Veiða og sleppa hefur virkað í Vatnsdal

Þessi hængur tók einkræku númer tíu í Vaðhvammi í Vatnsdalsá. …
Þessi hængur tók einkræku númer tíu í Vaðhvammi í Vatnsdalsá. Ingólfur Davíð Sigurðsson með einn af stærstu sonum Vatnsdalsár sumarið 2020. Ljósmynd/IS

Eitt algengasta deiluefni í veiðiheiminum er gagn þess að veiða og sleppa laxi. Þeir sem telja þetta fyrirkomulag ekki virka sem skyldi eða eru hreinlega á móti því og vilja fá að hirða sinn fisk, nefna gjarnan Vatnsdalsá máli sínu til stuðnings að þetta virki ekki. Sporðaköst leituðu til Guðna Guðbergssonar sviðstjóra ferskvatnssviðs Hafrannsóknastofnunar og óskuðu eftir því hvort hægt var að svara þessu í eitt skipti fyrir öll. Er veiða og sleppa að virka í Vatnsdalsá?

Guðni brást vel við og sendi okkur þetta línurit sem fylgir fréttinni og tók saman veiði í Vatnsdalsá og ánum sitt hvoru megin við Vatnsdalinn. Það er Víðidalsá og Laxá á Ásum sem hann skoðaði til samanburðar. Stutta svarið er já. Þetta hefur virkað í Vatnsdalsá. Hér að neðan fylgir ítarlegt svar Guðna.

Línuritið sýnir áhugaverða þróun sem hefur átt sér stað í …
Línuritið sýnir áhugaverða þróun sem hefur átt sér stað í ánum þremur. Svokölluð leitni lína fyrir árnar staðfestir að Vatnsdalsá hefur haldið sínu betur en nágrannarnir. Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun

„Veiðimenn hafa deilt um áhrif veiða og sleppa á laxastofna og laxveiði. Þeir hafa gjarnan bent á Vatnsdalsá þar sem veiða og sleppa hefur verið stundað nær eingöngu hvað lengst. Þegar veiðitölur eru skoðaðar og leitnilína dregin frá árinu 1974-2021 kemur í ljós að veiðin í Vatnsdalsá hefur haldið sér að mestu þótt sveiflur séu á milli ára. Veiðin í nágranna ánum Víðidalsá og Laxá á Ásum hefur hinsvegar verið að dala og er minnkunin tölfræðilega marktæk meiri í Laxá á Ásum og við það að vera marktæk í Víðidalsá. Hafa þarf í huga að stóru atburðirnir í sveiflu í laxgengd og veiði fylgjast að í þessum ám enda eru þar umhverfisþættir að verki.

Það sem gangan og veiðin byggist á er fjöldi þeirra gönguseiða árnar gefa af sér og svo hversu mörg þeirra skila sér til baka úr sjó. Hver á hefur ákveðna getu til að fóstra seiði, sem ákvarðast af lífrænni framleiðslu sem skilar sér í fæðu seiða og skjóli fyrir þau í ánni. Til að nýta framleiðslugetuna þarf að meðaltali ákveðin fjölda hrogna. Ef veitt er umfram það sem þarf til hrygningar skerðist framleiðslugeta ánna og um ofveiði að ræða. Á sama hátt er óhætt að veiða og landa því sem er umfram það sem þarf til hrygningar svo fremi að ekki sé gengið á ákveðna stofnhluta. Má þar nefna að veiðiálag á stórlaxa er jafnan hærra en á smálaxa þar sem þeir ganga fyrr í árnar og eru lengur inni í veiði en smálaxinn.

Þar sem nær öllum löxum er sleppt í Vatnsdalsá hafa þeir tækifæri til hrygningar. Æskilegast væri að hafa beinar mælingar á bæði fjölda gönguseiða og svo nákvæmar talningar á fjölda fiska göngu ásamt fjölda þeirra hrogna sem hrygnt er. Vonandi verður það í framtíðinni en þangað til verður að áætla göngu og hrygningarstofn út frá veiðitölum.“

Ólafur Vigfússon sleppir 82 sentímetra hrygnu sem veiddist í Hnausastreng …
Ólafur Vigfússon sleppir 82 sentímetra hrygnu sem veiddist í Hnausastreng í Vatnsdalsá sumarið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Þegar umrædd leitnilína er skoðuð kemur í ljós að árið 1974 er bláa línan sem stendur fyrir Vatnsdalsá töluvert langt fyrir neðan línur Víðidalsár og Laxár. Þegar komið er fram til ársins 2020 er bláa línan orðin efst. Þannig að með öllum hefðbundnum vísindalegum fyrirvörum er svarið já. Veiða og sleppa í Vatnsdal hefur virkað.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira