Laxveiðin komin á fullt í Hvítá og Ölfusá

Bjarni Blomsterberg landaði fyrsta laxinum á Gíslastöðum í Hvítá.
Bjarni Blomsterberg landaði fyrsta laxinum á Gíslastöðum í Hvítá. Ljósmynd/Veiðikló

Laxveiðin í Hvítá og Ölfusá er komin á fullt. Mörg svæði hafa verið að gefa laxa síðustu daga. Þannig kom fyrsti laxinn á Gíslastöðum í Hvítá í gær og var það 12,5 punda fiskur sem Bjarni Blomsterberg landaði.

Fyrsti laxinn sem Sporðaköst vita um í Stóra – Ármóti í Hvítá kom líka á land í gær og var þar að verki Helga Gísladóttir SVFR – kona sem fékk 65 sentímetra grálúsugan fisk. Það er kannski til marks um aukna laxagengd á svæðinu eftir netauppkaup að Helga skrifaði; „Búin að veiða í Hvítá í mörg ár og aldrei tekist að setja í lax fyrr en nú.“

Grálúsur 65 sentímetra lax af svæði Stóra - Ármóts. Helga …
Grálúsur 65 sentímetra lax af svæði Stóra - Ármóts. Helga Gísladóttir kampakát með fenginn. Ljósmynd/HG

Nokkru neðar eða þar sem Hvítá hefur innbyrt Sogið og hún er orðin Ölfusá er nýtt tilraunasvæði í fluguveiði nú opið veiðimönnum. Tommi Za var að veiðum þar í gær og setti í þrjá laxa og landaði tveimur. Báðir fengu líf. Svæðið er í bakgarðinum á Selfossi og nær langleiðina niður að brú. Þetta svæði hefur ekki áður verið opið fyrir stangveiði og hafa netabændur séð um að veiða það.

Fyrstu laxarnir af tilraunasvæðinu við Selfoss veiddust í gær. Þar …
Fyrstu laxarnir af tilraunasvæðinu við Selfoss veiddust í gær. Þar var að verki Tommi Za og í björgunarvesti eins og vera ber á því svæði. Ljósmynd/TZ

Enn neðar þar sem Stangaveiðifélag Selfoss ræður ríkjum var búið að veiða tólf laxa og þrettán sjóbirtinga þann 29. júní. Arnar Bjarnason hafði heiðurinn að því að veiða fyrsta laxinn á svæði SVFS. Sjóbirtingsveiði hefur snaraukist á svæðinu síðari ár og lengir það veiðitímabilið svona neðarlega á vatnasvæðinu.

Svo getur farið að vatnasvæði Hvítár og Ölfusár verði eitt mest spennandi veiðisvæði landsins ef áform og væntingar varðandi netauppkaup ganga eftir. Sogið, Tungufljót og Stóra – Laxá eru allar hluti af þessu víðfeðma svæði og hafa allar þessar ár byrjað vel í sumar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Vatnsdalsá Reynir Friðriksson 14. ágúst 14.8.
100 cm Miðfjarðará Theódór Friðjónsson 2. ágúst 2.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Robert Taubman 31. júlí 31.7.
100 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 24. júlí 24.7.
105 cm Laxá á Ásum Lord Falmouth 22. júlí 22.7.
103 cm Laxá í Aðaldal Nils Folmer Jorgensen 19. júlí 19.7.
102 cm Hrútafjarðará Oddur Rúnar Kristjánsson 17. júlí 17.7.

Skoða meira