„Ég fékk sjokk þegar hann kom á land“

Daníel Dagur með bikarfiskinn frá því í fyrra. Átta kílóa …
Daníel Dagur með bikarfiskinn frá því í fyrra. Átta kílóa urriði sem tók Olive Nobbler. Daníel sá kjaftinn koma upp úr og vissi strax að hann var stór. Ljósmynd/DDB

Daníel Dagur Bjarmason tók í gær við bikar fyrir stærsta fiskinn sem veiddist í Veiðivötnum í fyrra. Það var engin smá skepna eða sextán punda urriði sem hann veiddi í Grænavatni. Daníel er staddur í Veiðivötnum og var að byrja veiðina í gær. Sporðaköst spurðu hann út í þennan mikla fisk.

„Ég fékk hann um Verslunarmannahelgina í fyrra og var staddur að norðanverðu í Grænavatni. Það var gott veður og smá gola. Ég tók allt í einu eftir því að tveir smáfiskar stukku og var eins og að þeir væru að flýja eitthvað. Ég hljóp aðeins til hliðar til að getað kastað á staðinn. Í fyrsta kastinu gerðist ekkert og svo í næsta kasti þá bara BÚMM og svo hófst baráttan. Flugan sem hann tók var Olive Nobbler og hún var ekki þyngd. Hann tók hana í yfirborðinu. Ég sá kjaftinn koma upp og éta hana og áttaði mig strax á að þetta var stór fiskur,“ sagði Daníel í samtali við Sporðaköst. Þegar við heyrðum í honum í gærkvöldi var hann staddur úti í vatni að kasta flugu.

Má ég giska á í hvaða vatni þú ert?

„Já, endilega.“

Ertu í Grænavatni að norðanverðu?

„Ég er í Grænavatni en er núna að vestanverðu."

Bryndís Magnúsdóttir, veiðivörður afhendir Daníel bikarinn fyrir stærsta fiskinn úr …
Bryndís Magnúsdóttir, veiðivörður afhendir Daníel bikarinn fyrir stærsta fiskinn úr Veiðivötnum sumarið 2021. Annar bikarinn er farandgripur en hinn fær Daníel til eignar. Ljósmynd/Veiðivötn

Daníel hefur veitt í Veiðivötnum í sextán ár og er nýlega orðinn 23 ára. Hann hefur ekki áður veitt svona stóran urriða. Hafði landað tólf og tíu punda fiskum en þessi sló allt út.

„Ég fattaði ekki hvað hann var stór fyrr en ég landaði honum og vigtaði. Viðureignin var ekki svo löng. Ég hef verið rétt innan við kortér að landa honum. Hann tók fyrst mikla roku niður á undirlínu en lagðist svo bara eins og steinn. Ég var í sjokki þegar hann kom svo á land. Ég var einn og fjölskyldan var í bústaðnum að borða. Þegar ég vigtaði hann þá ætlaði ég varla að trúa þessu. Átta kíló.

Hér er svo önnur mynd af Daníel með verðlaunafiskinn. Það …
Hér er svo önnur mynd af Daníel með verðlaunafiskinn. Það er bara ekki hægt annað en að birta tvær myndir af þessum mikla urriða. Þeir verða ekki mikið stærri. Ljósmynd/DDB

Veiðin í sumar í Veiðivötnum hefur verið í góðu meðallagi. Veiði hófst fyrir mánuði síðan og í fyrradag hafði ríflega ellefu þúsund silungum verið landað. Urriðinn hefur vinninginn og teljast þeir rétt ríflega sex þúsund á móti 5.047 bleikjum. 

Bryndís Magnúsdóttir veiðivörður í Veiðivötnum segir veiðina hafa verið í góðu meðallagi, það sem af er. Veðrið hefur aðeins verið að stríða veiðimönnum en þó ekki svo að það hafi ráðið úrslitum.

Stærri bleikja og lögregluheimsókn

„Það hefur bara gengið vel hjá okkur það sem af er sumri. Hefði reyndar mátt vera aðeins hlýrra. Mér finnst ánægjulegt að sjá stækkunina á bleikjunni og ég held að það megi þakka grisjun bænda á haustin fyrir það. Bleikjan er stækkandi og það gleður alla,“ sagði Bryndís í samtali við Sporðaköst.

Lögreglan kom í Veiðivötn í gær og tók stöðuna á veiðimönnum og allt var í topp standi. Bryndís sagði að reglulega kæmi lögreglan í heimsókn þar efra og væri gott fyrir veiðimenn hafa það í huga.

„Það sem af er hefur veiðin verið ágæt. Stóra Hraunvatn hefur gefið vel og eins er stór og falleg bleikja í Langavatni og Breiðavatni. Í Snjóölduvatni og Nýjavatni er fín veiði en bleikjan smærri og í þriðju viku veiddist vel í Skyggnisvatni. Litlisjór, Ónýtavatn og Grænavatn hafa gefið góða fiska.

Eftir fyrstu þrjár vikurnar hafa flestir fiskar veiðst í Snjóölduvatni, en þar hafa 2242 fiskar komið á land, mest bleikja. Litlisjór er þar skammt á eftir með 2151 góða urriða. Veiði hefur einnig gengið vel í Skyggnisvatni, Ónýtavatni, Hraunvötnum og Stóra Fossvatni.
Í fjórðu viku veiddust 2320 fiskar sem er svipaður fjöldi og undanfarin ár. Mest veiddist í Litlasjó en þar komu 667 urriðar á land. Einnig veiddist vel í Snjóölduvatni og Ónýtavatni.
Alls hefur 11081 fiskur komið á land á þessu sumri, þar af 6034 urriðar og 5047 bleikjur.
Stærsti fiskur sumarsins er 10,4 pd urriði úr Hraunvötnum og besta meðalþyngdin er 2,95 pd í Pyttlum.“ Svona hljóðar samantekt úr Veiðivötnum eftir þriðju viku veiðitímans.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.

Skoða meira