 2016 og svo undanfarin þrjú ár þá hefur vöxturinn í sjó á fiskinum verið mjög lélegur. Á hörmungarárunum 2012 og 2014 var vöxturinn sérstaklega slakur og í mínum huga þá er það slæmt sjávarumhverfi sem togar þennan áratug niður.“

Hvaða þætti í sjónum ertu að vísa í?

„Það er bæði hitastig og selta. Hlýr, selturíkur sjór er ávísun á góð laxaár. Við höfum verið að skoða hitafarið í efstu lögum í sjónum fyrir sunnan og vestan okkur út frá mælingum NOAA, sem er bandaríska veðurstofan. Við höfum leikið okkur að því að plotta þetta á móti smálaxaveiðinni og höfum miðað við meðalhitann í júlí. Þá eru seiðin komin út á fæðuslóðina. Það er mikil samsvörun á milli þessara hitatalna og þess hversu mikið veiðist af smálaxi árið á eftir. Þetta skýrir allt að fjörutíu til fimmtíu prósent af laxveiðinni. Seltan skiptir líka máli og hún hefur verið að breytast. Það hefur verið lágseltuflekkur sunnan og vestan við landið þennan tíma. Upp úr 2010 lækkaði bæði sjávarhitinn og sérstaklega seltumagnið. Seltan er hins vegar á uppleið aftur og það er góðs viti. Það þarf að fylgjast grannt með þessu áfram.“

Frá Kristnapolli í Laxá í Dölum. Dalirnir er sú á …
Frá Kristnapolli í Laxá í Dölum. Dalirnir er sú á Vestanlands sem hefur skorið sig úr síðustu ár. hreggnasi.is

Sigurður segir aðra betri en sig að meta hverjar ástæðurnar kunni vera fyrir því að seltan féll á sínum tíma og þessu viðvarandi ástandi.

„Auðvitað er það svo líka ástandið í ánum, seiðaástandið og framleiðslan. Það er ekki í mínum huga meginástæðan. Í flestum tilvikum hafa árgangarnir verið í lagi en auðvitað var 2014 mjög lélegur árgangur. Síðan komu fínir árgangar og þeir sem eru að skila sér í sumar eru góðir og yfir meðallagi. Svo lentum við líka í áfalli 2019 vegna þurrkanna sem þá voru. Gönguseiðin sem fóru út það ár voru étin upp að stórum hluta held ég. 2020 fengum við fínan smálax. Hann var stór og fallegur en það kom bara lítið af honum. Við áttum þá von á góðu ári vegna hagstæðs sjávarhita sumarið áður en það varð nú aldeilis ekki. Það sem gerðist líka í þurrkunum 2019 var að yngri seiðaárgangar sködduðust og þar urðu afföll. Auðvitað eru þessir púlsar að skýra hluta en ég tel að stóru áhrifin séu í sjónum.“

En ef við horfum þá til veiðinnar í sumar í þessum landshlutum?

„Þetta gæti orðið eitthvað upp á við í sumar og kannski nálgast meðalveiði. Seiðaárgangarnir eiga að vera í þokkalegu standi, þeir sem fóru út í fyrra. Ég yrði mjög ánægður ef við myndum eitthvað nálgast meðalveiðina á Vesturlandi, sem var eins ég sagði um fimmtán þúsund laxar.“

Sigurjón Gunnlaugsson með fallegan smálax úr Langá snemmsumars í fyrra.
Sigurjón Gunnlaugsson með fallegan smálax úr Langá snemmsumars í fyrra. Ljósmynd/JH

Sjávarhiti í júlí í fyrra á líklegum beitarsvæðum laxa frá Suður- og Vesturlandi var með betra móti og bendir það einnig til þess að von sé á bata. Eins og Sigurður sagði þá var meðalhitinn í fyrra farinn að nálgast það sem gæti verið ávísun á meðalveiði. „Jafnan sem maður býr til úr þessum upplýsingum sýnir að þetta ætti að geta farið aðeins upp á við hjá okkur miðað við hitastig sjávar í fyrra. Einnig voru þeir árgangar sem gengu til sjávar í fyrra nokkuð öflugir samkvæmt vöktunarmælingum á seiðaframleiðslunni þannig að við sjáum alveg jákvæð teikn.“

Sigurður Már telur að veiðihlutfallið hafi líka lækkað með aukinni fluguveiði og sleppingum veiðimanna. Hann segir vel hægt að sjá þetta þar sem eru teljarar og hann bendir á dæmi. Í Langa er teljari við Sveðjufoss og þar var komið á fluguveiði árið 2015. Áður en hún byrjaði var veiðihlutfallið allt fimmtíu prósent. Nú er þetta sama hlutfall komið niður í tuttugu prósent. Þannig að eftir að flugan var eingöngu leyfð þá veiðist fimmti hver lax, en áður var það annar hver.

„Þannig að ég held að við eigum ekki bara að horfa á veiðitölurnar. Sennilega er jafnvel meira af laxi en veiðin bendir til en nýtingin er öðruvísi heldur en þegar menn voru með aðrar áherslur í veiðinýtingu.“

Hann segir að hrygningarstofnarnir sé iðulega í góðu standi á Vesturlandi og nefnir að lítið hafi verið um rauðar viðvaranir.

Sigurður er eðlilega varkár í sínu stöðumati og segir að fiskifræðinga þyrsti stöðugt í meiri upplýsingar til að meta áhrif og afföll seiða í ánum yfir vetrartímann. Eins og alltaf er fjármagn af skornum skammti og menn verða að velja verkefnin af kostgæfni.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert