„Fengum smá sjokk – hann var svo stór“

Ragna Sara með hænginn tröllvaxna. Lúsugur og ótrúlega þykkur. Stíf …
Ragna Sara með hænginn tröllvaxna. Lúsugur og ótrúlega þykkur. Stíf mældur 99 sm í miðjan sporð. Ljósmynd/RSJ

Þegar veiðimenn í Blöndu vöknuðu á mánudagsmorgun og litu út um gluggann fór hrollur um marga. Hún Ragna Sara Jónsdóttir var í þeim hópi. Hryllti sig yfir veðrinu en lét sig hafa það. Það var kalt, rok og rigning. Hásumar.

Hún átti Breiðuna að norðan og það var góður séns á fiski vissi hún. Brandur Pálsson, leiðsögumaðurinn hennar hafði smá áhyggjur af stönginni sem hún var með. Switch stöng 10,6 fet. Hann hafði efasemdir um að auðvelt væri að eiga við stórfisk með henni. Ragna Sara hafði engar áhyggjur af því enda hafði vinkona hennar landað 97 sentímetra fiski á hana í Víðidalsá í fyrra. Hún fékk einn lax á morgunvaktinni og var sátt með það.

„Það tók ekki betra við á seinni vaktinni. Áfram kalt og rok og rigning. En við áttum Breiðuna að sunnan og það hefur verið svona eitt besta svæðið. Það var alveg erfitt að vinna línuna út eins og maður vildi. Ég var komin í lánsvöðlur af því að mínar höfðu farið að mígleka um morguninn. En við þræluðum okkur í gegnum þessa veiðistaði. Svo var það svona um klukkan sex að þessi stóri tók hjá mér. Ég var búin að fá eina bleikju á Breiðunni að sunnanverðu en þetta var allt öðruvísi taka og þessi fiskur lagðist bara til að byrja með,“ sagði Ragna Sara í samtali við Sporðaköst.

Blanda var bólgin af vatni og eftir nokkra stund tók fiskurinn mikla roku út í miðja á og stökk þar. Þá sáu þau að þetta var stór fiskur. Viðureignin tók enda drjúga stund og fiskurinn tók aðra svona roku áður en yfir lauk. Löndunin gekk svo að óskum og Brandur háfaði laxinn.

Þetta er einstaklega fallegt eintak af laxi. Hvíti liturinn á …
Þetta er einstaklega fallegt eintak af laxi. Hvíti liturinn á þeim þegar þeir eru svona nýkomnir úr sjó er magnaður. Ljósmynd/RSJ

„Þetta var magnaður klukkutími í Blöndu. Það var eins og hefði verið mikil hreyfing á fiski. Það settu allir í fisk á þessum tíma. Það var bara einhvern veginn allt á fullu í ánni.“

Þau Brandur og Ragna Sara áttuðu sig ekki almennilega á stærðinni á laxinum fyrr en hann var kominn í háfinn. „Við fengum smá sjokk. Hann var svo hrikalega stór og þykkur og svo var hann lúsugur og bara nýgenginn.“

Þessi hængur er frábært eintak af laxi, eins og sést á meðfylgjandi myndum. „Við mældum hann saman og í miðjan sporð var hann 99 sentímetrar. Þegar við mældum hann svo í sporðhornið þá mældist hann 102 sentímetrar.“ Ragna Sara hlær þegar hún segir frá þessu. „Ég er með veiðidellu á háu stigi og það var mögnuð lífsreynsla að landa svona stórum fiski, það er það sem stendur uppúr.“

Brandur leiðsögumaður og Ragna Sara höfðu alla ástæðu til að …
Brandur leiðsögumaður og Ragna Sara höfðu alla ástæðu til að fagna. Ljósmynd/RSJ

Áður hafði hún fengið stærst rúmlega áttatíu sentímetra fisk og viðurkenndi að þetta hafi verið allt öðruvísi.

Fiskurinn var bókaður 99 sentímetrar, sem er rétt bókun. Þegar fiskar eru skráðir á Íslandi er miðað við að mæla lengd þeirra í miðjan sporð en ekki í sporðhorn. Hundraðkallalisti Sporðataka tekur mið af þessu.

Sporðaköst óska Rögnu Söru innilega til hamingju með þennan flotta fisk og hrósa um leið henni og Brandi fyrir að vanda mælinguna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert