Hollenski ferðamaðurinn Brian Bul var á skemmtigöngu meðfram Sæbrautinni í gær, þegar hann tóki eftir sel með spriklandi lax í kjaftinum, ekki langt frá landi. Hann tók þessar myndir sem fylgja fréttinni og veitti mbl góðfúslega leyfi til að birta þær.
Laxveiðin hefst formlega á morgun og ríkir ávallt mikil spenna að segja frá fyrstu löxunum sem veiðast og hvar sá silfraði er mættur. Það hefur algerlega farið fram hjá selnum að reglur mannanna um laxveiði eru býsna afmarkaðar. Líklegt er að þessi lax hafi verið á heimleið í Elliðaárnar en þar hefst veiði ekki fyrr en 20. júní.
Brjánn Ingason var að skokka við Sæbrautina í gærmorgun og kom að þar sem selurinn var að gæða sér á laxinum. Brjánn, sem er vanur veiðimaður, var ekki í nokkrum vafa. „Jú, ég gat ekki betur séð en að þetta væri lax. Ég sá að þarna var ferðamaður uppi á steingarðinum og ég fór að skoða hvað hann væri að mynda og þá sá ég hvers kyns var. Mér þótti þetta alveg stórmerkilegt. Fiskurinn var enn spriklandi þegar ég kom að og mér sýndist þetta vera svona átta punda fiskur. Hann hefur að öllum líkindum verið á leið upp í Elliðaárnar,“ sagði Brjánn í samtali við Sporðaköst.
Hann segir að þetta hafi verið milli níu og hálf tíu í gærmorgun. „Ég hef oft verið með seli í kringum mig þegar ég er að veiða, eins og í ósnum í Vatnsdalsá en ég hef aldrei séð þá þar með lax í kjaftinum. Þannig að mér finnst þetta alveg stórmerkilegt. Það var næstum því eins og selurinn væri að monta sig af því hvað hann væri góður að veiða. Og er ekki nokkuð ljóst að þetta er fyrsti lax sumarsins,“ hlær Brjánn.
Laxinn er víða á ferðinni núna og í gærkvöldi voru spenntir leiðsögumenn í Norðurá að horfa á nýrenninga mæta á Brotið fyrir neðan Laxfoss. Þar sáu þeir fjóra laxa og fór ánægjukliður um mannskapinn sem þegar einn þeirra lyfti sér tignarlega upp úr vatninu, svona eins og til að heilsa þeim.
Fjórir laxar sáust um helgina í Laxá í Leirársveit og tók Haukur Geir Garðarsson leigutaki fram, í samtali við Sporðaköst, að einn hefði verið sérstaklega stór. Laxar hafa sést í Leirvogsá og á nokkrum stöðum í Laxá í Kjós. Allt er þetta hefðbundið fyrir utan laxinn sem selurinn við Sæbraut veiddi.
Á morgun hefst laxveiði í Þjórsá, Urriðafossi. Áin er vatnsmikil og lituð. Enn hefur ekki sést fiskur þar sökum skilyrða, en hann er mættur og verður það væntanlega staðfest á morgun.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Richard Jewell | 9. ágúst 9.8. |