Eftir hreint út sagt afleita byrjun á laxveiðitímabilinu í Blöndu er loks að rofa til. Þannig gaf morgunvaktin í morgun sex laxa á bilinu 82 til 95 sentímetrar. Þrír fiskar komu á land í gær og var sá stærsti 93 sentímetrar. Einnig var nokkuð um að veiðimenn væru að missa laxa.
Róbert Haraldsson yfirleiðsögumaður í Blöndu sagði að hluti af fiskunum hafi verið lúsugir og þá var það einnig gleðiefni að fyrsti laxinn veiddist á efri svæðunum. Vonandi veit þetta á gott með framhaldið því margir voru búnir að afskrifa tveggja ára laxinn í Blöndu.
Erlendir veiðimenn frá Skotlandi og Bandaríkjunum voru í skýjunum með þessa veiði enda hefur verið afar rólegt í Blöndu fram til þessa.
Við sögðum í gær frá hundraðkallinum sem hinn fimmtán ára gamli Dagur Ólafsson landaði í Laxá í Aðaldal með pabba sínum. Mældist laxinn hvorki meira né minna en 102 sentímetrar. Eins og venjan er fékk Dagur tuttugu punda næluna en með fréttinni fylgir einmitt myndband sem tekið var af þessari viðureign. Stöngin er stór og öflug og það eru þeir feðgar einnig og það á svo sannarlega líka við um þennan stærsta lax sem komið hefur úr Laxá sumar.
Atli Freyr Bergsson og félagar voru að veiða í Kjarrá í síðasta holli. Síðasta kvöldið voru þeir að ræða stærðir á löxum og bar þeim saman um að 99 sentímetra laxinn væri útdauður. Hann væri allavega ekki að veiðast. Morguninn eftir átti Atli Freyr meðal annars veiðistaðinn Runka. Eftir dágóða stund tók hjá honum afar stór fiskur og eftir langa og stranga baráttu var honum landað. Þessi lax var stífmældur og var nákvæmlega 99 sentímetrar. Atli Freyr hafði gaman af og voru félagar fegnir að sjá slíka tölu og þar með staðfestingu á því að 99 sentímetra laxar eru ekki útdauðir.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
101 cm | Lagarfljót | Jóhannes Sturlaugsson | 2. október 2.10. |
100 cm | Stóra - Laxá | Vigfús Björnsson | 30. september 30.9. |
102 cm | Laxá í Aðaldal | Aðalsteinn Jóhannsson | 19. september 19.9. |
103 cm | Víðidalsá | Rob Williams | 17. september 17.9. |
101 cm | Stóra - Laxá | Jim Ray | 16. september 16.9. |
102 cm | Víðidalsá | Svanur Gíslason | 15. september 15.9. |
101 cm | Miðfjarðará | Stebbi Lísu | 14. september 14.9. |