Fengu tvo laxa á ósasvæði Vatnsdalsár

Annar tveggja laxa sem veiddust á silungasvæðinu í Vatnsdalsá í …
Annar tveggja laxa sem veiddust á silungasvæðinu í Vatnsdalsá í fyrradag. Auðunn Árni Þrastarson veiddi þennan. Laxinn var ekki nema þrjú pund en feitur og vel haldinn. Ljósmynd/ÞÁ

Holl sem var að veiðum um mánaðamótin á silungasvæði Vatnsdalsár landaði tveimur löxum og sáu mun fleiri. Annar laxinn var um sjö pund og var það maríulax. Sá síðari var aðeins þrjú pund og vekur sú stærð upp ýmsar spurningar. Þröstur Árnason var einn þeirra sem var að veiða í hollinu. 

Guðný Eggertsdóttir með maríulaxinn sinn. Veiddur 1. júní við Hjaltabakkahólma.
Guðný Eggertsdóttir með maríulaxinn sinn. Veiddur 1. júní við Hjaltabakkahólma. Ljósmynd/ÞÁ

„Þetta voru flottir fiskar og spikfeitir og vel haldnir. Ég ætti að vita það ég flakaði þá báða,“ sagði Þröstur í samtali við Sporðaköst. Hann sagði þetta mjög skemmtilegar fréttir en það hefði líka borið skugga á því ótrúlega mikið væri af flundru á svæðinu. „Ég er búinn að veiða silungasvæðið síðan 1999 og ég tók sérstaklega eftir því þegar við keyrðum niður Þingeyrarsandinn að það var mikið af fljótandi dauðri flundru. Hún verður oft innlyksa þegar fellur út og drepst. Ég var að sjá þarna bara mjög stórar flundrur og ég hef líka verið að fá þær í net uppi í Hnausatjörn þannig að hún er komin um allt,“ upplýsti Þröstur. 

Hann var mjög kátur með laxinn og sagði að stærri laxinn hefði tekið Toby. „Já við sáum fleiri og þeir eltu en við lönduðum bara þessum tveimur. Þetta gæti líka verið fiskur sem er að fara upp í Laxá á Ásum. Við fengum þessa fiska við Hjaltabakkahólmann og það er bara spurning hvoru megin hann gengur þar upp, í hvora ána hann er að fara. En þessir voru Vatnsdalsármegin. Ég kíkti líka undir brúna yfir Vatnsdalsána en sá ekki fisk þar.“

Svanur Árnason með stærðarinnar flundru sem hann veiddi á silungasvæðinu.
Svanur Árnason með stærðarinnar flundru sem hann veiddi á silungasvæðinu. Ljósmynd/ÞÁ

Silungsveiðin var þokkaleg sagði Þröstur en sjóbirtingurinn var ekki eins stór og hollið var að veiða í fyrra. „Við lentum í ævintýralegu moki í fyrra og stærstu voru upp fjórtán pund og mikið af sex til sjö punda. Það hreinlega vall út úr honum loðnan í fyrra en í ár voru þeir minni og færri. Í raun klikkuðu bæði flóðin sem ég var í ósnum. En þegar upp var staðið þá vorum við með einhverja hundrað birtinga og urriða en fengum bara eina bleikju.“

Björn K. Rúnarsson leigutaki Vatnsdalsár segist oft hafa heyrt sögur af því að lax hafi sést á ósasvæðinu um þetta leiti. Hann man þó ekki eftir að menn hafi veitt lax þar svona snemma. Hann sagðist í samtali við Sporðaköst vonast eftir því að þetta væri jákvæður fyrirboði um skemmtilegt sumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Víðidalsá Stefán Elí Stefánsson 4. september 4.9.
101 cm Laxá í Dölum Hafþór Jónsson 27. ágúst 27.8.
102 cm Haukadalsá Ármann Andri Einarsson 23. ágúst 23.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Birgir Ellert Birgisson 12. ágúst 12.8.
103 cm Miðsvæði Laxá í Aðaldal Máni Freyr Helgason 11. ágúst 11.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Agnar Jón Ágústsson 10. ágúst 10.8.
101 cm Laxá í Aðaldal Richard Jewell 9. ágúst 9.8.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert