Haust hinna stóru sjóbirtinga framundan?

Þessi mikli birtingur mældist 97 sentímetrar og veiddi Maros hann …
Þessi mikli birtingur mældist 97 sentímetrar og veiddi Maros hann i Syðri - Hólma í Tungufljóti þann 11. ágúst í sumar. Ljósmynd/Maros

Sjóbirtingum sem mælast yfir áttatíu sentímetrar og jafnvel yfir níutíu hefur fjölgað umtalsvert hin síðari ár. Það er óumdeilt að þetta megi rekja til veiða/sleppa fyrirkomulags sem hefur síðasta áratug rutt sér til rúms í nær öllum sjóbirtingsám. Birtingurinn er með allt annað lífshlaup en laxinn. Sá fyrrnefndi gengur oft á lífsleiðinni upp í ána sína og hrygnir. Laxinn aftur á móti kemur einu sinni og skilar næstu kynslóð. Flestir drepast eftir hrygningu en þar eru þó undantekningar á og nokkur dæmi þekkt um hrygnur sem hafa komið tvisvar til hrygningar og jafnvel oftar.

Í sjóbirtingnum er þetta hins vegar þekkt staðreynd að þeir koma aftur og aftur og verða þá líka með árunum stærri. Það sást vel í vorveiðinni í ár hversu mikið var af þessum stóru birtingunum sem voru að ganga niður eftir ástarævintýri vetrarins.

Stærsti birtingurinn úr Vatnamótum í sumar fær frelsi á nýjan …
Stærsti birtingurinn úr Vatnamótum í sumar fær frelsi á nýjan leik. Þessi mældist 93 sentímetrar og það hann Maros sem veiddi hann. Ljósmynd/Maros

Eldvatnið hefur verið að skila stærri og stærri fiskum. Þannig veiddust í vor margir níutíu sentímetra fiskar og ríflega það. Nú í lok ágúst veiddist svo sá stærsti á þessu ári og var það 94 sentímetra fiskur sem gaf sig í veiðistaðnum Villa. Töluvert hefur verið af frásögnum veiðimanna úr Eldvatninu af fiskum sem hafa haft betur í viðureign við veiðimenn og sagði mjög stórir. Það er í sjálfu sér ósköp eðlilegt að fiskar sem eru komnir í níutíu sentímetra plús flokkinn og ný komnir úr hafi, séu erfiðir viðureignar.

Bæði Vatnamótin og Tungufljót hafa gefið fiska í þessari stærð í haust. Þann 11. ágúst var 97 sentímetra birtingi landað í Tungufljóti og þar var að verki góðkunningi Sporðakasta Maros Zatko að verki. Þessi fiskur er sá stærsti sem komið hefur á land í Tungufljóti í ár. Hann veiddist í Syðri – Hólma.

Maros setti í annað tröll á öðrum stað, aðeins austar og landaði 93 sentímetra birtingi í Vatnamótum 26 ágúst.

Guðjón Snorri Þóroddsson með 94 sentímetra sjóbirting sem hann veiddi …
Guðjón Snorri Þóroddsson með 94 sentímetra sjóbirting sem hann veiddi á svæði eitt í Eyjafjarðará í ágúst. Stórum birtingum þar hefur fjölgað eins og svo víða. Ljósmynd/GSÞ

Eyjafjarðará hefur líka verið að gefa fiska í þessum stærðarflokki í vaxandi mæli. Guðjón Snorri Þóroddsson veiddi 94 sentímetra birting á svæði eitt síðari hluta ágúst mánaðar og tók sá fiskur Rauðan Ghost. Í byrjun tímabils í vor komu margir stórir birtingar úr Eyjafjarðaránni.

Þá er ónefnd Húseyjarkvísl í Skagafirði sem er öflug sjóbirtingsá. Þar að sama skapi hefur stórum birtingum fjölgað og var sérstaklega tekið eftir því í vor hversu vel haldnir birtingarnir voru þar.

Nú þegar besti tíminn í sjóbirtingi er að renna upp verður gaman að sjá hvað skilar af þessum allra stærstu. Á sama tíma er jákvætt að sjá að smærri birtingur er að veiðast í öllum þessum ám og er það gott merki um að nýjar kynslóðir eru á sínum stað.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
101 cm Víðidalsá Nils Folmer Jorgensen 17. september 17.9.
100 cm Stóra - Laxá Jóhann Gunnar Jóhannsson 13. september 13.9.
100 cm Miðfjarðará Daði Þorsteinsson 12. september 12.9.
102 cm Stóra - Laxá Reto Suremann 10. september 10.9.
103 cm Stóra - Laxá Magnús Stephensen 10. september 10.9.

Skoða meira