Netauppkaupin eru að virka á vatnasvæðinu

Breskur veiðimaður tekst á við lax í Laxárholti í Stóru …
Breskur veiðimaður tekst á við lax í Laxárholti í Stóru - Laxá. Veiðin þar fer mjög vel af stað. Ljósmynd/ÞS

Byrjunin í Stóru – Laxá hefur verið vonum framar. Veiði hófst á efra svæðinu þann 24. og neðra svæðið opnaði þann 27. Í gærkvöldi var Stóra – Laxá búin að gefa samtals 54 laxa. Það er mögnuð opnun og með því besta sem sést hefur það sem af er sumri og einnig með því besta sem menn muna í byrjun tímabils í Stóru.

Það sem vekur líka athygli er að opnun á Iðu í Hvítá við ármót Stóru – Laxár var mjög góð. Gaf átján laxa fyrsta daginn. Fréttir berast einnig af því að veiði í Ásgarði í Soginu hafi tekið hressilega við sér og greindi Árni Baldursson landeigandi frá því að veiðimaður hefði landað sjö löxum á svæðinu í fyrradag.

Christopher Harrold með fallegan nýrenning úr þeim magnaða stað Kálfhagahyl …
Christopher Harrold með fallegan nýrenning úr þeim magnaða stað Kálfhagahyl í Stóru. Ljósmynd/ÞS

Loks má nefna að Tungufljót í Biskupstungum er einnig hluti af Hvítárvatnasvæðinu og þar er veiðin að byrja með besta móti. Til að mynda í gær komu þar fimm laxar á land neðan Faxa og einn í ármótunum.

Miklar væntingar eru til sumarsins á þessum veiðisvæðum sem nefnd eru hér að ofan, þar sem stórlega hefur verið dregið úr netaveiði, bæði í Ölfusá og Hvítá. Framtak NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, með uppkaupum á netalögnum af svæðinu gefur mönnum vonir um að stangveiðin geti aukist til mikilla muna í öllum þessum ám. Fyrstu vísbendingar eru jákvæðar og veiðin með allra besta móti í þeim ám sem renna út í Hvítá. Hvert svo framhaldið verður á eftir að koma í ljós en byrjunin lofar góðu.

Kastað á veiðistaðinn Sveinsker, sem nú er hluti af neðra …
Kastað á veiðistaðinn Sveinsker, sem nú er hluti af neðra svæðinu en var áður einn af lykilstöðum á svæði III. Ljósmynd/ÞS

Þegar lax veiðist með halalús uppi á efra svæði Stóru – Laxár er það alltaf skemmtilegt undrunarefni og vekur jafnvel aðdáun. Laxalús lifir ekki í ferskvatni og losnar laxinn því fljótlega við hana eftir að hann gengur úr sjó. Halalúsin er kvendýr lúsarinnar og halinn er í raun egg hennar sem hún losar til að takast á við næstu kynslóð laxa. Ekki er ljóst hvenær halinn fellur af lúsinni en margir vilja meina að það sé á innan við sólarhring eftir að laxinn kemur í ferskvatn. Sumir telja að þessi tími sé enn styttri og að halinn detti af á tólf klukkutímum. Lax með halalús sem veiðist ofarlega í Stóru – Laxá hefur verið snöggur upp Ölfusá, því næst Hvítá og svo langt upp í Stóru.

Tómas Elí Jafetsson og félagar lönduðu sex löxum í Tungufljóti …
Tómas Elí Jafetsson og félagar lönduðu sex löxum í Tungufljóti í Biskupstungum í gær. Fimm veiddust neðan Faxa og sá sjötti í Ármótum. Ljósmynd/ÁB

Aðstæður við opnun í Stóru – Laxá voru hreint út sagt mjög góðar. Áin var í kringum tuttugu rúmmetra og segja reynsluboltar að það sé kjörvatn. Lang stærsti hluta þessara laxa sem hér hafa verið nefndir, eru eins og gefur að skilja tveggja ára fiskur en smálaxinn er líka að mæta og mun fjöldi hans væntanlega aukast hratt á svæðinu á næstu dögum ef allt er eðlilegt.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Lagarfljót Jóhannes Sturlaugsson 2. október 2.10.
100 cm Stóra - Laxá Vigfús Björnsson 30. september 30.9.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.

Skoða meira