Einn sá stærsti úr Norðurá á öldinni

Einar Sigfússon með 102 sentímetra hænginn sem hann veiddi í …
Einar Sigfússon með 102 sentímetra hænginn sem hann veiddi í morgun í Norðurá. Þetta er einn af þeim stærstu sem veiðst hafa í ánni á þessari öld. Ljósmynd/ Anna K. Sigþórsdóttir

Einn stærsti lax sem veiðst hefur í Norðurá á þessari öld kom á land í morgun. Þar var að verki Einar Sigfússon sem sá um rekstur Norðurár um nokkurt skeið, þar til í fyrra að hann taldi nóg komið. Laxinn veiddist mjög neðarlega í ánni í svo kölluðum Neðsta streng sem er neðan við sumarhúsabyggðina í Munaðarnesi.

„Þetta er sami hópur sem veitt hefur á þessum tíma um nokkurt skeið. Við lentum í því í hollinu að áin fór í flóð, alveg hreint kakólituð og fór í 110 rúmmetra rennsli. Svo hefur hún verið að sjatna og hreinsa sig og í morgun var hún orðin virkilega flott. Veðrið var hins vegar þannig að við áttum ekki von á miklu. Sól og logn og áin var köld.

Við hjónin vorum á neðsta svæðinu í morgun og ákváðum að byrja í Neðsta streng. Þetta tilheyrir Munaðarnessvæðinu og er aðeins fyrir neðan orlofshúsabyggðina. Þetta er mjög fallegur staður. Ég byrjaði á að fara með bæn og óskaði eftir því við ána mína blessaða að hún gæfi mér tvo fallega laxa. Annan langaði mig að gefa Birnu Konráðsdóttur fyrrverandi formanni veiðifélagsins og hennar manni. Svo langaði mig að færa Guðrúnu Sigurjónsdóttur núverandi formanni, hinn,“ sagði Einar Sigfússon í samtali við Sporðaköst.

Flugan sem varð fyrir valinu var mini Snælda í þýsku fánalitunum og nokkuð þyngd. Einar setti nánast strax í lax en missti hann eftir stutta stund. „Svo bara í þriðja kasti eftir það er þrifið fast í fluguna. Ég fann um leið að þetta var stór fiskur.“

Eftir ekki svo langa stund rann upp fyrir Einari að um stórlax var að ræða. Viðureignin stóð í góðan hálftíma og staðurinn er þægilegur að sögn Einars til að eiga við lax og landa. „Þarna eru ekki margar hættur. En hann tók þrjár rokur og rauk þá langt niður á breiðuna og langt niður á undirlínu. Ég náði samt alltaf að vinna hann til baka.“

Þetta var hængur sem Einar segir að hafi verið þykkur og mikill og ekki farinn að horast að neinu ráði. Hann náði að renna stórlaxinum upp á grunnt vatn og þar gátu þau hjónin athafnað sig í rólegheitum við að mæla laxinn nákvæmlega. Anna K. Sigþórsdóttir kona Einars hljóp upp í bíl að ná í síma til að mynda laxinn en síminn hafði gleymst þar. „Hann var nú ekki alveg samvinnufús við myndatökuna en við gerðum okkar besta,“ brosti Einar.

Laxinn mældist 102 sentímetrar og er það einn sá stærsti sem veiðst hefur í Norðurá á þessari öld. Einar man eftir fiski frá árinu 2006 sem náði hundrað sentímetrum og veiddist hann á Kálfhylsbrotinu. Þá fékk Anna kona Einars 102 sentímetra fisk í opnun í Laugakvörn fyrr á öldinni. Hundrað sentímetra fiskur veiddist í ádrætti í fyrra, þannig að þessir fiskar eru svo sannarlega í Norðurá.

Stærsti fiskurinn fram til þessa í Norðurá í ár mældist 99 sentímetra og veiddist í Kríuhólma snemma sumars.

„Þetta var mjög skemmtilegt en afskaplega óvænt. Þetta segir okkur hins vegar að það eru enn stórir fiskar í Norðurá og það er frábært. En þetta er náttúrulega tíminn. Fiskurinn er að koma aftur inn á lendurnar sínar eftir flóðið og hann er grimmur og vill hreinsa til í kringum sig. Hann er búinn að finna hrygnurnar sínar og ætlar ekki að gefa þetta eftir baráttulaust,“ sagði Einar að lokum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.
101 cm Víðidalsá Rögnvaldur Guðmundsson 12. september 12.9.
103 cm Ytri - Rangá Adrian Stauss 8. september 8.9.

Skoða meira