Þegar hundraðkallinn mældist 99 sm

Alexander Arnarson með 99 sentímetra fiskinn úr Blöndu fjögur,í ágúst …
Alexander Arnarson með 99 sentímetra fiskinn úr Blöndu fjögur,í ágúst 2016. Eins og sjá má á myndinni er trjónan á stórlaxinum eins og hún hafi kýlst inn. Óskaddaður lax af þessari stærðargráðu hefði mælst hundrað sentímetrar. Ljósmynd/AA

Alexander Arnarson er eins og svo margir veiðimenn, að eltast við drauminn um hundrað sentímetra lax. Hann setti í og landaði einum slíkum fyrir nokkrum árum uppi á fjórða svæði í Blöndu. „Ég sá strax að þetta var mjög stór fiskur. Sporðblaðkan var ávísun á spennandi mælingu,“ sagði Alexander í samtali við Sporðaköst.

Viðureignin var löng og ströng og þeir toguðust á í góðan hálftíma. Þetta hafði verið hörku vakt hjá Alexi og félögum og þeir landað mörgum stórlöxum. Þessi bar þó af í krafti og styrk.

„Við urðum svakalega ánægðir þegar við lönduðum honum og vorum sammála ég og félagi minn að þessi hlyti að standa hundrað sentímetra. Það var hins vegar mikið lýti á honum og engu líkara en að þessi fiskur hefði lent í harkalegu samstuði á lífsleiðinni. Jafnvel við flutningaskip hélt félagi minn.“

Þegar laxinn var mældur var hann sléttir 99 sentímetrar. Þeir litu hvor á annan og ætluðu vart að trúa eigin augum. Það rann upp fyrir þeim að samstuðið hjá þessum laxi var að gera draum Alexanders að engu, í þetta skiptið. Fiskurinn var mældur á nýjan leik. „Við marg mældum hann og það var alltaf sama niðurstaðan. Hann var 99 sentímetrar. Ef nebbinn hefði verið í lagi er öruggt að þessi fiskur hefði staðið hundrað sentímetra og vel það.“

Nefbrotni hængurinn úr Fitjá sem mældist níutíu sentímetrar. Hann hefur …
Nefbrotni hængurinn úr Fitjá sem mældist níutíu sentímetrar. Hann hefur lent í einhverju brasi svo ekki sé meira sagt. Ljósmynd/Magnús Jens Hjaltested

Ástæðan fyrir því að þessi saga er nú rifjuð upp er sú að Alexander er nú að veiða í Víðidalsá og fékk þá glæsilegan hæng í Laxapolli í Fitjá. Hann mældist 90 sentímetrar og var illa skaddaður á trjónu. Þá rifjaðist upp sagan úr Blöndu, þegar draumurinn varð að engu. Alexander er enn að bíða eftir hundrað sentímetra fiski.

Alexander með 98 sentímetra laxinn sem hann veiddi í morgun …
Alexander með 98 sentímetra laxinn sem hann veiddi í morgun í Víðidalsá. Þetta er stærsti laxinn til þessa úr ánni. Fiskurinn veiddist í veiðistaðnum Faxabakka. Ljósmynd/Magnús Jens Hjaltested

Það gerðist svo í morgun að títt nefndur Alexander setti í og landaði stærsta lax sumarsins í Víðidalsá. Þar var á ferðinni mikill og fallegur hængur sem mældist 98 sentímetra langur og 52 sentímetrar í ummál. Þar er á ferðinni fiskur sem nær auðveldlega tíu kílóum eða tuttugu pundum. Það var einmitt viðmiðið áður en veiða og sleppa ruddi sér til rúms. En draumurinn lifir góðu lífi hjá Alexander. Sporðaköst óska honum til hamingju með þennan stærsta fisk sumarsins í Víðidalsá til þessa.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert