Veiðin á NA–horni landsins hefur verið mun betri en í fyrra og að öllum líkindum bjartasti punkturinn í frekar slöku laxveiðisumri. Hofsá, sú fornfræga á, fór í gær í 604 laxa. Það er þremur löxum meira en heildarveiði síðasta sumars þegar hún skilaði 601 laxi. Sumarið 2020 þótti gott í Vopnafirðinum og fór Hofsá þá yfir þúsund laxa í fyrsta skipti í sjö ár.
Eins og útlitið er núna bendir allt til þess að heildarveiðin verði sú besta frá árinu 2007 þegar áin skilaði 1.435 löxum. Selá er á svipuðu róli og Hofsá með um sex hundruð laxa og ljóst að veiðin verður mun meiri en í fyrra þegar hún endaði í rétt tæplega átta hundruð löxum. Veiðiálag í Selá er með öðrum hætti en í flestum íslenskum laxveiðiám. Þar er kvóti upp á fjóra laxa og ber veiðimanni að hætta þegar þeim fjölda er náð, óháð því að öllum fiskinum hafi verið sleppt.
Gott dæmi um NA–hornið er Sandá. Þar voru komnir á land 211 laxar í gærkvöldi og telst það mjög góð veiði á þeim bænum á þessum tíma sumars.
En aftur að Hofsá. Þar er mikið af smálaxi þetta sumarið og eins og hefur loðað við árnar í Vopnafirði er þar alltaf töluvert af mjög smáum smálaxi, allt niður í fjörutíu sentímetra. Þeir eru á sínum stað í sumar en einnig er töluvert af stærri smálaxi og þokkalegt magn af stórlaxi.
Meðaltalsveiði í Hofsá síðastliðin þrjátíu ár er um þúsund laxar og ljóst að áin fer vel yfir það meðaltal í sumar nema eitthvað óvænt komi upp á.
Öll sjö svæði árinnar eru inni og segir það enn frekar til um magnið af fiskinum því það hefur loðað við Hofsá síðari ár að neðri hlutinn verður hálf tómur þegar líður á sumar. Nú eru veiðistaðir um alla á vel inni enda hafa veiðitölur síðustu daga verið frá tuttugu löxum og jafnvel meira á dag.
Nú styttist í stóran straum og því viðbúið að veiðin haldi áfram dampi með nýjum fiskum sem eru að koma daglega úr hafi.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
107 cm | Grímsá | Jón Jónsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Víðidalsá | Jón Eðvald Halldórsson | 22. september 22.9. |
101 cm | Víðidalsá | Nils Folmer Jorgensen | 17. september 17.9. |
100 cm | Stóra - Laxá | Jóhann Gunnar Jóhannsson | 13. september 13.9. |
100 cm | Miðfjarðará | Daði Þorsteinsson | 12. september 12.9. |
102 cm | Stóra - Laxá | Reto Suremann | 10. september 10.9. |
103 cm | Stóra - Laxá | Magnús Stephensen | 10. september 10.9. |