Opnunarhollið í urriðanum í Mývatnssveit var þrír og hálfur dagur. Hófst á sunnudagsmorgun og lauk á hádegi í gær. Við höfum flutt fréttir af mikilli veiði sem hollið lenti í. Meiri veiði en þessi félagsskapur hefur áður fengið og hefur þetta holl opnað svæðið í rúman áratug.
„Þetta var eitthvað rétt sunnan við fimm hundruð fiska. Við höfum aldrei lent í svona magnaðri veiði þarna í opnun og bara yfir höfuð ekki,“ sagði Árni Friðleifsson í samtali við Sporðaköst eftir að túrnum var lokið. „Þetta lék svo allt við okkur. Fiskurinn var í flottum holdum og því sprækur eftir því. Veðrið var þannig að allir urðu sætir og sólbrúnir og veiðin maður. Bara geggjuð.“
Hann sagði að þeir félagar hefðu tekið eftir því að lífríkið var nánast á sterum. Allir angar þess á fullu að nýta birtuna til hins ýtrasta á þessu stutta sumri á norðurslóðum. Árni nefndi sem dæmi að hann sá önd með stálpaða unga og minnist þess ekki að hafa séð það áður í maí. Aðrir sáu gæsir með unga og bar mönnum saman um að vorið væri allt að tíu dögum fyrr á ferðinni en menn ættu að venjast.
„Við Jóhann félagi minn vorum með eitthvað í kringum fimmtíu fiska. Við höfum á þessum tíma áður oft verið að fá milli tuttugu og þrjátíu. Það voru öll svæði að gefa veiði. Misjafnt milli vakta en við forum alltaf í veiði,“ sagði Árni.
Eftirtektarvert er hversu silungurinn hefur farið vel af stað víða. Þannig hefur Elliðavatn og Vífilsstaðavatn verið að gefa ágæta veiði frá því að vatnið opnaði og hefur bleikjuveiðin í Elliðavatni verið betri en oft áður. Fyrsti laxveiðidagurinn í gær í Urriðafossi stóð algerlega undir væntingum og skilaði sautján löxum á land. Engin á í Evrópu sem Sporðaköst hafa heyrt af státar af slíku laxamagni á fyrsta degi. Hvort sem er í Skotlandi, Írlandi eða í Skandinavíu. Laxinn er farinn að sjást víða og almennt virðist hann vera aðeins fyrr á ferðinni og vonandi veit það á gott.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |