Hennar þriðji hundraðkall á fjórum árum

Kristrún Ólöf Sigurðardóttir heldur hér á sínum þriðja hundrað plús …
Kristrún Ólöf Sigurðardóttir heldur hér á sínum þriðja hundrað plús laxi. Þessi veiddist á Fossavaði í Aðaldalnum í gærmorgun. Ljósmynd/KA

„Ég byrjaði bara að veiða í lok sumars 2018 og það má segja að ég hafi verið ákaflega lukkuleg með þessa stórfiska,“ sagði Kristrún Ólöf Sigurðardóttir í samtali við Sporðaköst í gærkvöldi. Hún var þá að búa sig undir að taka við tuttugu punda nælu í Laxá í Aðaldal. Þetta er önnur nælan sem hún fær þar en fyrir sléttum tveimur árum landaði hún 102 sentímetra laxi á Lönguflúð. Það var hennar annar hundraðkall en þann fyrsta fékk hún í Noregi.

Þessa mynd tók leiðsögumaðurinn á meðan að bardaginn stóð yfir. …
Þessa mynd tók leiðsögumaðurinn á meðan að bardaginn stóð yfir. Hún er táknræn. Nánast allt á hliðinni við að ná þessum höfðingja. Ljósmynd/KA

Svo gerðist það í gær að Kristrún fékk sinn þriðja hundraðkall. Þau hjónin eru með ellefu mánaða dóttur sína með sér þannig að þau skipta vöktunum og Kristrún fór ekki út fyrr en klukkan níu um morguninn. Hún var að veiða með Kristjáni Arnarsyni leiðsögumanni frá Húsavík og þau voru stödd á Fossavaði sem er veiðistaður við hliðina á Mjósundi, fyrir ofan Kistukvíslina í Laxá. „Kristján mælti með skáskornum Skugga, litlum. Mér leist vel á það og bara eftir nokkur köst tók hjá mér fiskur sem reyndist 81 sentímetra hrygna. Það var sko alveg alvöru viðureign. Hún ætlaði niður og ég þurfti að fara út í eyjuna og hlaupa eftir henni til að lína myndi ekki flækjast í gróður eða grjót. Eftir að hún var komin í net sagði Kristján við mig, „Jæja. Nú förum við og tökum hænginn.“ Svo hlógum við bara. Þegar allt var klárt kasta ég aftur á sama stað og það voru bara nokkur köst og þá kom þessi frekar rólegheita taka. Ég sagði við Kristján að ég væri nú ekki viss um að þessi væri jafn stór og hinn. Nokkrum sekúndum seinna rauk hann af stað,“ sagði Kristrún hlæjandi. Hún hermir eftir veiðihjólinu og gefur frá sér hljóð sem er mitt á milli Hardy og nýrri tegunda.

Gleðistund í Lakselva í Noregi. Kristrún og norskur leiðsögumaður hampa …
Gleðistund í Lakselva í Noregi. Kristrún og norskur leiðsögumaður hampa 105 sentímetra laxi. Ummálið var 64 sentímetrar. Hún fékk viðurnefnið Big fish Kris. Ljósmynd/Alli

Fiskurinn tók mikla roku og stökk svo tignarlega. „Jú. Þessi er stærri en sá fyrri.“ Og það reyndist rétt. Eftir tuttugu mínútna baráttu og nokkrar hressilegar rokur og stökk náðist að háfa laxinn. „Ég leit ofan í háfinn og missti út úr mér ó mæ god. Hann var mikið stærri. Hann var svo þungur að ég náði varla að halda honum almennilega fyrir myndatökuna. Þetta var svo flottur fiskur og ég alveg spriklaði af gleði eftir þessa vakt.“

Laxinn mældist sléttir hundrað sentímetrar. Kristján leiðsögumaður var beðinn um að staðfesta mælinguna. „Já passar. Sléttir hundrað og margmældur.“

Hundraðkallinn sem Kristrún fékk í Noregi var 105 sentímetrar. Norsku leiðsögumennirnir kölluðu hana eftir það Big fish Kris. Það er óhætt að segja að það nafn hafi verið vel til fundið. Allavega átti það við í gær.

Kristrún Ólöf Sigurðardóttir með hænginn úr Lönguflúð 25. júlí 2020. …
Kristrún Ólöf Sigurðardóttir með hænginn úr Lönguflúð 25. júlí 2020. Hann mældist 102 sentímetrar. Þessi tók fluguna Meridian númer 10. Ljósmynd/Aðsend

Kristrún sagði að af þessum stórfiskum sem hún hefur tekist á við þá var þessi í gær sá auðveldasti og tók stystan tíma. „Hann keyrði harkalega inn í sef og eftir það var eins og hann væri hálf vankaður og það held ég að hafi stytt tímann. Annars er það svo magnað að þegar maður er að veiða þá er maður svo spenntur að maður man þetta ekki í smáatriðum og ég var bara einhvern veginn sturluð af gleði með þessa tvo fiska á bara stuttum tíma.“

Þetta er annar veiðitúrinn sem Kristrún fer í Laxá í sumar. Fyrri túrinn var snemma í júlí og þá gafst henni lítill tími til að veiða. „Ég var frekar mikið í húsi og við vorum með litlu dömuna okkar með okkur. Þegar leið á veiðitúrinn fór ég að verða æstari í að komast út að kasta. En ég núllaði í því holli og fór með tárin í augunum heim. En ég sagði að þessi stóri biði eftir mér þar til ég kæmi næst. Og það stóðst,“ hló Kristrún.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Miðfjarðará Theódór Friðjónsson 2. ágúst 2.8.
103 cm Laxá í Aðaldal Robert Taubman 31. júlí 31.7.
100 cm Laxá í Aðaldal Kristrún Ólöf Sigurðardóttir 24. júlí 24.7.
105 cm Laxá á Ásum Lord Falmouth 22. júlí 22.7.
103 cm Laxá í Aðaldal Nils Folmer Jorgensen 19. júlí 19.7.
102 cm Hrútafjarðará Oddur Rúnar Kristjánsson 17. júlí 17.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jorgensen 14. júlí 14.7.

Skoða meira