Hundraðkallinn sleit eftir 90 mínútur

Jasper Paakkonen til hægri ásamt Gary Champion leiðsögumanni í Miðfjarðará …
Jasper Paakkonen til hægri ásamt Gary Champion leiðsögumanni í Miðfjarðará við tökur á Sporðaköstum sumarið 2020. Jasper lenti í ævintýri í Blöndu. Ljósmynd/ES

Smálaxinn er að mæta af krafti í Blöndu. Þetta staðfesti veiðimaður í samtali við Sporðaköst nú síðdegis. „Já. Þarna koma þrír í viðbót inn. Þetta eru svona fimmtán fiskar bara núna á smá tíma,“ sagði hann rétt áður en samtalinu lauk.

Eftir slaka byrjun hefur veiðin í Blöndu glæðst til muna og það sem meira er að tveggja ára laxinn er svo sannarlega til staðar þó að hann hafi verið seinn til, eða óheppilega staðið á straumum. 

Stærsta laxinn til þessa veiddi Róbert Haraldsson í vikunni og var það falleg 97 sm hrygna sem veiddist á svæði þrjú. Í gær skreið Blanda yfir hundrað laxa múrinn og menn eru kátir á bökkum Blöndu með stöðuna. Meðal lengd laxanna þegar sá hundraðasti veiddist var 81 sentímetri og 95 af þessum hundrað voru 80 plús.

Fjórir fiskar í stærðarflokknum hundraðkall hafa slitið hjá veiðimönnum síðustu daga. Jasper Paakkonen setti í slíkt tröll á einhendu á svæði þrjú og eftir að hafa hangið á fiskinum við erfiðar aðstæður í níutíu mínútur slitnaði 17 punda taumurinn. Jasper var með kletta beggja vegna við hylinn og gat lítið og illa athafnað sig og hann ætlaði að stranda fiskinum en sá stóri sleit að lokum. Jasper er að vinna að heimildamynd um Atlantshaflaxinn og var þessi viðureign öll mynduð. Hann er hundvanur veiðimaður og var einn af gestum Sporðakasta í þáttaröð sem sýnd var á Stöð 2 vorið 2020. Þá veiddi þessi finnski leikari í Miðfjarðará ásamt öðrum finnskum leikara Peter Franzen en þeir léku bræður í þáttaröðinni Vikings sem sýnd er á Netflix. Peter var þar í hlutverki Haralds hárfagra.

Róbert Haraldsson með þann stærsta úr Blöndu til þessa. 97 …
Róbert Haraldsson með þann stærsta úr Blöndu til þessa. 97 sentímetra fiskur af svæði þrjú. Ljósmynd/RH

Þrír aðrir mögulegir hundraðkallar hafa slitið hjá veiðimönnum víða um ána og þess verður varla langt að bíða að einn slíkur komist á land.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira