Hörð gagnrýni á hundraðkallalistann

Hér má sjá dæmi um stórlax sem var mældur 96,8 …
Hér má sjá dæmi um stórlax sem var mældur 96,8 semtímetrar. Málbandið liggur yfir fiskinn og áhugasamir geta stækkað myndina og séð nákvæmlega mælinguna. Þetta er til fyrirmyndar og tekur af allan vafa um stærðina. Rétt er að taka fram að þessum laxi var sleppt og var hann hinn hressasti. Ljósmynd/Sporðaköst

Hörð gagnrýni hefur komið fram á hundraðkallalistann sem Sporðaköst halda úti hér á mbl.is. Hafa fjölmargir haft samband við ritstjóra bæði í tölvupóstum, sms skilaboðum og með símtölum. Gjarnan draga menn í efa að fiskar sem birtar eru myndir af standist mál og nái hinum eftirsóttu 100 sentímetrum og geti því í raun ekki talist hundraðkallar.

Það örlaði strax á þessari gagnrýni þegar listinn fór af stað sumarið 2020, og hefur hún stigmagnast þessi sumur og hefur nú náð nýjum hæðum. 

„Hættu að birta myndir af þessum sautján pundurum sem fólk er að segja að séu hundrað sentímetrar,“ skrifaði veiðimaður í sms skilaboðum til Sporðakasta nýverið.

Í ljósi stigvaxandi gagnrýni vill ritstjóri Sporðakasta taka fram eftirfarandi.

Við trúum orðum veiðimanna og viðmið okkar er að ef fiskurinn er bókaður í veiðibók viðkomandi vatnasvæðis án athugasemda er það fullgild staðfesting. Ritstjóri Sporðakasta setur sig ekki í dómarasæti í þessum efnum. Við höfum rætt þetta við nokkra umsjónarmenn upp á síðkastið og þeir svara allir á sömu lund að þeir trúi því sem viðskiptavinir/veiðimenn segja og færa til bókar án athugasemda þær upplýsingar sem veiðimenn koma með.

Þá stendur í raun aðeins eitt eftir. Hver veiðimaður á það við eigin samvisku hvernig staðið er að mælingum á þessum stórfiskum. Þetta er ekki ósvipað og í þeirri ágætu íþrótt golfinu. Þar er leikmanni treyst til að skrá eigin höggafjölda og hann á það við eigin samvisku að gera það heiðarlega. Og svo við höldum áfram samlíkingunni við golfið þá er það sérstakur og magnaður árangur þegar kylfingur fer holu í höggi. Það er kannski ekki óraunhæf samlíking við það að veiða hundrað sentímetra lax. Þegar hola er farin í höggi þarf að vera vitni og um það gilda ákveðnar reglur.

Rétt er að benda veiðimönnum á að vanda mælingar sérstaklega þegar um svo stóra fiska er að ræða. Flestir þessara stórfiska þurfa tíma til að jafna sig eftir viðureignina og þá er lítið mál að slá honum flötum í vatninu og mæla nákvæmlega lengd. Sá tími mun ekki draga úr líkum á því að laxinn jafni sig. Þegar lax er mældur er rétt að fara yfir að hann er mældur frá trjónu í miðja sporðblöðku. Ekki í sporðhorn heldur í vaffið í miðjum sporðinum.

Til að taka af öll tvímæli er hér mælt með því að menn vandi myndatökuna að sama skapi og eitt besta viðmiðið er hvernig haldið er um stirtluna á laxinum. Það er ekki á færi neins að loka gripi um stirtlu á hundrað sentímetra laxi. Gott er að fingur sjáist að fullu þannig að hægt sé að meta stærðina út frá gripinu. Auðvitað er fólk mis handstórt en þetta leynir sér ekki.

Loks er hér beiðni til veiðimanna sem telja sig hafa veitt fisk af þessari stærðargráðu. Leggið málbandið við hliðina á laxinum eða ofan á hann, þannig að lengdin sjáist og allur vafi sé tekinn af. Þetta getur verið erfitt þegar er aðdjúpt þar sem fiski var landað. Best er að leggja hann á strönd og tryggja að málbandið sjáist. Með þessum hætti er mælingin staðfest og margir veiðimenn munu eiga auðveldar með nætursvefn. 

Hundraðkallalistinn heldur áfram en munum að vanda okkur og ekki viljum við æra óstöðugan. En að lokum. Höldum í gleðina og höldum áfram að deila myndum af okkar stærstu fiskum.

Með veiðikveðju, Eggert Skúlason ritstjóri Sporðakasta.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert