Slitu úr sama stórlaxi með dags millibili

Berglind og Jörundur settu bæði í stórlaxinn og slitu úr …
Berglind og Jörundur settu bæði í stórlaxinn og slitu úr honum. Þar með er ekki sagan öll. Ljósmynd/JJ

Ótrúlegt atvik átti sér stað í Svalbarðsá í Þistilfirði nýlega. Tvenn pör voru við veiðar og með dags millibili setti annað parið í sama stórlaxinn og tókst á við hann í mjög langan tíma, sitt hvorn daginn. Staðfest er að um sama laxinn var að ræða.

Jörundur Jörundsson og kona hans Berglind Þráinsdóttir ásamt Kristni Jörundssyni og Steinunni Helgadóttur voru eins og fyrr segir í Svalbarðsá. Jörundur setti í gríðarlega vænan fisk í Svalbarðsselshyl. Fiskurinn tók litla rauða Frances númer fjórtán. „Hann stökk mjög fljótlega þannig að ég sé vel að þetta var mjög vænn fiskur. Fiskurinn lagðist svo bara í sennilega tuttugu mínútur og ég haggaði honum ekki. Svo tók hann skyndilega ákvörðun að synda af stað og fer upp í beljandi straum þar sem er mikið um hraungrjót. Ég varð að hlaupa á eftir honum og var með alveg beint átak á honum. Þar lagðist hann svo aftur og lá eins og grjót þar í sennilega aðrar tuttugu mínútur,“ sagði Jörundur í samtali við Sporðaköst um viðureignina við stórlaxinn í Svalbarðsselshyl.

Jörundur tekst á við laxinn í Svalbarðsselshyl. Viðureignin stóð hátt …
Jörundur tekst á við laxinn í Svalbarðsselshyl. Viðureignin stóð hátt í klukkutíma og endaði með að taumurinn slitnaði rétt við flugulínuna. Ljósmynd/BÞ

Upp úr þessu segir hann að laxinn hafi verið farinn að lýjast. „Hægt og bítandi náði ég að sunka honum niður á breiðuna þar sem hann tók. Svo allt í einu rýkur hann af stað upp eftir aftur og ég var ekki nógu fljótur á eftir honum þannig að hann slítur tauminn á grjótnibbu. Taumurinn slitnaði mjög ofarlega og fór nánast allur."

Daginn eftir setti Berglind í stórlax í sama hyl og …
Daginn eftir setti Berglind í stórlax í sama hyl og lak úr honum. Þegar hún dró inn línuna kom í ljós að hún hafði sett í sama laxinn og Jörundur. Ljósmynd/SH

Berglind kona Jörundar var með miklar áhyggjur af því að þessi stórlax væri með fluguna í sér og tauminn nánast allan fastan í sér og segir Jörundur að hún hafi jafnvel óttast að taumurinn gæti vafist um hausinn á honum og drepið hann. „Hún hafði af þessu verulegar áhyggjur,“ sagði Jörundur.

Flugurnar tvær kræktar saman og taumurinn sem Jörundur tapaði deginum …
Flugurnar tvær kræktar saman og taumurinn sem Jörundur tapaði deginum áður. Ljósmynd/BÞ

Daginn eftir fóru þeir bræður upp í gilið í Svalbarðsá en rétt í þann mund sem þeir eru að detta úr símasambandi hringir Steinunn í Kristinn, sinn mann, og tilkynnir honum afskaplega ánægð að hún hafi verið að landa sínum fyrsta flugulaxi. Svo slitnar sambandið og þeir bræður heyra ekki meira af ævintýrum kvenna sinna fyrr en þeir komu til baka í veiðihúsið. „Það urðu þarna miklir fagnaðarfundir og við glöddumst yfir fyrsta flugulaxinum hjá Steinunni, þó að hún hafi veitt marga laxa í gegnum tíðina var þetta hennar fyrsti á flugu. Konan mín tók utan um mig og labbaði með mig inn í veiðihús. Þær voru búnar að leggja á borð og gera allt klárt þar sem við áttum mun lengri leið að fara. Hún leiddi mig að einum diskinum þar sem var á upp hringaður taumur með rauðri Frances á gullkróki. Ég spurði hvort þær hefðu fundið tauminn og fluguna í berginu því ég þekkti aftur búnaðinn minn sem stórlaxinn hafði slitið.“

Rauð Frances á gullkrók með taumi var á disknum hans …
Rauð Frances á gullkrók með taumi var á disknum hans Jörundar. Hann ætlaði ekki að trúa þessu. Ljósmynd/BÞ

Þær neituðu því. „Ég setti í hann,“ sagði Berglind. Jörundur segir að hann hafi bara alls ekki trúað þessu og vísar til þess að Berglind eigi það til að vera uppátækjasöm og grallari í sér. „Þarna upphófst samtal þar sem ég var ekki að trúa því að hún hefði sett í sama fiskinn. Mér fannst það afar ólíklegt. Ég rengdi hana alveg fram í rauðan dauðann. Steinunn blandaði sér í umræðurnar og staðfesti þetta. Steinunn getur ekki sagt ósatt þannig að það runnu á mig tvær grímur. Þetta endaði með því að þær sýndu mér vídeó af því þegar hún var glíma við fiskinn og þar sagði Berglind. Jæja hvað ætli ég verði lengi með þennan? Jörundur var í klukkutíma með sinn. Svo gerðist það eftir um það bil korters viðureign að það losnar úr honum. Hún var eðlilega rosalega svekkt og dregur inn línuna. Þá var bara einhver girnisflækja á endanum. Hún fór að greiða úr þessu og þá kom í ljós að flugan hennar var föst í flugunni sem ég hafði notað daginn áður. Þetta var með hreinum ólíkindum. Ég hélt fyrst að hún væri að grínast í mér. Hún er alvön að gera slíkt og leggur sig oft mjög fram við það. En vitnisburður Steinunnar og svo myndirnar töluðu sínu máli og þetta gerðist.“

Steinunn Helgadóttir með fyrsta flugulaxinn sinn. Jörundur trúði henni enda …
Steinunn Helgadóttir með fyrsta flugulaxinn sinn. Jörundur trúði henni enda segir hann að Steinunn geti ekki skrökvað. ljósmynd/BÞ

Jörundur og Kristinn bróðir hans er sammála um að líkurnar á því að þetta gerist séu nánast stjarnfræðilegar. Menn hafa heyrt um laxa sem hafa veiðst með flugu í kjaftinum eftir að hafa slitið hjá öðrum veiðimanni en þarna krækist flugan í flugu sem laxinn tók deginum áður. Það þurfa svo margar tilviljanir að eiga sér stað svo þetta mál gangi allt eftir. Í fyrsta lagi að laxinn skyldi taka aðra flugu strax daginn eftir. Að hann skyldi taka fluguna með sama hætti. Að flugan kræki í fyrri fluguna og að hann rífi sig aftur lausan. Myndirnar sem fylgja þessari frétt taka þó af allan vafa.

Þeir bræður Jörundur og Kristinn nutu sín vel í Svalbarðsá …
Þeir bræður Jörundur og Kristinn nutu sín vel í Svalbarðsá og gerðu ágæta veiði. Þessi túr mun aldrei gleymast segir Jörundur. Ljósmynd/BÞ

„Auðvitað gleymir maður ekki svona viðureign við stórlax af þessari stærðargráðu. En framhaldið gerir það að verkum að ekkert okkar mun nokkru sinni gleyma þessari veiðiferð og þar verður þessi ótrúlega veiðisaga alltaf hápunkturinn,“ hló Jörundur.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 19. september 19.9.
103 cm Víðidalsá Rob Williams 17. september 17.9.
101 cm Stóra - Laxá Jim Ray 16. september 16.9.
102 cm Víðidalsá Svanur Gíslason 15. september 15.9.
101 cm Miðfjarðará Stebbi Lísu 14. september 14.9.
101 cm Víðidalsá Rögnvaldur Guðmundsson 12. september 12.9.
103 cm Ytri - Rangá Adrian Stauss 8. september 8.9.

Skoða meira